Óskar Guðmundsson fæddist á Blesastöðum 5. maí 1929. Hann lést á Heilbrigðisstofnun Suðurlands 21. sept. 2013.

Foreldrar hans voru Kristín Jónsdóttir, f. 16. maí 1886, d. 2. september 1971, og Guðmundur Magnússon, f. 11. maí 1887, d. 20. október 1972. Kristín og Guðmundur giftu sig 9. júlí 1910. Þau eignuðust 15 börn. Auk þess átti Guðmundur dótturina Laufeyju, f. 20. mars 1920, með Sigríði Eiríksdóttur, f. 1. október 1886, d. 23. janúar 1966. Systkini Óskars eru: Jón, f. 14. mars 1911, d. 26.2. 2003, Magnús, f. 17. september 1912, d. 29.6. 1997, Hermann, f. 23. ágúst 1913, d. 18.10. 1980, Guðrún, f. 17. desember 1914, d. 22.3. 1997, Elín, f. 10. janúar 1916, Helga, f. 17. maí 1917, Þorbjörg, f. 1. júlí 1918, Magnea, f. 20. júlí 1919, d. 9.1. 2000, Ingigerður, f. 1. febrúar 1921, stúlka f. 10. febrúar 1922, lést í fæðingu, Óskar, f. 1. júlí 1923, d. 1924, Svanlaug, f. 8. júlí 1924, d. 14.4. 2007, Ingibjörg f. 2. september 1925, Hrefna, f. 5. júlí 1927.

Óskar kvæntist Helgu Kristjánsdóttur árið 1950. Helga var frá Merki í Vopnafirði, f. 17. júní 1929, d. 24. febrúar 1982. Óskar og Helga eignuðust þrjú börn. Þau eru: 1) Esther, f. 1949, gift Sigurði Jónssyni og eiga þau fjögur börn og níu barnabörn. 2) Guðmundur Kristinn, f. 1958, giftur Ingu Dóru Sverrisdóttur og eiga þau fjórar stúlkur. 3) Díana, f. 1967, hún á þrjú börn með Sigurjóni Bjarnasyni. Sambýlismaður Díönu er Hannibal Óskar Guðmundsson. Hannibal á þrjú börn.

Óskar ólst upp hjá foreldrum sínum á Blesastöðum á Skeiðum – yngstur í systkinahópnum. 16 ára gamall fór hann á Selfoss í iðnskólann og lærði járnsmíði. Óskar hóf fyrst störf hjá KÁ við járnsmíðar en vann síðar við pípulagnir. Fljótlega eftir að hann kom á Selfoss fór hann að spila í hljómsveit og var hann hljómsveitarstjóri til fjölda ára. Árið 1952 stofnaði Óskar Hljómsveit Óskars Guðmundssonar. Óskar hlaut menningarverðlaun Árborgar árið 2007 fyrir framlag sitt til tónlistarlífs Sunnlendinga.

Óskar fluttist til Svíþjóðar með fjölskyldu sinni árið 1969 og hóf þá störf við skipasmíðastöðina Kockums í Malmö. Fjölskyldan bjó í Svíþjóð í mörg ár en eftir lát Helgu fluttist Díana til Íslands á heimili systur sinnar.

Óskar fluttist aftur til Íslands árið 1987 og hóf þá störf hjá Olís í Reykjavík. Óskar kynntist Maríu Gísladóttur sem hefur verið sambýliskona hans í 22 ár. Þau voru búsett á Eyrarbakka þar sem þau hafa búið í tæplega 20 ár. María á einn son.

Útför Óskars fer fram frá Selfosskirkju í dag, 27. september 2013, og hefst athöfnin kl. 14.

Ég veit ekki hvort þú hefur,

hugann við það fest.

Að fegursta gjöf sem þú gefur,

er gjöfin sem varla sést.

Ástúð í andartaki,

augað sem glaðlega hlær,

hlýja í handartaki,

hjarta sem örar slær.

