Hjörtur L. Jónsson segir vinnubrögð fagmálastjóra Landgræðslunnar á stundum minna á ævintýrið um strákinn sem hrópaði „Úlfur, úlfur“ án þess að biðjast afsökunar þegar sýknað hefur verið í utanvegaakstursmálum sem fjallað hefur verið um. Hann segir trúverðugleikann rýrna fyrir bragðið.
Hjörtur L. Jónsson segir vinnubrögð fagmálastjóra Landgræðslunnar á stundum minna á ævintýrið um strákinn sem hrópaði „Úlfur, úlfur“ án þess að biðjast afsökunar þegar sýknað hefur verið í utanvegaakstursmálum sem fjallað hefur verið um. Hann segir trúverðugleikann rýrna fyrir bragðið. — Ljósmynd/Þorvaldur Örn Kristmundsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Talsvert hefur verið í fréttum auglýsingamyndband um ameríska jeppa sem tekið er í íslenskri náttúru, þar sem við fyrstu sýn virðist vera um utanvegaakstur að ræða.

Talsvert hefur verið í fréttum auglýsingamyndband um ameríska jeppa sem tekið er í íslenskri náttúru, þar sem við fyrstu sýn virðist vera um utanvegaakstur að ræða. Í Morgunblaðinu síðastliðinn laugardag birtist grein undir fyrirsögninni: Utanvegaakstur í auglýsingaskyni, og í undirmáli: Kæra til lögreglu undirbúin. Einnig var sama frétt birt á vefmiðlinum ruv.is undir fyrirsögninni: Svona auglýsingar eru „algjör óhæfa“.

Hjörtur L. Jónsson er ósáttur við þessar yfirlýsingar en hann hefur ferðast um hálendi Íslands í áratugi á mótorhjóli.

Ekið á merktum slóða

Fengið var álit hjá fagmálastjóra Landgræðslunnar í báðum fréttunum þar sem hann fer hörðum orðum um myndbandið og talað um að málið verði kært. Að sögn Hjartar verða menn að vera vissir í sleggjudómum yfir þessu myndbandi.

„Ef myndbandið er skoðað vandlega sést að myndartökumanni tekst að láta líta út fyrir að sé verið að keyra í ósnortinni náttúru,“ segir Hjörtur.

Myndbrotið sem flestir hafa verið að setja út á gerist á milli þriðju og fjórðu mínútu myndbandsins. Á þessum kafla virðast bílar vera að keyra hreinan utanvegaakstur. Þetta er einfaldlega ekki rétt að mati Hjartar.

„Bílarnir eru á slóða sem er af Landmannaleið upp að Sauðafellsvatni og að Litlu Heklu. Þessi slóði er á kortum eins og hægt er að sjá á ja.is til dæmis. Leitarorðið er Sauðafellsvatn og þá sést vel þessi leið.“

Hjörtur hefur ekið þessa leið mörgum sinnum á mótorhjóli og þekkir hana vel.

„Beygt er út af Landmannaleið beint norður af Sauðafelli og ekið að hraunröndinni milli hrauns og hlíðar í smástund eftir litlu skarði. Ekið er upp bratta brekku sem er mjög laus vikurbrekka en þegar upp er komið sést slóðinn vel að Sauðafellsvatni. Þaðan er ekinn hálfhringur í kringum vatnið og skáhallt upp hlíðina á Norðurbjöllum til suðurs í gegnum skarð sem er frekar bratt niður á sléttuna. Loks er farið beint að Litlu Heklu þar sem vegslóðinn endar við lítinn skúr með mælitækjum jarðvísindamanna. Ef þurrt hefur verið í nokkra daga er mjög erfitt að sjá slóðann og þarf öfluga bíla til að komast hann vegna þess hversu vikurinn er laus þarna. Þennan slóða þarf að stika því of mikið er af hjólförum fyrir utan hefðbundna slóð, sérstaklega á sléttunni. Í fyrra var einstaklega þurrt sumar og miðað við að myndbandið hafi verið tekið upp þá er engin furða þó að engin sjáist slóðin. Ég keyri þarna árlega og alltaf virðist slóðinn vera eins og að enginn hafi keyrt hann í mörg ár.“

Ósáttur við vinnubrögðin

Að sögn Hjartar er þetta ekki í fyrsta sinn sem fullyrt er í fjölmiðlum að verið sé að keyra utanvega og segir hann fagmálastjóra Landgræðslunnar áður hafa tjáð sig um utanvegaakstur í þessa veru.

„Fjölmiðlar og fagmálastjóri Landgræðslunnar hafa sjaldan nefnt það eða beðist afsökunar þegar sýknað hefur verið í utanvegaakstursmálum sem þeir hafa nefnt og fjallað um. Trúverðugleiki þessara aðila rýrnar við svona óvönduð vinnubrögð og minnir helst á ævintýrið þar sem strákurinn kallaði; úlfur, úlfur. Ég er félagi í Slóðavinum en á fyrsta starfsári samtakanna var þessi leið frá Landmannaleið að Litlu Heklu stikuð. Einhverra hluta vegna voru allar stikurnar horfnar tveim árum seinna. Andrés Arnalds hefur kallað Slóðavini sóðavini í fyrirlestrinum Ísland örum skorið. Sannleikurinn er sá að frá stofnun Slóðavina 2008 hafa þeir lagt mikið upp úr því að keyra eingöngu á merktum slóðum. Því til staðfestingar hafa þeir gefið út umhverfisbækling þar sem allir eru hvattir til að virða náttúru Íslands og keyra eingöngu á merktum slóðum.“

njall@mbl.is