Fáir staðir á jörðinni kalla fram þá tilfinningu að maður sé einn í heiminum, kyrrðin er yfirþyrmandi og auðnin virðist endalaus.

Fáir staðir á jörðinni kalla fram þá tilfinningu að maður sé einn í heiminum, kyrrðin er yfirþyrmandi og auðnin virðist endalaus. Það er engu líkt að horfa eftir fjallstindum á þessa undraveröld og niður í djúpa dali og firði þar sem hafísinn hefur læst krumlu sinni og umlykur allt eins langt og augað eygir. Þessi heimur óbyggðanna lætur engan ósnortinn sem upplifir þá kyrrð og krafta sem í landinu búa. Þessari perlu í norðurhöfum, Grænlandi. Ragnar Axelsson rax@mbl.is

Það hefur þurft þrautseigju í aldir til að lifa af við þessar aðstæður þar sem lífsbaráttan byggðist á veiðum. Getur verið að í þessum fjörðum og í fjöllunum leynist týndur kynstofn eskimóa sem slitu öllu sambandi við umheiminn fyrir hundrað árum eða fyrr? Sögusagnir eru um að þessi týndi kynstofn vilji ekki umgangast annað fólk, hann treysti ekki öðru fólki. Margir segja sögur af þessum kynstofni og telja sig hafa séð hann í fjarska veiða saman í hópum og vitað er um evrópska ferðakonu sem fullyrðir að hún hafi komist í návígi við hann. Þegar hún vaknaði af værum blundi í óbyggðum Ammassaliq stóðu tveir skinnklæddir menn yfir henni. Þegar hún rak upp vein lögðu þeir á flótta. Þetta kemur heim og saman við aðrar frásagnir, kynstofn þessi flýr iðulega ef hann verður var við aðra menn. Fundist hafa hellar sem sýna að þar hafi nýlega verið hafst við, samt spyrst ekkert til sjálfs fólksins.

Það er svo sem enginn að leita sérstaklega að þessum dularfulla kynstofni því óbyggðirnar virðast endalausar. Langir firðir og dalir sem fáir hafa komið í. Meiri víðáttu er varla hægt að finna á jörðinni sem er jafnerfið yfirferðar og á Grænlandi.

Sveipaðar ævintýrablæ

Ekki fellur í góðan jarðveg að spyrja menn sem séð hafa til fólksins af þessum týnda kynstofni út í það og voga sér síðan að efast um tilvist þess. Ekki er yrt á viðkomandi í nokkra klukkutíma á eftir. Hvort sem hann er til eða ekki eru sögurnar um þennan týnda kynstofn sveipaðar ævintýrablæ og skemmtilegt umhugsunarefni. Einhvern tíma hefur hann verið til en hefur hann lifað af? Það veit í raun enginn.

Það eru sérstakir tímar framundan hjá okkar næstu nágrönnum, Grænlendingum. Jökullinn bráðnar hraðar en menn reiknuðu með, um 230 milljarðar tonna af ís hverfa á hverju ári og bráðnunin herðir á sér. Landið rís um þrjá sentimetra á ári þegar fargi jökulsins léttir og er áætlað að land muni hafa risið um þrjá metra eftir eitt hundrað ár. Bráðnun Grænlandsjökuls er álíka og að 807.000 borgarísjakar á stærð við tónlistarhúsið Hörpu myndu bráðna í hafið á ári. Einnig má ímynda sér að allt Ísland væri á kafi undir rúmlega tveggja metra djúpu vatni.

Þar sem hafískrumlan er að slaka á klónni við strendur Grænlands verða firðir aðgengilegri skipum. Þar liggja ýmis auðæfi í jörð, eins og gull, demantar og aðrir verðmætir eðalsteinar og málmar. Olían er eftirsótt og leit stendur yfir við strendur Grænlands. Ekkert hefur fundist ennþá enda þótt boraðar hafi verið um áttatíu holur.

Flestir málmar sem til eru finnast á Grænlandi. Elsta berg sem fundist hefur á jörðinni er í Isua-firði og er rúmlega 3,8 milljarða ára gamalt. Þar er námavinnsla nú að hefjast en rúmlega hundrað umsóknir stórra og lítilla fyrirtækja liggja fyrir.

Allt er í heiminum hverfult

Allt er í heiminum hverfult og nýir tímar eru í vændum hjá nágrönnum okkar þó að þeir hafi aðeins hægt á og vilji skoða hlutina betur með það í huga að fyrirtækin sem sækja um náma- og vinnsluleyfi skilji eitthvað eftir í landinu af þeim tekjum sem þau munu hafa í framtíðinni.

Veiðimannasamfélagið sem á sína glæstu sögu gæti liðið hægt og rólega undir lok í þeirri mynd sem við þekkjum í dag. Grænlenskum veiðimönnum sem ferðast um á hundasleðum og veiða sér til lífsviðurværis fer fækkandi. Eru nýir tímar í vændum þar sem gamlir veiðimenn munu vinna í námum og grafa eftir gulli, demöntum og öðrum auðæfum landsins? Lítil þorp eiga undir högg að sækja, dýrt er að halda þeim á lífi. Minni skilningur er á lífi veiðimannsinns hjá yngri kynslóðinni sem vill færa líf sitt nær nútímanum. Hvernig verður ásýnd landsins í framtíðinni? Verða Grænlendingar ríkastir í heiminum eða eru þeir það nú þegar? Þeir eiga eitthvert fallegasta land á jörðinni með náttúru sem á engan sinn líka. Mun þeim takast að gæta hreinleika landsins og hafsins í kring þar sem eru gjöful fiskimið sem skipta þá miklu máli? Það er spurning sem þeir þurfa að spyrja sig í framtíðinni. Sláandi er að fylgjast með því hvað mengun frá Asíu, Síberíu og Norður-Evrópu veldur miklum skaða í lífríki hafsins þar sem ísbjörninn trónir á toppi fæðukeðjunnar. Þar er pottur brotinn.