Í pallborði Frá vinstri má sjá Poul Degnbol, forstöðumann vísindalegrar ráðgjafar hjá ICES, Paul Connolly, forseta ICES, Anne Christine Brusendorff, framkvæmdastjóra ICES, Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, og Ólaf S. Ástþórsson, aðstoðarforstjóra hjá sömu stofnun.
Í pallborði Frá vinstri má sjá Poul Degnbol, forstöðumann vísindalegrar ráðgjafar hjá ICES, Paul Connolly, forseta ICES, Anne Christine Brusendorff, framkvæmdastjóra ICES, Jóhann Sigurjónsson, forstjóra Hafrannsóknastofnunar, og Ólaf S. Ástþórsson, aðstoðarforstjóra hjá sömu stofnun. — Morgunblaðið/Rósa Braga
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baksvið Baldur Arnarson baldura@mbl.is Stilla ber væntingum um makrílveiðar í grænlensku lögsögunni á næstu árum og áratugum í hóf, enda bendir sagan til þess að sveiflur geti orðið í stofninum og vaxandi makrílgengd á svæðinu gengið til baka.

Baksvið

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Stilla ber væntingum um makrílveiðar í grænlensku lögsögunni á næstu árum og áratugum í hóf, enda bendir sagan til þess að sveiflur geti orðið í stofninum og vaxandi makrílgengd á svæðinu gengið til baka.

Þetta kom fram í svari Poul Degnbol, forstöðumanns vísindalegrar ráðgjafar hjá Alþjóðahafrannsóknaráðinu, ICES, við fyrirspurn Morgunblaðsins á blaðamannafundi forystumanna ráðsins í Hörpunni í gær.

Nú fer fram ársfundur ráðsins og er Hafrannsóknastofnun gestgjafinn að þessu sinni. Ráðið samanstendur af 20 þjóðum við Norður-Atlantshaf, Norðursjó og við Eystrasalt. Um 4.000 vísindamenn taka þátt í samstarfi á þess vegum og sækja þar af um 700 vísindamenn ársfundinn í Reykjavík sem lýkur á föstudaginn.

Eftir að formlegri kynningu forystumanna ráðsins á fundinum lauk var opnað fyrir spurningar úr sal.

Spurður við það tilefni út í þau ummæli Alequ Hammond, formanns grænlensku landsstjórnarinnar í Morgunblaðinu fyrr í mánuðinum, að fiskveiðar í lögsögu Grænlendinga geti stóraukist á næstu árum með nýtingu nýrra tegunda kvaðst Degnbol ekki vera kunnugt um slíkar spár. Taldi hann væntingar Hammond um hagnýtingu fjölda nýrra tegunda reistar á þó nokkurri bjartsýni.

Ótímabærar spár um veiði

Sagði Degnbol að ef ísinn við Grænland hopar kunni það að opna á ný veiðisvæði. Grænland væri ekki einsdæmi í þessu efni. Þannig hefði til dæmis orðið breyting á dreifingu fiskistofna í Barentshafi. Hvað snerti hafsvæðið austur af Grænlandi væri hins vegar ótímabært að spá stórauknum fiskveiðum þar.

Þá benti Degnbol á að fiskistofnar væru á stöðugri hreyfingu í hafinu og væru því í eðli sínu ekki bundnir við tiltekin hafsvæði til frambúðar.

Nefndi hann sem dæmi að á miðöldum hefðu nokkrir fiskistofnar sem nú væru í Norður-Atlantshafinu haldið sig nokkur hundruð kílómetra austar í austurhluta Eystrasaltsins.

„Ég held að ég geti því með fullvissu sagt að [aukin makrílgengd við Grænland] verði ekki varanleg en hvenær það mun breytast veit enginn með vissu,“ sagði Degnbol sem svaraði því aðspurður til að hann væri ekki endilega að tala um langan tíma í þessu efni. „Allt getur þetta gerst býsna hratt. Aukin makrílgengd til norðvesturs hefur aðeins verið mikil að umfangi síðustu fimm til tíu árin. Hún hefur því gerst nokkuð hratt. Það geta því orðið hraðar breytingar í lífríkinu. Þær geta líka snúist við,“ sagði Degnbol.

Jóhann Sigurjónsson, forstjóri Hafrannsóknastofnunar, lagði í framhaldinu orð í belg og benti á miklar sveiflur í hitastiginu við Ísland, sem aftur kynni að hafa áhrif á fiskistofna. Urðu þau ummæli tilefni viðtals hér fyrir neðan.

Fram kom í máli Jóhanns að Ísland hefði verið aðili að ICES síðan 1938, þegar slæm staða margra fiskistofna var mörgum áhyggjuefni. Íslendingar hefðu talið það skyldu sína að taka þátt í starfi ráðsins til að reisa fiskistofnana við. Voru þá 36 ár liðin frá stofnun ráðsins í Kaupmannahöfn árið 1902. Sagði Jóhann að alþjóðlegt samstarf vísindamanna víða um heim á vettvangi ráðsins væri grundvöllur veiðiráðgjafar Hafrannsóknastofnunar hverju sinni.

