Runólfur Ágústsson
Runólfur Ágústsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is Guðný Dóra Gestsdóttir, fráfarandi varaformaður stjórnar Vinnumálastofnunar, undrast að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skuli hafa sagt henni upp störfum án skýringa. „Ég er svolítið hissa.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

Guðný Dóra Gestsdóttir, fráfarandi varaformaður stjórnar Vinnumálastofnunar, undrast að Eygló Harðardóttir, félags- og húsnæðismálaráðherra, skuli hafa sagt henni upp störfum án skýringa.

„Ég er svolítið hissa. Að óreyndu er ég hissa á því að Eygló treysti sér ekki til að vinna með mér. Maður veltir því fyrir sér hvað liggur að baki. Stendur til að breyta einhverju í sambandi við rekstur stofnunarinnar? Hvað er það sem liggur að baki? Það var ekki langur tími eftir af mínum skipunartíma. Honum átti að ljúka 30. júní 2014.“

Að sögn Guðnýjar Dóru fékk hún uppsagnarbréf frá fulltrúum Eyglóar í ágúst og kaus hún að gera ekki athugasemd við það.

Auðveldi ráðherra vinnuna

„Engu að síður var ég mjög hissa á bréfinu, enda var það orðað á þann hátt að ráðherra hefði heimild til að skipta um fólk í stjórnum sem störfuðu á hans vegum. Þetta var orðað á þann hátt að þetta væri til þess gert að auðvelda ráðherra vinnu í anda sinna hugmynda.“

Innt eftir því hvort hún hafi álitið sig eiga sem varaformaður að fylgja pólitískri stefnumótun kveðst Guðný Dóra hafa verið valin sem fulltrúi VG.

„Auðvitað snýst þetta um pólitík. Þess vegna vill Eygló hreinsa til í stjórninni. Í ljósi reynslunnar spyr maður sig hins vegar hversu ráðandi pólitíkin sé í störfum stjórnarinnar.“

Runólfur Ágústsson sagði af sér sem formaður stjórnar eftir að hann tók við verkefninu Liðsstyrk í ársbyrjun. Spurður út í formennskutíð sína hjá Vinnumálastofnun rifjar Runólfur upp að hann hafi samhliða því verið formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs. Það hafi verið í fyrsta sinn sem sami maður gegndi formennsku í þessum stjórnum. Þá hafi hann jafnframt verið formaður sameiginlegs aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í vinnumarkaðs- og menntamálum, sem settur var á laggirnar í maí 2011 við gerð kjarasamninga. Hann hafi látið af þessum störfum í júní og júlí en óskað lausnar frá stjórnarformennsku hjá Vinnumálastofnun fyrr, eða um áramót, samhliða því sem hann tók að sér verkefnastjórn fyrir átaksverkefnið Liðsstyrk.

Runólfur kveðst hafa boðið Eygló Harðardóttur uppsögn sína í júní sem hún þáði, enda hafi hann talið það eðlilegt. „Mér þótti... fullkomlega eðlilegt að gefa nýjum ráðherrum færi á að skipa „sitt fólk“ í minn stað, ef þeir vildu skipa pólitískt í þessar stöður,“ segir Runólfur.

Tryggvi Þór nýr formaður

Að sögn Runólfs var Tryggvi Þór Herbertsson, fv. þingmaður, skipaður eftirmaður hans sem formaður aðgerðahóps stjórnvalda og aðila vinnumarkaðarins í vinnumarkaðs- og menntamálum, ásamt tveim nýjum aðilum. Verður annar formaður stjórnar Vinnumálastofnunar og hinn formaður stjórnar Atvinnuleysistryggingasjóðs.