Allt sem þú hugsar í hljóði,

heimurinn breytir til.

Gef þú úr sálarsjóði,

sakleysi, fegurð og yl.

(Úlfur Ragnarsson)

Hvíl í friði elsku pabbi minn og tengdapabbi.

Guð geymi þig og verndi.

Esther og Sigurður.

Í dag kveðjum við afa okkar og langaði okkur bræðurna að minnast hans í nokkrum orðum.

Þegar við vorum litlir strákar var alltaf ævintýraljómi yfir afa. Hann hafði verið í hljómsveit í gamla daga, sem meira að segja var nefnd eftir honum, gat sungið og spilað á trommur, gítar, píanó og harmonikku, bjó í útlöndum, var með flott yfirvararskegg eins og kvikmyndastjarna, vann á olíuborpöllum og þegar hann kom í heimsókn til okkar var hann alltaf með eitthvað gott úr fríhöfninni.

Okkur langaði alltaf að spila á trommur eins og afi og vera aðalkallarnir í hljómsveit. Þar sem okkur voru ekki gefnir í vöggugjöf miklir tónlistarhæfileikar, hvorki til söngs né undirleiks, varð þessi draumur okkar ekki að veruleika. Mikið fannst okkur nú samt gaman þegar við vorum litlir og afi spilaði fyrir okkur pjakkana og við dönsuðum hressir og kátir.

Þegar afi flutti til landsins var kíkt í heimsóknir, einkum á Eyrarbakka, þar sem hann bjó ásamt Mæju sinni. Fastur liður í jólaundirbúningnum var að kíkja til afa og spjalla um daginn og veginn. Afi þreyttist ekki á að kíkja á bíla okkar bræðra og sjá hvað renndi í hlað, enda mikill bílaáhugamaður. Var gaman að spjalla við hann um bíla og líka þótti afa gaman að rifja upp gömlu hljómsveitarárin og segja okkur frá þeim.

Ein nýleg bílferð er okkur eftirminnileg en þá fór Óskar að sækja afa á Landspítalann í Reykjavík, þar sem hann dvaldi vegna veikinda sinna, og átti að skutla honum heim á Eyrarbakka. Á sama tíma hafði Helgi fest kaup á Land Rover-jeppa af Defender-gerð og þurfti Óskar því að sækja bæði bílinn og afa. Bíllinn þótti nú nokkuð staður, stífur og óhöndugur til aksturs á götum höfuðborgarinnar. Þá var hann mjög erfiður til uppstigs og þurftu því Óskar og afi að beita öllum kröftum til þess að gamli kæmist upp í bílinn. Þegar inn var komið var afi hæstánægður og lék við hvern sinn fingur. Við fréttum síðar að hann hefði sagt mömmu að þetta hefði nú verið alveg frábær jeppi sem Óskar hefði komið á. Er það líklega ein besta einkunn sem þessir jeppar hafa fengið.

Síðustu ár glímdi afi við heilsubrest en sýndi af sér mikla seiglu og elju í baráttu sinni. Þegar við hittumst síðast á sjúkrahúsinu var afi kátur og hress. Það var góð og notaleg stund.

Við viljum þakka þér, afi, fyrir góðar minningar og skemmtilegar stundir. Við biðjum líka góðan Guð styrkja Mæju konu hans.

Óskar og Helgi.

Þegar ég var lítil stelpa bjó afi minn í Svíþjóð. Hann hafði flust þangað með ömmu Helgu árið 1969 og bjó þar í tæp tuttugu ár. Fljótlega eftir að hann fluttist heim til Íslands aftur kynntist hann sambýliskonu sinni, Maríu Gísladóttur. Þau keyptu húsið Einarshöfn á Eyrarbakka og þar bjó afi ásamt Mæju sinni í tuttugu ár.