„Við höfum að eigin frumkvæði ákveðið að leita eftir jafningjarýni frá ráðinu vegna flestra fiskistofna okkar. Við teljum enda einkar mikilvægt að utanaðkomandi aðili fari yfir greiningu okkar og leggi okkur þannig lið við mótun veiðráðgjafar á vísindalegum grunni,“ sagði hann.

Þakkar Íslendingum

Anne Christine Brusendorff, framkvæmdastjóri ICES í Kaupmannahöfn, vildi í stuttu ávarpi koma á framfæri þakklæti til Íslendinga. Ársfundurinn væri stórviðburður í vísindaheiminum.

Paul Connelly, forseti ICES, var einnig í pallborði. Spurður hvaða áherslur muni sjást í vísindalegri stefnumótun ráðsins á næstu árum sagði hann að auka þyrfti skilvirkni hinnar vísindalegu ráðgjafar, m.a. m.t.t. skjótrar miðlunar gagna.

Súrnun hafsins áhyggjuefni

„Margvíslegar breytingar eiga sér nú stað í hafinu. Loftslagsbreytingar og súrnun hafanna eru meðal þeirra,“ segir Paul Connolly, forseti Alþjóðahafrannsóknaráðsins (ICES), sem telur vísindamenn ekki enn skilja til fulls áhrifin af hækkandi sýrustigi á lífríki sjávar.

Connolly telur brýnt að koma almenningi í skilning um súrnun hafanna en sú öfugþróun er tilkomin vegna aukins magns koldíoxíðs í andrúmslofti samfara bruna mannsins á jarðefnaeldsneyti.

„Vísindamenn hafa um langa hríð rætt um loftslagsbreytingar og ég held að almenningur geri sér mjög vel grein fyrir áhrifum þeirra. Súrnun hafanna er hins vegar nýtt rannsóknarsvið og hún mun, að mati ICES, hafa mikil áhrif á umhverfið og á fæðuhringrásina í lífríkinu. Samt er það svo að vísindamenn hafa ekki útskýrt þetta fyrir almenningi. Ég tel að það sé því í senn mikilvæg og mikil áskorun fyrir ICES að hefja samræður við almenning og gera honum þannig grein fyrir að breytingar séu að verða í höfunum vegna súrnunar.

Við sjáum þegar merki um súrnunina. Vandamálið sem við stöndum frammi fyrir sem vísindamenn er að við skiljum ekki til fulls afleiðingar þeirra breytinga sem súrnunin mun valda á fæðuhringrásinni og á lífríkinu almennt.“

Connolly, sem er Íri og skipaður forseti ICES árin 2012-2015, vildi ekki tjá sig um spennu milli Íra og Íslendinga í makríldeilunni. Það væri ekki hlutverk hans sem forseta ICES að tjá sig um deiluna.

Kólnun hafs kæmi niður á makrílnum

• Veðurfræðingur vísar til sögunnar Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Þróun veðurfars á Íslandi frá ofanverðri 19. öld gefur tilefni til að ætla að veður geti farið kólnandi á næstu árum og áratugum, með þeim afleiðingum að sjórinn í kringum landið verði kaldari en hann er í dag.

Þetta er mat Páls Bergþórssonar veðurfræðings sem vísar til sveiflna í veðurfari frá árinu 1880.

Kalt hafi verið í veðri á árunum 1880 til 1920. Síðan hafi hlýnað mikið fram undir 1940 þegar hitinn náði hámarki. Þá hafi með rykkjum kólnað um á aðra gráðu fram undir 1980. Þar af hafi hafís verið við norðurströnd landsins árin 1965-1970.

Hitastigið hefur náð hámarki

Hitinn hafi náð lágmarki í kringum 1980. Síðan hafi hlýnað um eina og hálfa gráðu og metur Páll það svo að hitinn hafi nú náð hámarki.

Máli sínu til stuðnings vísar Páll til þess að útbreiðsla íss í Norður-Íshafi í sumar hafi ekki verið meiri í allmörg ár.

„Reynslan er sú að hlýnun gengur til baka þegar komið er að vissu marki. Það gerist líka þegar kólnar. Hitinn sveiflast milli tveggja marka, er óstöðugur á því bili en fer ekki út fyrir þau. Það mætti ætla að við séum nú nærri hámarkshita, líkt og við höfum reyndar verið í tíu ár. Því er möguleiki á því að það fari að kólna. Það gæti kólnað töluvert, um svo sem hálfa gráðu, og veturinn smátt og smátt orðið harðari.“

Gæti kólnað fram undir 2040

Hann leggur áherslu á að spár af þessu tagi séu óvissu háðar.

„Það er erfitt að spá um þetta en það er vel mögulegt að það muni kólna fram undir 2040,“ segir Páll sem telur þetta munu hafa áhrif á fiskistofna við Íslandsstrendur.

„Það er mjög hætt við því að makríllinn leggist af ef það kólnar eitthvað, og þorskurinn, hann minnkar líka hjá okkur, ef það kólnar mikið,“ segir Páll og bendir á að mikil útbreiðsla makríls við Íslandsstrendur hin síðari ár sé, eftir því sem hann best viti, einsdæmi á síðari tímum.