Borgin telur 70.000 undirskriftir ekki með þegar hún segir frá athugasemdum við aðalskipulag

Í frétt á vef Reykjavíkurborgar segir að athugasemdir hafi borist frá um 200 aðilum við tillögu að nýju aðalskipulagi. Í fréttinni segir að það hafi verið „einstaklingar, fyrirtæki, íbúasamtök, félagasamtök og hópar sem stóðu að undirskriftasöfnunum sem sendu athugasemdir.“

Ekki er minnst orði á það í fréttinni á vef borgarinnar að um 70.000 manns hafi undirritað hvatningu þess efnis að Reykjavíkurflugvöllur yrði áfram í Vatnsmýrinni. Einhverjir myndu líta svo á að þessi fjöldi sýndi að athugasemdirnar við aðalskipulagstillöguna hefðu verið töluvert fleiri en 200.

Í frétt borgarinnar segir einnig að athugasemdirnar verði til skoðunar og umræðu hjá borgaryfirvöldum á næstu vikum þar sem metið verði „hvort og þá hvernig“ brugðist verði við þeim.

Augljóst er að ef borgaryfirvöldum væri einhver alvara með því að vilja eiga samráð við íbúa um nýtt skipulag þyrfti enginn að velta því fyrir sér hvort brugðist yrði við öllum þeim mikla fjölda áskorana um að hafa flugvöllinn þar sem hann er. Og skoðanakannanir sem sýna eindreginn vilja Reykvíkinga í þessu efni hefðu einnig áhrif ef borgaryfirvöldum væri alvara um samráð.

Allar vísbendingar eru hins vegar í þá átt að borgarstjórn muni ekki taka tillit til þeirra athugasemda sem borist hafa, hvorki formlega né óformlega. Allt bendir til að áfram verði anað af því fyrirhyggjuleysi sem ráðið hefur ferðinni í skipulagsmálum borgarinnar allt kjörtímabilið.