Afi Óskar var mikill tónlistarunnandi. Hann stofnaði hljómsveit Óskars Guðmundssonar árið 1952 sem var ein af fyrstu hljómsveitunum á Selfossi. Afi lagði því mikið til menningarlífs Selfyssinga og hlaut hann menningarverðlaun Árborgar árið 2007. Þá viðurkenningu þótti afa sérstaklega vænt um. Afa fannst gaman að tala um hljómsveitarárin og lifnaði allur þegar hann fékk tækifæri til að rifja upp gamla tíma. Það var auðséð að það gladdi afa mikið þegar bróðursonur minn ákvað að læra á trommur og var afi áhugasamur um hvernig stráksa gengi með kjuðana.

Afi glímdi við mikinn heilsubrest síðustu ár og var ótrúlega þrautseigur í veikindum sínum. Heilsuleysi afa varð til þess að samskiptin urðu minni en við vildum. Afi treysti sér lítið í veislur eða á mannamót. Mamma mín tók heilsuleysi hans afar nærri sér og er aðdáunarvert hve dugleg hún var að hugsa um afa og Mæju. Mamma fór reglulega í heimsóknir í Einarshöfn og oft tók hún litlu langafastelpurnar, Hugrúnu Birnu og Ástu Björk, með sér. Þær fengu tækifæri á að kynnast langafa sínum og flissuðu þegar afi gamli ruglaðist á nöfnum þeirra. Eitthvað var nú líka haft á orði að afi væri með rör í eyrunum til að heyra og fannst þeim það afar merkilegt. Það var lítið tár sem rann niður kinnar fimm ára hnátu á dánardegi afa. „Nú er langafi orðinn engill og ekki lengur veikur, hann getur líka flogið um allt!“ Blessuð börnin horfa einfalt á lífið og tilveruna en í þeirri einfeldni er líka huggun fyrir þá sem syrgja.

Ég fel í forsjá þína,

Guð faðir, sálu mína,

því nú er komin nótt.

Um ljósið lát mig dreyma

og ljúfa engla geyma

öll börnin þín, svo blundi rótt

(Matthías Jochumsson)

Elsku afi, hvíldu í friði og kærleika.

Sigríður Rós.

Mig langar með nokkrum orðum að minnast Óskars Guðmundssonar hljómsveitarstjóra frá Selfossi. Okkar kynni hófust árið 1963 þegar Óskar gerði okkur tilboð um að spila á böllum með sér. Okkur, sem vorum ungir drengir nýbúnir að stofna hljómsveitina Limbó frá Selfossi, þótti það mikill heiður að fá samning með hljómsveit Óskars Guðmundssonar. Í þá daga var hljómsveitin hans vinsæl og alls ráðandi á böllum á Suðurlandi. Margar landsfrægar hljómsveitir reyndu að komast inn á Suðurlandsmarkaðinn en mistókst það. Óskar var heppinn með hljóðfæraleikara og söngvara á þeim fimmtán árum sem hljómsveitin starfaði, þ.e. árin 1953-1968. Litlar mannabreytingar voru á hljómsveitinni, en ásamt Óskari störfuðu með honum lengst af þeir Leifur Guðmundsson, Loftur S. Loftsson, Þorsteinn Guðmundsson, Ásgeir Sigurðsson, Grétar Geirsson og söngvararnir Jakob Jónsson, Elín Bachmann og Arnór Þórhallsson.

Óskar var mikill samningamaður, mér eru minnisstæðar ferðir með honum til umsjónarmanna félagsheimilanna þar sem hann gerði skriflega samninga um niðurröðun hljómsveitanna á dansleiki sumarsins. Þannig tryggði hann að flest félagsheimilin héldu dansleiki án árekstra. Vinsældir sveitaballanna voru miklar á þessum tíma milli 400 og 800 manns voru um hverja helgi í félagsheimilunum á Suðurlandi. Ég hef oft sagt að mörg hjónaböndin standa í mikilli þakkarskuld við hljómsveit Óskars Guðmundssonar, sem hefur með framlagi sínu stuðlað að góðum hjónaböndum, verið óbeint starfandi hjónabandsmiðlun. Það sem var svo heillandi við hljómsveit Óskars Guðmundssonar var að hún lék tónlist við allra hæfi enda var aldursskipting gesta mikil. Það var þroskandi fyrir unga drengi að fá að spila á svona dansleikjum, en Óskar hafði skilning á okkar hlutverki, var hvetjandi og vildi veg okkar sem mestan. Minnisstæð voru trommusólóin sem Óskar tók, þá gekk mikið á og takturinn hélt sér allan tímann til enda.

