Lokakveðjan Katrín Jónsdóttir klappar fyrir áhorfendum eftir 133. og síðasta landsleik sinn fyrir Íslands hönd.
Lokakveðjan Katrín Jónsdóttir klappar fyrir áhorfendum eftir 133. og síðasta landsleik sinn fyrir Íslands hönd. — Morgunblaðið/Golli
„Auðvitað hefði maður viljað kveðja með sigri, maður er svekktur núna og næstu daga en svo horfir maður bara til baka til allra hinna leikjanna.

„Auðvitað hefði maður viljað kveðja með sigri, maður er svekktur núna og næstu daga en svo horfir maður bara til baka til allra hinna leikjanna. Ég vona bara að stelpurnar taki sig til og vinni næsta leik úti í Serbíu,“ sagði Katrín Jónsdóttir, fráfarandi fyrirliði íslenska landsliðsins í knattspyrnu, sem lék kveðjuleik sinn á Laugardalsvelli í gærkvöld.

Katrín lagði landsliðsskóna á hilluna eftir Evrópumótið í Svíþjóð í sumar en varð við bón nýráðins landsliðsþjálfara um að leika einn leik til viðbótar, og kveðja þjóðina á Laugardalsvelli. Andstæðingurinn, Sviss, kom hins vegar ekki með neinar kveðjugjafir heldur vann 2:0-sigur.

„Það er rosalega svekkjandi núna að hafa tapað þessum leik en svo verður maður bara að horfa á ferilinn í heild sinni. Ég er mikið betur tilbúin að hætta núna heldur en á Evrópumótinu, þar sem maður ætlaði sér alltaf lengra en áttaði sig svo allt í einu á að þetta væri búið. Þá voru tilfinningarnar enn meiri en núna. Auðvitað hefði verið skemmtilegra að kveðja með sigurleik en þetta er bara svona, leikurinn búinn og ekki hægt að gera meira. En ég verð áfram í góðu sambandi við stelpurnar og styð þær frá stúkunni,“ sagði Katrín.

„Það er svekkjandi fyrir liðið að byrja undankeppni HM svona. Við þurfum að gefa liðinu og nýjum þjálfara andrými og tíma til að komast af stað. Þetta er náttúrlega þvílík eldskírn að fá svona mótsleik í fyrsta leik. Oft fá þjálfarar að byrja á æfingaleik og svona [...]. Ég held hins vegar að liðið eigi fulla möguleika í þessari undankeppni. Ef liðið sýnir sitt allra besta getur það alveg unnið lið eins og Sviss,“ sagði Katrín. sindris@mbl.is