Vinnuhópur níu ráðuneyta í Kaupmannahöfn hefur lagt fram aðgerðalista til að draga úr losun gróðurhúsalofts. Þar er að finna tillögur á borð við þá að ökunámi skuli breytt á þann veg að nemendum verði kenndur sparakstur og einnig að þeir sem þegar hafa bílpróf fari á námskeið til að læra hann.
Vinnuhópur níu ráðuneyta í Kaupmannahöfn hefur lagt fram aðgerðalista til að draga úr losun gróðurhúsalofts. Þar er að finna tillögur á borð við þá að ökunámi skuli breytt á þann veg að nemendum verði kenndur sparakstur og einnig að þeir sem þegar hafa bílpróf fari á námskeið til að læra hann. — Ljósmynd/Scanpix
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fyrst það stendur til í Danmörku er ekki ólíklegt að það verði síðar tekið upp hér á landi. En nú stendur til að þvinga um 2.000 danska ökukennara á námskeið til að læra að kenna nemendum sínum vistakstur.

Fyrst það stendur til í Danmörku er ekki ólíklegt að það verði síðar tekið upp hér á landi. En nú stendur til að þvinga um 2.000 danska ökukennara á námskeið til að læra að kenna nemendum sínum vistakstur.

Vinnuhópur sem samanstendur af fulltrúum níu ráðuneyta í Kaupmannahöfn hefur verið að hnoða saman lista yfir aðgerðir sem eiga að tryggja að markmið um 40% minni losun gróðurhúsalofts árið 2020 en árið 1990 náist.

Þar á meðal er sú aðgerð, að ökunámi skuli breytt þann veg að nemendum verði kenndur sparakstur. Í tímariti dönsku ökukennarasamtakanna, Kørelæreren, segir, að einnig sé til skoðunar að jafnvel þeir sem séu nú þegar með bílpróf og handhafar ökuskírteinis verði skyldaðir á námskeið til að læra sparaksturstækni.

Ökukennarar segja að til að slíkar aðgerðir verði sem skilvirkastar þurfi að útbúa kennslubílana með mæli er sýnir bensínnotkunina jafnóðum svo nemendur sjái hvernig eyðslan breytist með mismunandi akstursstíl. Reynslan sýni að almenningur eigi auðvelt með að ná allt að 20% bensínsparnaði í akstri á bílum sem búnir eru slíkum mælum – með því að breyta akstursstíl sínum.

Minni hraði og þar með útblástur

Vinnuhópurinn bendir á í niðurstöðum sínum, að almenn lækkun hámarkshraða úr 130 í 110 km/klst á dönsku hraðbrautum myndi hafa í för með sér verulega lækkun útblásturs gróðurhúsalofts og bensínsparnað. Á móti vegur að hraðalækkun kæmi niður á hreyfanleika og samfélagsskilvirknin yrði minni, en hraðbrautir væru einmitt byggðar til að ná niður ferðatíma.

Hvort af hraðalækkun verður kann að ráðast af niðurstöðum arðsemisútreikninga. Ríkið verður nefnilega af tekjum minnki notkun dísilolíu og bensíns og talsverður kostnaður fylgdi endurnýjun hraðaskilta um land allt. Á móti kemur að lægri umferðarhraði ætti að leiða til færri slysa og þar með lækkunar útgjalda og tilkostnaðar í heilbrigðiskerfinu.

agas@mbl.is

Forsjálni í ökutakti

Hér eru svo ýmsar leiðir til að draga úr eldsneytisnotkun bíla:

1. Sýndu forsjálni í ökutakti þannig að bremsa þurfi sem minnst.

2. Komdu þér fljótt upp í hraða og gírum, stigðu létt í bensínfótinn

eftir það.

3. Slakaðu ekki hægt á kúplingunni, stígðu og slepptu henni hratt og ákveðið.

4. Láttu bílinn hægja á sér í sem hæstum gír, t.d. þegar nálgast er rauð umferðarljós.

5. Skiptu yfir á mótstöðulítil dekk þegar hin fyrri eru orðin slitin.

6. Hafðu aldrei of lágan þrýsting í dekkjum.

7. Forðastu breiðar felgur og breið dekk.

8. Tæmdu skottið af óþarfa, léttu bílinn sem mest.

9. Skiptu út rafgeymi sem á erfitt með að halda hleðslu.

10. Notaðu sem minnst loftræstingu, rafhitun sæta, spegla og

afturrúðu.

11. Hafðu rúður uppi á ferð á þjóðvegum úti.

12. Láttu bílinn rúlla í gang ef aðstæður leyfa.

13. Dreptu á vélinni við bið á rauðum ljósum.

14. Passaðu að loftsía sé ekki stífluð.

15. Forðast skaltu óþarfa notkun búnaðar er gengur fyrir rafmagni.

16. Leggðu bílnum þannig að hann sé sólarmegin þegar ræsa á kalda vél.

17. Aktu aldrei með bensín með of lágri oktantölu.

18. Taktu ekki fram úr nema brýna nauðsyn beri til.

19. Forðastu hraðakstur á þjóðvegum úti.