Blómasetrið Svava Víglundsdóttir í blómabúðinni. Það er í mörg horn að líta hjá Svövu og eiginmanni hennar, Unnsteini Arasyni.
Blómasetrið Svava Víglundsdóttir í blómabúðinni. Það er í mörg horn að líta hjá Svövu og eiginmanni hennar, Unnsteini Arasyni. — Morgunblaðið/Guðrún Vala Elísdóttir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Viðtal Guðrún Vala Elísdóttir Borgarnes Skúlagata 13 í Borgarnesi sem áður hýsti verslunina Kristý hafði staðið auð í einhvern tíma þegar Svava Víglundsdóttir ásamt manni sínum Unnsteini Arasyni opnaði þar blómabúð og gjafavöruverslun 1.

Viðtal

Guðrún Vala Elísdóttir

Borgarnes

Skúlagata 13 í Borgarnesi sem áður hýsti verslunina Kristý hafði staðið auð í einhvern tíma þegar Svava Víglundsdóttir ásamt manni sínum Unnsteini Arasyni opnaði þar blómabúð og gjafavöruverslun 1. desember á síðasta ári.

Í vor bættist við kaffihúsið ,,Kaffi Kyrrð“ og í sumar heimagisting. Þau hjónin höfðu um fimm ára skeið rekið blómabúð í Borgarnesi undir nafninu Blómaborg en opnuðu nýju búðina undir nafninu Blómasetrið.

Ætlaði að hætta rekstri

,,Ég hafði eiginlega ætlað mér að hætta rekstri um áramótin síðustu en þegar mér bauðst að taka þetta húsnæði í skiptum fyrir aðra eign, þurfti ég ekki að hugsa mig um. Ég held að húsið hafi beðið eftir mér, ég vissi að það var á sölu en var ekkert að hugsaa um það sérstaklega, en svo var ég á leiðinni til lögfræðings í bankanum til að semja og rek þá augun í auglýsingu um húsið. Ég segi við lögfræðinginn að ég ætli mér að hætta rekstri en svo hafi ég séð svo skemmtilegt hús sem bjóði upp á ýmsa mögleika og þá varð ekki aftur snúið. Ég einfaldlega lét hjartað ráða för og kýldi á þetta.“

Svava segist vera svo heppin að Unnsteinn maðurinn hennar sé húsasmíðameistari og þúsundþjalasmiður og þau hafa innréttað allt sjálf og nýtt gamla hluti. Þau búa á efri hæðinni þar sem þau hafa heimagistingu en verslunin og kaffihúsið er á neðri hæðinni.

Kyrrð, gleði og kærleikur

,,Eftir að hafa hafa kynnst húsinu sáum við aðra og fleiri möguleika sem húsnæðið bauð upp á. Fyrsta hugmyndin sem ég fékk var kaffihúsið en þar einbeitti ég mér að því að gera kærleiksríkt og notalegt umhverfi í austurlenskum anda.“

Kaffi Kyrrð er inn af blómabúðinni og þar er hægt að fá aðgang að tölvu, og gestir geta komið með sínar eigin tölvur. Jafnframt eru þar bækur og tímarit til að glugga í. Ekki er hægt að segja annað en að staðurinn sé einstaklega fallegur og afslappandi, með slakandi tónlist og vatnsnið auk ýmissa muna sem minna á framandi staði. ,,Hingað hefur komið margt fólk sem segir að þetta sé yndislegasti staður á Íslandi og reyndar að hvergi sé sambærilegur staður á landinu,“ segir Svava brosandi. Hún segist hafa gengið með hugmyndina um svona stað í mörg ár en þegar hún var um tvítugt ferðaðist hún um Taíland og Indland og varð fyrir miklum áhrifum.

,,Á mörgum af þessum flottu hótelum voru staðir í þessa veru, s.s. silkiblómabúð þar sem einnig var bar, kaffihús o.fl. Alltaf var þessi kyrrð, gleði og kærleikur og ég ákvað í hjarta mér að ef ég fengi einhverntímann tækifæri myndi ég opna svona stað. Nú er ég í draumahúsinu og hefur aldrei liðið betur.“

Gisting inni á heimilunu

Svava hefur verið í rekstri í 30 ár, byrjaði austur á Vopnafirði og rak þar hótel Tanga í 20 ár og síðar blómabúð. ,,Svo kynntist ég honum Unnsteini mínum og flutti til hans í Borgarnesið,“ segir Svava og bætir við að undanfarin 10 sumur hafi hún jafnframt séð um veiðihúsið við Haukadalsá í Dölum, en í sumar einbeitti hún sér að eigin rekstri. Í Blómasetrinu fást fjölbreyttar gjafavörur, blóm og skreytingar fyrir alls kyns tækifæri, allt frá vöggu til grafar. Þar er jafnframt sælkerahorn með vörum frá Stonewall Kitchen. Í Kaffi Kyrrð er boðið upp á kaffi, kökur, konfekt, léttvín og bjór en opið hefur verið frá 10 til 22 í sumar. Að sögn Svövu hefur aðsóknin verið góð, sérstakalega af ferðafólki.

Framar björtustu vonum

,,Já, viðtökur hafa verið framar björtustu vonum, og um miðjan ágúst byrjuðum við með gistinguna inni á heimili okkar uppi. Þar geta alls 5 manns gist og heimilið er bara opið fyrir þá eins og þeir séu heima hjá sér. Fólk notar eldhúsið og setustofuna og sérstaklega finnst útlendingunum æðislegt að vera svona inni á heimili“. Svava segist ætla að eyða starfsævinni og orkunni í að byggja þetta upp því hún hefur brennandi áhuga á því sem hún er að gera auk þess sem hún hefur ýmis framtíðaráform sem hún vill ekki láta uppi.

Margt skemmtilegt á döfinni

,,En ég get sagt þér það að margt skemmtilegt verður á döfinni í vetur, ég ætla að hafa kynningarkvöld með ýmsu sniðugu og uppákomur en mig langar líka að benda á að Kaffi Kyrrð er tilvalinn staður fyrir litla fundi, saumaklúbba eða bara ef vini og kunningja langar að hittast. Hér verður opið eftir því hvernig stemningin verður, opið lengur um helgar og ef fólk pantar sérstaklega.