Lögregluaðgerð 15 voru handteknir í Auðbrekku í Kópavogi í gær.
Lögregluaðgerð 15 voru handteknir í Auðbrekku í Kópavogi í gær.
Gunnar Dofri Ólafsson gunnardofri@mbl.is Lögreglan handtók fimmtán manns í Auðbrekku í Kópavogi í gærmorgun. Hverfinu var lokað um tíma, en handtökurnar áttu sér stað um sexleytið í gærmorgun skv.

Gunnar Dofri Ólafsson

gunnardofri@mbl.is

Lögreglan handtók fimmtán manns í Auðbrekku í Kópavogi í gærmorgun. Hverfinu var lokað um tíma, en handtökurnar áttu sér stað um sexleytið í gærmorgun skv. upplýsingum frá Friðriki Smára Björgvinssyni, yfirmanni rannsóknardeildar lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu. Þeir voru fluttir til yfirheyrslu á lögreglustöð.

Að sögn Friðriks Smára var hald lagt á ýmsa muni og lítilræði af fíkniefnum við húsleit á staðnum en mennirnir eru búsettir í húsnæðinu. Mennirnir eru allir af erlendu bergi brotnir og með stöðu hælisleitenda samkvæmt tilkynningu frá lögreglu.

Horfnu Albanirnir fundnir

Hluti þeirra sem voru handteknir í gærmorgun eru Albanir sem hurfu eftir landsleik Albaníu og Íslands á Laugardalsvellinum nýverið.

Í tilkynningu frá lögreglunni kemur fram að við aðgerðirnar í gærmorgun naut lögreglan aðstoðar sérsveitar ríkislögreglustjóra og fíkniefnaleitarhunda frá tollinum.

Sleppt eftir yfirheyrslur

Nokkrum þeirra sem færðir voru til yfirheyrslu hjá lögreglu hefur þegar verið sleppt úr haldi.

Einn mannanna hefur játað eign sína á fíkniefnunum sem fundust við húsleit og telst sá hluti málsins upplýstur.

Á meðal muna sem lögreglan tók í sína vörslu eru eggvopn, sem eru talin brjóta í bága við vopnalöggjöf.

Mennirnir hafa að sögn látið ófriðlega í húsinu þar sem þeir voru handteknir.