Vífill Karlsson
Vífill Karlsson
Eftir Vífil Karlsson: "Þjóðin byggði upp höfuðborgina og Reykjavíkurflugvöllur því vart einkamál borgarbúa. Innanlandsflug í Keflavík veikti höfuðborgina og margar byggðir."

Er Reykjavíkurflugvöllur einkamál Reykvíkinga? Eru Þingvellir einkamál Bláskógabyggðar og Búrfells- og Sultartangavirkjun einkamál Skeiða- og Gnúpverjahrepps? Undir lok 18. aldar var hafist handa við að byggja upp höfuðborg Íslands í Reykjavík og voru opinberar stofnanir fluttar kerfisbundið frá Skálholti, Hólum, Seltjarnarnesi, Bessastöðum og fleiri stöðum til Reykjavíkur og þar varð sjálfgefin staðsetning nýrra stofnana sem byggðust upp. Á þessum tíma voru íbúar Reykjavíkur jafnmargir íbúum Ólafsvíkur eða tæplega 300. Vestmannaeyjar voru fjölmennari. Síðan hefur dregið mjög í sundur með íbúafjölda þessara staða eins og varla þarf að fjölyrða. Öflugt þéttbýli myndaðist í Reykjavík, miðstöð stjórnsýslu og viðskipta í landinu til hagsbóta fyrir landið allt. Með þessu hlutverki fékk Reykjavík gríðarlegt forskot til uppbyggingar á önnur byggðarlög í landinu og því mikinn meðbyr frá þjóðinni allri. Í staðinn þarf hún að vera aðgengileg öllum sem að baki henni standa enda hefur það komið fram í mörgum rannsóknum sem undirritaður hefur tekið þátt í að það er mikilvægt öllum íbúum – svo mikilvægt að skerðing þess myndi mögulega leiða til hnignunar og frekari búferlaflutninga frá fjarlægustu byggðarlögum utan höfuðborgarsvæðisins. Hér er ekki bara átt við aðgang að sjúkrahúsþjónustu heldur alla aðra sérhæfða þjónustu og samskipti við stjórnsýsluna.

Flutningur á flugvellinum annað en á Löngusker myndi skerða aðgengi þeirra sem fjærst búa frá höfuðborginni. Talað hefur verið um Hólmsheiði og aðrar staðsetningar fyrir nýjan flugvöll en langlíklegast að innanlandsflugið lenti í Keflavík – einkum ef horft er til fjárhagslegrar stöðu ríkissjóðs. Þá má búast við að ákveðin hlutverk höfuðborgarinnar flyttust til Keflavíkur líkt og gerst hefur í sveitarfélaginu Ullensaker í Noregi eftir að Gardermoen-millilandaflugvöllurinn var byggður þar en nú spretta þar upp hótel og fundarsalir svo eitthvað sé nefnt. Það sama hefur gerst í kringum Kastrup í Kaupmannahöfn og er hann ekki mjög langt frá miðbænum. Þar verður nú stöðugt algengara að menn sem koma fljúgandi víða að til sama fundar ljúki honum í næsta fundarsal við flugvöllinn, taki flug til baka sama dag og kíki aldrei inn í borgina. Að sama skapi gæti Reykjavík sem miðstöð fyrir landsfundi af ýmsu tagi glatað þeirri sérstöðu. Þá gæti ýmislegt fylgt í kjölfarið í hægum skrefum eins og t.a.m. bráðaþjónusta af ýmsu tagi. Slíkur hlutverkaflutningur renndi stoðum undir óhagræði þar sem Keflavík er mun meira úrleiðis en Reykjavík fyrir marga landshluta og ekki væri lengur hægt að nýta hverja ferð „suður“ til eins margra erinda og áður. Það væri því allra best fyrir landið allt að Reykjavík axlaði sína ábyrgð og tryggði flugvellinum framtíð í nálægð við miðstöð stjórnsýslu og viðskipta.

Höfundur er hagfræðingur.

Höf.: Vífil Karlsson