Píanótími Björg Sigurbjörnsdóttir kennari, Rakel Sveinsdóttir og Guðný.
Píanótími Björg Sigurbjörnsdóttir kennari, Rakel Sveinsdóttir og Guðný. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
Guðný Sverrisdóttir frá Lómatjörn er eflaust eini sveitarstjóri landsins sem býr við þann munað að geta hlýtt á lifandi tónlist allan liðlangan vinnudaginn.

Guðný Sverrisdóttir frá Lómatjörn er eflaust eini sveitarstjóri landsins sem býr við þann munað að geta hlýtt á lifandi tónlist allan liðlangan vinnudaginn. Í Gamla barnaskólanum á Grenivík, þar sem Grýtubakkahreppur er með skrifstofu, er nefnilega tónlistarskólinn á efri hæðinni og þegar Morgunblaðið kom í heimsókn liðu mjúkir píanótónar ofan af loftinu.

Guðný hefur starfað samtals 44 ár í þessu sama húsi. Geri aðrir betur! Hún var þar fyrst í grunnskóla í sex ár, kenndi síðar við skólann í önnur sex, vann jafn lengi á skrifstofu sveitarfélagsins eftir að skólinn var fluttur í nýtt hús, og hefur nú verið sveitarstjóri í 26 ár.

Guðný er ekki lengi að nefna, þegar spurt er, að hjarta byggðarlagsins slær í sjávarútveginum. Enda sjósókn verið lífsbjörg Grenvíkinga frá öndverðu og verður án efa áfram. Sveitarfélagið á nefnilega kvóta, nokkur hundruð þúsund þorskígildistonn.

Framsýn og gáfuð!

„Við byrjuðum að kaupa 1988 og höfum bætt smávegis við síðan, annað slagið,“ segir Guðný.

Stærsta skammtinn eignaðist hreppurinn 1993 þegar hann keypti skipið Sænes. „Við seldum það aftur en kvótinn varð eftir,“ segir Guðný og fullyrðir að þetta sé stórmál fyrir hreppinn. Stofnað var félag, Sænes, til að halda utan um kvótaeignina á sínum tíma. „Við sáum að það væri erfitt að vera sjávarbyggð með engan kvóta. Auðvitað vonuðum við að kvóti færi ekki frá okkur, en eitt er að vona; veruleikinn getur verið allt annar. Já – við skulum bara segja að við höfum verið svona framsýn og gáfuð!“ segir hún spurð um ástæður fyrstu kaupanna á sínum tíma.

Guðný nefnir hve slæm félagsleg áhrif það geti haft þegar kvóti er seldur frá einu byggðarlagi til annars. „Það er ekki gott þegar byggðarlag stendur uppi kvótalaust. Þarna höfum við þó smávegis bakhjarl,“ segir hún en áréttar að nánast enginn kvóti hafi farið úr sveitarfélaginu í gegnum tíðina. Þegar Sjöfn EA var seld á sínum tíma hafi útgerðin Frosti t.d. keypt.

Útgerðarfélagið Gjögur er stærsti vinnuveitandi í Grýtubakkahreppi. Öll þrjú skip fyrirtækisins, Hákon, Vörður og Áskell, eru skráð á Grenivík og hreppurinn samdi við félagið um rekstur frystihússins fyrir um það bil þremur árum, eftir að Brim hætti. Gjögur „vistar“ kvóta hreppsins eins og Guðný kallar það og skv. samningi er aflinn allur unninn á Grenivík. Vert er að geta þess að Gjögur vinnur raunar töluvert meiri afla í frystihúsinu á staðnum en nemur kvóta hreppsins, skv. upplýsingum Inga Jóhanns Guðmundssonar, framkvæmdastjóra Gjögurs.

Næga atvinnu er að hafa á Grenivík og þar er enginn skráður atvinnulaus um þessar mundir. skapti@mbl.is