Veiðar Hægt er að svipta skip veiðiheimildum og sekta fyrir framhjálöndun; afli ekki settur á hafnarvog. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint.
Veiðar Hægt er að svipta skip veiðiheimildum og sekta fyrir framhjálöndun; afli ekki settur á hafnarvog. Myndin tengist efni fréttarinnar ekki beint. — Morgunblaðið/Brynjar Gauti
Úrskurður Persónuverndar um að Fiskistofu hafi ekki verið heimilt að taka upp athafnir áhafnar skips sem staðin var að framhjálöndun hefur ekki áhrif á málið gegn útgerð skipsins að sögn Eyþórs Björnssonar fiskistofustjóra.

Úrskurður Persónuverndar um að Fiskistofu hafi ekki verið heimilt að taka upp athafnir áhafnar skips sem staðin var að framhjálöndun hefur ekki áhrif á málið gegn útgerð skipsins að sögn Eyþórs Björnssonar fiskistofustjóra.

Fiskistofa hafði rökstuddan grun um að tiltekið skip landaði hluta af afla sínum og flytti burt án þess að vega hann á hafnarvog líkt og lög gera ráð fyrir. Því nýtti Fiskistofa upptökuvél til að fylgjast með skipinu á hafnarsvæðinu í fjögur skipti. Það leiddi til þess að skipverjar voru staðnir að framhjálöndun. Skip var svipt veiðiheimildum í tvær vikur og málið kært til lögreglu.

Í mars barst Persónuvernd svo kvörtun yfir þessu myndavélaeftirliti Fiskistofu. Hún úrskurðaði nú í vikunni að stofnuninni hefði ekki verið heimilt að fylgjast leynilega með athöfnum skipverjanna á hafnarsvæðinu og skort hefði á viðvaranir um rafræna vöktun. Fiskistofu er gert að eyða því efni sem safnað var með upptökunum. Eyþór segir það þó ekki hafa áhrif á framgang málsins.

„Myndupptökurnar eru ekki gagn í málinu en þær nýttust okkur auðvitað til að sjá hvernig þeir höguðu sér við brot svo við vissum hvernig ætti að taka á málinu,“ segir Eyþór. Úrskurðurinn útilokar að Fiskistofa noti sömu aðferð í framtíðinni til að upplýsa brot og segir Eyþór stofnunina þurfa að endurskoða verklag sitt. Þá veltir hann upp hvort tilefni sé til að færa Fiskistofu heimildir í lögum til að beita myndavélum á hafnarsvæðum.