Við höfum kallað hann kónginn á Suðurlandi í sveitaballamenningunni ásamt þeim öðrum sem síðar komu. Hann var heiðursgestur á Manstu vinur árið 1988 og aftur á 60 ára afmæli Selfossbæjar 2007. Með þessum orðum vil ég þakka Óskari góð kynni og þakka þá hvatningu sem hann sýndi ungum hljóðfæraleikurum á þeim tíma. Lokalagið á dansleikjum hjá honum bar íslenska textann: Á kveðjustund. Nú er komið að henni minn kæri. Sendi öllum aðstandendum mínar innilegustu samúðar kveðjur.

Björn Ingi Gíslason.

Kær vinur er fallinn frá. Við gömlu félagarnir í Hljómsveit Óskars Guðmundssonar munum ávallt minnast Óskars með hlýhug og virðingu.

Óskar var frumkvöðull í hljómsveitarlífinu á Suðurlandi. Hann og Þorsteinn Guðmundsson byrjuðu að spila saman á dansleikjum, síðan smáfjölgaði. Síðan bættust við Leifur Guðmundsson, Ásgeir Sigurðsson, Loftur S. Loftsson og Grétar Geirsson. Ýmsir söngvarar af Suðurlandinu sungu með hljómsveitinni. Eftir það voru fastráðnir söngvarar, Jakob Jónsson, Elín Bachmann og Arnór Þórhallsson. Hljómsveitin var ein vinsælasta hljómsveit á Suðurlandi í mörg ár. Vettvangurinn var réttarböllin, árshátíðir, þorrablót og svo sveitaböllin. Ný félagsheimili risu á þeim tíma sem við vorum saman og tókum við þátt í vígslu margra þeirra á Suðurlandinu.

Óskar var leiðtoginn í hópnum sem sá um allt í sambandi við dansleikina. Hann átti stóran amerískan skutbíl sem keyrði hljómsveitina á böllin og allt komst fyrir, hljóðfæri og meðlimir. Samanþjöppuð á leiðinni voru sagðir brandarar og mikið hlegið og mætti svo hópurinn ávallt glaður og hress á böllin enda var fjörið eftir því. Sætaferðir frá Selfossi tvær til þrjár rútur af sömu aðdáendunum sem héldu fjörinu gangandi. Þetta voru sérstakir tímar. Við æfðum vikulega í Iðnskólanum á Selfossi og tókum við starfið alvarlega. Sungum dúett, tríó, kvartett og kvintett. Ásgeir og Loftur útsettu. Samkomulag hljómsveitarmeðlima var einstakt, allir alltaf jákvæðir og aldrei féll styggðaryrði okkar á milli. Allir alltaf glaðir og kátir. Við komum úr ólíkum áttum, bændur, tónmenntakennari, kórstjórnandi, verslunarmaður, skrifstofufólk og vorum við öll í fullri vinnu samhliða spilamennskunni. Flestir voru að koma upp sínum fjölskyldum og heimilum. Í þessum hópi var mikil orka og aldrei kvartað.

Við gætum endalaust haldið áfram að rifja upp gömlu góðu tímana.

Við sendum börnum, sambýliskonu og fjölskyldunni innilegar samúðarkveðjur.

Guð veri með ykkur öllum.

F.h. Hljómsveitar Óskars Guðmundssonar,

Ásgeir Sigurðsson, Elín Bachmann, Grétar Geirsson, Jakob Jónsson

og Leifur Guðmundsson.