Vilhjálmur Þór Þórarinsson fæddist á Bakka í Svarfaðardal 18. nóvember 1949. Hann varð bráðkvaddur við smalamennsku í Sveinsstaðaafrétt í Skíðadal 7. september 2013.

Vilhjálmur Þór var jarðsunginn frá Dalvíkurkirkju 19. september 2013.

Í lífinu verða stundum höpp. Eitt af mínum höppum var að kynnast Villa eins og við Skagfirðingar kölluðum hann. Villi kom fyrst til mín að hausti fyrir tæpum fjórum árum þegar ég varð óvinnufær vegna bakslæmsku.

Það var ánægjulegt að fá Villa, hann sá um allt sem þurfti að gera. Þegar haustaði tók hann inn féð og sá um það. Hann var einstakt snyrtimenni, umgengni um hús og skepnur eins og ætti að mynda fyrir Hús og híbýli næsta dag. Hver skepna skipti máli, hann var góði hirðirinn. Þegar fé sást óheimt var það sérstakt áhugamál hjá honum að reyna að ná því. Ég dáðist að honum hvað hann var léttur á fæti og kvikur í hreyfingum.

Villi átti til sína sérvisku, sumt varð að gera eftir hans höfði og með hans lagi. Við lærðum hvor á annan, sumt gert eftir minni sérvisku, annað eftir hans. Okkur líkaði ekki alltaf hvors annars sérviska en lærðum að lifa við hana.

Villi var skoðanafastur og ekki varð honum haggað með sumt. Mér hefur alltaf þótt vænt um fólk, sem á það til að vera þversum við sum tækifæri. Það er eitthvað svo fallegt við það.

Það var gaman að gefa Villa koníak. Þá kom á hann þessi glettni svipur sem sagði: „Þetta er sko fagur hluti af lífinu.“ Villi dáðist að sínum dal, Svarfaðardalnum, og Grímsey, þar sem hann átti börn, tengdabörn og barnabörn, féð og svo nokkur hross. Lífið í Grímsey var honum mikilvægt. Hann sagði mér af fólki og fiskeríi, af fugli og ferðamönnum. Það var gaman að fá að fylgjast með þessu öllu. Villi var ekki fyrir að lifa eftir miklu skipulagi fram í tímann, en samt hafði hann alltaf tíma ef maður bað hann um eitthvað. Hann var svo óendanlega bóngóður.

Villi fór alltaf út í Grímsey um jól og páska og svo þegar leið að sauðburði fór hann að ókyrrast. Síðasta vor var hann óvenjulengi hjá mér því að hann vissi að sauðburðarfólkið var ekki komið og við ein á bænum. Hann var alltaf að hugsa um að ofgera okkur ekki. Vor og sumar í Grímsey var tími Villa, norðlenskar nætur við ysta haf. Þegar fuglinn kom á gullnum vængjum og settist í björgin sendi Villi mér svartfuglsegg í fötu, vissi að það þótti mér himnesk fæða.

Það haustar, í hönd fer vetur, vetur án Villa. Ég á eftir að sakna hans.

Hann var einstakur maður. Fjölskyldu Villa sendi ég mínar bestu kveðjur.

Agnar á Miklabæ.

Mistök urðu við birtingu þessarar greinar í Morgunblaðinu í gær þegar eingöngu hluti af henni birtist. Morgunblaðið biður hlutaðeigandi velvirðingar á mistökunum.