Landspítalinn Neikvæð umræða getur aukið á einkenni sjúklinga.
Landspítalinn Neikvæð umræða getur aukið á einkenni sjúklinga. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
Ingveldur Geirsdóttir ingveldur@mbl.is Hjá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélags Íslands hefur að undanförnu fjölgað þeim sem hafa komið í viðtöl og talað við ráðgjafa í síma.

Ingveldur Geirsdóttir

ingveldur@mbl.is

Hjá Ráðgjafaþjónustu Krabbameinsfélags Íslands hefur að undanförnu fjölgað þeim sem hafa komið í viðtöl og talað við ráðgjafa í síma.

Sigrún Lillie Magnúsdóttir, forstöðumaður Ráðgjafaþjónustunnar, segir krabbameinssjúklinga orðna upplýstari um hvar þeir geti leitað stuðnings en vissulega hjálpi neikvæð umræða um stöðu krabbameinslækninga á Landspítalanum ekki til. „Fólk er uggandi og við heyrum það og skynjum,“ segir Sigrún. „Við sjáum að starfsfólkið á spítalanum er að reyna að finna leiðir til þess að koma til móts við hópinn þrátt fyrir slæma stöðu. Ég held að það sé mikilvægt að fólk heyri það líka að það er verið að gera það sem hægt er að gera. Kannski þarf að breyta einhverjum vinnuferlum og öðru en samt alltaf með öryggi sjúklinga að leiðarljósi. Við þurfum að horfa á hvað við höfum núna og hvernig við getum unnið sem best saman úr því til þess að koma til móts við þennan hóp.“

Sigrún segir neikvæða umræðu í samfélaginu auka á áhyggjur sjúklinga. „Umræðan ein getur aukið á öll einkenni sem sjúklingar eru þegar að glíma við. Þegar áhyggjur hellast yfir getur það haft mikil áhrif, t.d á verki, aukið kvíða og valdið svefnörðugleikum. Mikilvægt er að muna eftir því að á bak við hvern sjúkling standa fleiri sem einnig þurfa aðstoð og umræðan hefur áhrif á. Minna heyrist af því sem vel gengur en um það heyrum við daglega í Ráðgjafaþjónustunni. Við verðum að finna leið til að byggja fólkið upp frekar en að auka áhyggjur þess.“

Eykur á óttann

Ragnheiður Davíðsdóttir, framkvæmdastjóri Krafts, stuðningsfélags ungs fólks sem greinst hefur með krabbamein og aðstandendur, segir að þau hafi tvímælalaust orðið vör við auknar áhyggjur krabbameinssjúkra. „Það fer ekki á milli mála að fólk er mjög uggandi yfir þessu ástandi. Það er gríðarlegur ótti að greinast með krabbamein hvað þá að standa frammi fyrir því að það sé einhver óvissa með krabbameinslækningar í landinu.“