[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Handbolti Ívar Benediktsson iben@mbl.

Handbolti

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

„Ég varð bara að nýta tækifærið loksins þegar ég fékk það en ég fékk ekki eins mörg tækifæri á undirbúningstímabilinu og ég hefði viljað,“ sagði Haukur Jónsson, markvörður ÍBV, sem svo sannarlega kom, sá og sigraði með liði sínu gegn ÍR í fyrstu umferð Olís-deildarinnar í handknattleik. Haukur kom í mark ÍBV undir lok fyrri hálfleiks í fyrrgreindum leik í Austurbergi á síðasta laugardag. Hann varði 17 skot og átti ekki sístan þátt í að Eyjamenn sneru leiknum sér í hag og unnu síðari hálfleik með 12 marka mun, 19:7, og leikinn sjálfan 30:22.

„Við fengum heldur ekki eins marga æfingaleiki á undirbúningstímanum og vonir stóðu til. Herjólfur var á stundum að stríða okkur,“ segir Haukur, sem er 21 árs gamall, léttur í bragði. „Þá er ekkert annað að gera en að nýta þau tækifæri sem bjóðast,“ segir Haukur sem kom upp úr öðrum flokki í vor. „Nú er ég í fyrsta sinn aðeins í meistaraflokki eftir að hafa leikið með fleiri en einum flokki síðustu árin. Í fyrra lék ég til dæmis jafnt með meistaraflokki og öðrum flokki.

Áttu ekkert svar

Um leið og ég kom inn á breyttum við í sex-núll-vörn. Segja má að ÍR-ingar hafi ekki átt neitt svar gegn okkur eftir það. Vörnin small í lás.

Við eigum að vera með mjög góða sex-núll-vörn með Sindra Haraldsson og Magnús Stefánsson í aðalhlutverkum,“ segir Haukur sem vinnur hjá Eimskipum í Vestmannaeyjum eftir að hafa lokið námi við Framhaldsskólann í Vestmannaeyjum í vor.

„Ég vona að sigurinn á ÍR gefi okkur aukið sjálfstraust fyrir átökin sem framundan eru í deildinni. Fyrri hálfleikur gegn ÍR var slakur. Það var sennilega stress í mönnum enda talsvert stökk að leika í efstu deild eftir nokkurra ára veru í 1. deildinni.

Það er heldur ekki létt að byrja á útivelli gegn ÍR. ÍR-ingar eiga einn allra sterkasta heimavöll landsins sem sýndi sig meðal annars í fyrra í því að það voru ekki mörg lið sem sóttu gull í greipar ÍR í Austurbergið.“

Sóttist eftir að fara í markið

Haukur segist hafa æft handknattleik frá því að hann var ungur peyi. „Ég var í fótboltanum upp í annan flokk og einnig nokkra vetur í körfuboltanum. Síðan ákvað ég að halda mig við handboltann,“ segir Haukur, sem alltaf hefur leikið stöðu markvarðar. „Ég sóttist strax eftir að fara í markið. Af hverju man ég ekki,“ segir Haukur og bætir við að markvarðaþjálfun mætti vera meiri í Eyjum en raun ber vitni. „Sigmar Þröstur [Óskarsson] hefur stundum komið og leiðbeint okkur markvörðunum en hann er sjómaður og getur því ekki verið með reglubundnar æfingar eins og æskilegt væri,“ segir Haukur.

Um keppnistímabilið framundan segir Haukur að ÍBV-liðið hafi ekki gefið út neitt markmið opinberlega. „Nú hugsum við aðeins um næsta leik, sem verður við Hauka á heimavelli næsta laugardag. Það verður fyrsti heimaleikur ÍBV í efstu deild karla í handknattleik í rúm fimm ár. „Ég trúi ekki öðru en það verði góð stemning á þeim leik. Mikið hefur verið rætt um að mynda „gryfjustemningu“ í gamla salnum þar sem við ætlum að leika heimaleiki okkar. Nú er komið að því að láta verkin tala,“ segir Haukur Jónsson, markvörður ÍBV og leikmaður 1. umferðar Olís-deildar karla í handknattleik.