Kjarvalssýning Gestir við opnun á yfirlitssýningu á verkum Kjarvals í St. Pétursborg í gær. Þar eru til sýnis 40 málverk og teikningar.
Kjarvalssýning Gestir við opnun á yfirlitssýningu á verkum Kjarvals í St. Pétursborg í gær. Þar eru til sýnis 40 málverk og teikningar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Yfirlitssýning á verkum Jóhannesar Kjarvals var opnuð í rússneska ríkislistasafninu í St. Pétursborg í gær.

Yfirlitssýning á verkum Jóhannesar Kjarvals var opnuð í rússneska ríkislistasafninu í St. Pétursborg í gær. Sýningin er haldin í tilefni af sjötíu ára afmæli stjórnmálasambands milli landanna og er að sögn embættis forseta Íslands ein veigamesta sýning á verkum Kjarvals sem sett hefur verið upp í höfuðlistasöfnum Evrópu.

Sýningin er í Marmarahöllinni, annarri af tveimur höllum sem ríkislistasafnið hefur yfir að ráða í borginni. Þar eru nú til sýnis yfir 40 málverk og teikningar Kjarvals, mestmegnis úr safneign Listasafns Reykjavíkur.

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, opnaði sýninguna formlega í gær og lýsti framlagi Kjarvals til sjálfsvitundar þjóðarinnar, tilfinninga Íslendinga gagnvart náttúrunni, hraunbreiðum, mosa, fjöllum, litadýrð og andstæðum sem og samspili við huldufólk og þjóðsögur.

Þá fluttu Sigrún Hjálmtýsdóttir söngkona og Jónas Ingimundarson píanóleikari tónlist. Albert Jónsson, sendiherra Íslands í Moskvu, og Andrey Tsyganov, sendiherra Rússlands á Íslandi, voru viðstaddir opnunina.

Fyrr í gær var athöfn í ríkislistasafninu þar sem tilkynnt var um sérstaka bókagjöf sem Menningarsamtök Íslands og Rússlands (MÍR) og ýmsar stofnanir og fyrirtæki standa að. Hún felur í sér að eintök af Rússnesk-íslensku orðabókinni, sem Helgi Haraldsson prófessor ritstýrði, verða gefin fjölda bókasafna, lærdómssetra og háskóla í Rússlandi.

Að sögn forsetaembættisins er bókagjöfin í tilefni af 70 ára afmæli stjórnmálasambands Íslands og Rússlands og tileinkuð minningu fjögurra rússneskra forystumanna sem á undanförnum áratugum unnu sérstaklega að því að treysta vináttu- og menningartengsl þjóðanna.

Verk rússnesks listamanns sýnd hér

Á sama tíma og Kjarvalssýningin stendur yfir í St. Pétursborg verður haldin sýning á verkum rússneska listamannsins Alexanders Rodtsjenkós á Kjarvalsstöðum en sú sýning verður opnuð 5. október.

Samkvæmt upplýsingum frá Reykjavíkurborg lagði Alexanders Rodtsjenkó í raun grunninn að rússneskri nútímalist og var fremsti ljósmyndari og grafískur hönnuður Rússlands.

Hann fæddist í St. Pétursborg árið 1891 og er því samtímamaður Kjarvals, sem fæddist 1885. Hann var málari að mennt en sneri sér alfarið að ljósmyndun árið 1925.

Á sýningunni verða 233 ljósmyndir frá upphafi ferils Rodtsjenkós til ársins 1935. Hún hefur verið sett upp í mörgum af helstu borgum heims.

Kjarvalssýning
» Yfir 40 málverk og teikningar Kjarvals til sýnis í Marmarahöllinni í St. Pétursborg
» Á sýningunni eru m.a. verk sem sýna túlkun Kjarvals á hraunbreiðum og fjallalandslagi Íslands.
» Ein veigamesta sýning á verkum Kjarvals sem sett hefur verið upp í höfuðlistasöfnum Evrópu.