[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í dag verður opnuð í galleríinu Fotoloft, í Winzavod-listamiðstöðinni í Moskvu, ljósmyndasýningin „Aðventa á Fjöllum“ með verkum Sigurjóns Péturssonar.

Í dag verður opnuð í galleríinu Fotoloft, í Winzavod-listamiðstöðinni í Moskvu, ljósmyndasýningin „Aðventa á Fjöllum“ með verkum Sigurjóns Péturssonar. Um leið verður haldið upp á að Aðventa , hin rómaða skáldsaga Gunnars Gunnarssonar (1889-1975), kemur út á rússnesku.

Verk Sigurjóns sækja innblástur í sögu Gunnars og eru þetta svarthvítar myndir af vetrarlandslagi öræfanna þar sem persónur skáldsögunnar kljást við óblíð náttúruöflin.

Allar götur síðan Aðventa kom út, á fjórða áratug liðinnar aldar, hefur hún verið þekkt og notið vinsælda á Vesturlöndum. Hin nýja rússneska útgáfa er afrakstur samstarfs Stofnunar Gunnars Gunnarssonar á Skriðuklaustri og útgáfufyrirtækisins Text Publishers í Moskvu. Sagan er þýdd af T.L. Shenyavskaya, íslenskukennara við Moskvuháskóla. Er þetta fyrsta bók Gunnars sem þýdd er á rússnesku.

Veturinn 2010 til 2011 fór Sigurjón ásamt eiginkonu sinni Þóru Hrönn Njálsdóttur margar ferðir til að freista þess að fanga í myndum andrúmsloft bókarinnar. Þau marglásu hana og völdu merkingarþrungnar setningar sem þau reyndu síðan að myndgera í svarthvítum ljósmyndum í frosti og snjó. Sýning Sigurjóns hefur verið sett upp í myndagalleríi Þjóðminjasafns Íslands sem og menningarmiðstöðvum víða á Íslandi.

Sýningin í Moskvu og útgáfa Aðventu á rússnesku tengjast því að í ár eru 70 ár liðin frá upphafi diplómatískra samskipta Íslands og Rússlands. „Ljósmyndasýningin og útgáfa Aðventu á rússnesku er gjöf til handa rússneskum lesendum í tilefni af þessum tímamótum í aðdraganda jólanna,“ segir Hreinn Pálsson, staðgengill sendiherra Íslands í Moskvu. efi@mbl.is