Fyrir dómi Guðríður Jónsdóttir og Egill Einarsson í héraðsdómi í dag.
Fyrir dómi Guðríður Jónsdóttir og Egill Einarsson í héraðsdómi í dag. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Andri Karl andri@mbl.is „Það er hafið yfir allan vafa að vegið er að æru stefnanda [Egils] með alvarlegum hætti,“ sagði Vilhjálmur H.

Andri Karl

andri@mbl.is

„Það er hafið yfir allan vafa að vegið er að æru stefnanda [Egils] með alvarlegum hætti,“ sagði Vilhjálmur H. Vilhjálmsson, lögmaður fjölmiðlamannsins Egils Einarssonar, við aðalmeðferð í máli sem Egill höfðaði á hendur listakonunni Sunnu Ben Guðrúnardóttur. „Hún fullyrðir að hann hafi nauðgað unglingsstúlku en hvort tveggja er rangt. Hann hefur engum nauðgað og meintur brotaþoli var fullveðja einstaklingur en ekki unglingur,“ sagði hann.

Lögmaður Sunnu Ben krafðist sýknu fyrir skjólstæðing sinn og sagði að hatursáróður Egils undanfarin ár hefði rýmkað mörk tjáningarfrelsis gegn honum. Megi því ganga mjög langt í að gagnrýna hann.

Ummælin lét Sunna Ben falla á samfélagsvefnum Facebook. Komu þau til vegna viðtals við Egil sem birt var í Monitor, fylgiriti Morgunblaðsins, í nóvember í fyrra. Sunna sagði mótmæli vegna viðtalsins ekki árás á karlmann fyrir að segja eitthvað rangt heldur fyrir að nauðga unglingsstúlku og einnig að það sé gagnrýnivert að nauðgarar prýði forsíðu tímarita.

Sigríður Rut Júlíusdóttir, lögmaður Sunnu Ben, las upp nokkur ummæli Egils sem hún sagði niðrandi um blökkumenn og konur. Hún sagði hann einnig hafa hvatt til nauðgana í ummælum sínum og að honum væri mjög í nöp við femínista, Sunna Ben sé bæði femínisti og kona og því í þeim hópi sem Egill hafi ráðist gegn með orðræðu sinni. Hún hljóti að mega ganga alla vega jafn langt og hann sjálfur hefur farið.

Sigríður sagði síðar að Gillz væri tilbúið skrípi og að Egill hefði sjálfur gert eigin mannorði meira tjón en Sunna hefði getað gert.

Í ræðu sinni sagði Vilhjálmur að málið hefði aldrei verið höfðað hefði Sunna gert fyrirvara við orð sín, talað um meintan nauðgara eða mann sem kærður var fyrir kynferðisbrot. Hún hefði hins vegar fullyrt að Egill væri nauðgari og það þrátt fyrir vitneskju um að búið væri að fella mál á hendur Agli niður. „Þetta var ekki liður í málefnalegri umræðu. Þetta var sleggjudómur stefndu.“

Hann sagði ummælin ósönn, smekklaus og til þess fallin að sverta æru Egils. „Hagsmunir hans um að fá þau dæmd dauð og ómerk eru mjög miklir. [...] Réttarstaðan í þessu máli er algjörlega skýr. Egill Einarsson er með hreint sakavottorð, kærur vegna kynferðisbrota voru felldar niður. Ummæli stefndu þess efnis að hann sé nauðgari sem nauðgar unglingsstúlku og að hann sé nauðgari sem prýði forsíðu eru ærumeiðandi aðdróttun.“