Kári Bragi Jónsson fæddist á Akureyri 21. júlí 1930. Hann lést á Hjúkrunarheimilinu Skjóli 14. september 2013.

Kári var sonur hjónanna Jóns Benediktssonar prentara, f. 15.6. 1898, d. 14.11. 1982, og Guðnýjar Ólafar Magnúsdóttur húsmóður, f. 10.7. 1896, d. 17.7. 1977. Systkini Kára eru: 1) Heiðbjört Unnur, f. 11.9. 1922, d. 20.2. 1981. 2) Brynhildur, f. 27.2. 1924. 3) Áslaug, f. 3.4. 1928, d. 2.9. 2008.

Kári kvæntist Ólafíu Margréti Guðjónsdóttur hjúkrunarfræðingi 4. apríl 1953, þau skildu. Árið 1978 hóf hann sambúð með Láru Stefaníu Ólafsdóttur. Héldu þau saman heimili í meira en tvo áratugi. Vináttu sinni slitu þau ekki þótt sambúðinni lyki.

Að loknu skyldu- og gagnfræðanámi fór Kári til náms við Menntaskólann á Akureyri skamman tíma, en afréð svo að feta í fótspor föður síns og afa og læra prentiðn. Fór hann á samning í Prentverki Odds Björnssonar á Akureyri og lauk sveinsprófi 1952, en meistarabréf í iðn sinni fékk hann 1978. Kári fluttist til Reykjavíkur að loknu námi og starfaði hjá Ísafoldarprentsmiðju frá 1953 til 1960 og hjá prentsmiðjunni Hilmi til 1962. Hann flutti þá norður að nýju og stofnaði ásamt fleirum prentsmiðjuna Valprent og vann þar næstu sjö árin. Seldi hann þá hlut sinn og keypti sig inn í Prentsmiðjuna Hóla í Reykjavík. Rak hann þá prentsmiðju fram til 1986 en vann eftir það hjá Prentsmiðjunni Eddu sem síðar varð Prentstofa G.Ben., og vann þar fram til aldamótanna. Meðfram því starfi rak hann einnig eigin prentsmiðju, Prentsetrið, sem lögð var niður fyrir rúmum áratug. Hann lét málefni stéttar sinnar til sín taka fyrr á árum, sat þá í trúnaðarstörfum fyrir félag prentara fyrir norðan, og sat um skeið í prófnefnd prentara á Akureyri.

Útför hans fór fram 25. september í kyrrþey að ósk hans.

Það er með sorg, en þakklæti sem við kveðjum góðan mann; elsku Kára frænda sem ávallt hefur verið stór hluti af okkar lífi. Kári, bróðir mömmu/ömmu okkar Ásu, var ekki bara bróðir heldur líka hennar besti vinur. Kári rifjaði oft upp þegar hann var tveggja ára og Ása kveikti í þykka, krullaða hárinu hans. Kári vildi meina að Ása hefði séð svo eftir hrekknum að hún hefði aldrei sleppt af honum hendi upp frá því og hugsað um velferð hans þar til hún lést fyrir fimm árum.

Kári ólst upp á Akureyri og fetaði í fótspor föður síns og afa og gerðist prentari. Samvistir Kára við bækur voru ekki einungis bundnar við prentunina, heldur var hann víðlesinn og fróður með eindæmum. Það var ávallt góð skemmtun að spjalla við Kára frænda, hann var vel að sér í þjóðmálum, hafði sterkar skoðanir á mönnum og málefnum, svo ekki sé nú minnst á pólitík.

Kári var einstakur maður og betri frænda er vart hægt að hugsa sér. Hann var stór hluti af okkar fjölskyldu og tók þátt í að fagna afmælum, jólum, áramótum og öðrum merkisatburðum í okkar lífi. Þó má segja að laufabrauðsbaksturinn hafi staðið upp úr en þar fengu listrænir hæfileikar Kára að njóta sín til hins ýtrasta. Hans verður sárt saknað í laufabrauðsbakstrinum í ár.

Hann frændi okkar var mikill handverksmaður, sótti námskeið í útskurði og listmálun með eldri borgurum. Við fjölskyldan nutum þess og var alltaf mikill spenningur að opna jólapakkana frá Kára þar sem hvert meistaraverkið á fætur öðru kom í ljós. Kári var óspar á að hrósa öðrum en var sjálfur hógværðin uppmáluð og vildi sem minnst af hrifningu okkar vita þegar til handverks hans kom.

Kári var mikill gleðimaður og minnumst við hans við sögur og söng yfir súkkulaðibolla og rjómatertu, öll ferðalögin saman norður á Akureyri, Klaustur, Flatey, Snæfellsnes, Hálsakot og fleira.

Kára var umhugað um velferð okkar, fylgdist með því sem var að gerast í lífi okkar af miklum áhuga og hlýju. Nú hugsum við til Kára á nýjum stað, í faðmi foreldra, systra og annarra ástvina. Búi mágur þakkar fyrir 61 árs gæfuríka samfylgd og minnist allra góðu stundanna.

Við vottum fjölskyldu og ástvinum Kára okkar dýpstu samúð.

Auður, Áslaug Sif

og Sara Hrund.