Pétur fæddist á Akureyri 22. apríl 1948. Hann lést á líknardeild Landspítalans 14. september 2013.

Foreldrar Péturs voru Sigurbjörn Yngvi Þórisson, f. 10. ágúst 1923, og Margrét Pétursdóttir, f. 11. júní 1924. Systkini Péturs, sammæðra, eru: Þórir Sigurbjörnsson, f. 26. október 1945, Agnar Hólm Kristinsson, f. 25. janúar 1951, d. 2. júní 1971, Anna Fríða Kristinsdóttir, f. 22. maí 1952, Baldur Hólm Kristinsson, f. 15. febrúar 1954, Gullveig Ósk Kristinsdóttir, f. 2. janúar 1958, og Snorri Viðar Kristinsson, f. 29. mars 1964. Systir Péturs, samfeðra, er Þórhildur Pálína Sigurbjörnsdóttir, f. 21. september 1952.

Eiginkona Péturs er Elín Halldóra Hafdal, f. 13. júní 1953. Börn Péturs eru: Heimir Þór, f. 30. maí 1969. Sambýliskona hans er Vilborg Drífa Gísladóttir, f. 22. febrúar 1974. Brynhildur Margrét Pétursdóttir, f. 23. október 1969. Eiginmaður hennar er Jóhann Pálsson Rist. Þeirra börn eru: Hafdís Erla Jóhannsdóttir Rist, f. 26. nóvember 1988, hennar sonur er Dagur Þór Björnsson Rist, f. 1. janúar 2013, Elvar Örn Jóhannsson Rist, f. 5. febrúar 1994, og Vignir Jóhannsson Rist, f. 24. apríl 1997. Kristján Grétar Pétursson, f. 23. júní 1970. Eiginkona hans er Steinunn Erna Ottersted, f. 13. mars 1970. Þeirra börn eru: Elín Ósk Kristjánsdóttir, f. 24. desember 2002, Sandra Dís Kristjánsdóttir, f. 24. janúar 2004, og Haukur Orri Kristjánsson, f. 4. september 2006. Pétur Sigurbjörn Pétursson, f. 11. júní 1976. Eiginkona hans er Berglind Ósk Kjartansdóttir, f. 30. nóvember 1979. Þeirra barn er Lena Guðrún Pétursdóttir, f. 6. september 2009. Rakel Björk Pétursdóttir, f. 2. apríl 1988. Hennar börn eru: Íris Björk Hafdal Gunnarsdóttir, f. 6. maí 2011, og Karítas Lilja Marinósdóttir, f. 20. júlí 2012. Sambýlismaður Rakelar Bjarkar er Marinó Jónsson, f. 13. maí 1989.

Að lokinni skólagöngu fór Pétur á sjó og var á ýmsum bátum, oftast sem vélstjóri. Þegar hann kom í land vann hann ýmiskonar vélavinnu þar til að hann stofnaði sitt eigið fyrirtæki sem fékkst aðallega við verktöku og vélaleigu. Eitt af aðaláhugamálum Péturs var torfæruakstur og tóku þeir feðgar þátt í mörgum keppnum í torfæruakstri. Pétur smíðaði og hannaði torfærubílinn Fluguna sem þótti í ýmsum atriðum frumleg þegar hún kom fram á sjónarsviðið.

Útför Péturs fer fram frá Bústaðakirkju í dag, 27. september 2013, og hefst athöfnin kl. 13.

Í dag kveðjum við Pétur með söknuði og sorg en í sömu andrá erum við þakklát fyrir að hafa átt hann fyrir vin. Fyrir mörgum árum kynntist ég Pétri og er sú stund þegar við hittumst fyrst mér ógleymanleg. Hann kom askvaðandi inn til mín, að sjálfsögðu með pípuna sína og sagði „mig vantar stýrisdælu og mér er sagt að þú eigir hana til, ég þarf að nota hana í kvöld“. Ég brosti enda hafði ég aldrei hitt þennan mann áður. Stýrisdæluna fékk hann fyrir kvöldið og ég eignaðist hreint frábæran vin og félaga sem alltaf var hægt að leita til ef eitthvað bjátaði á. Það væri hægt að segja svo margar skemmtilegar sögur af stundunum með Pétri og hans fólki að það mundi fylla mörg bindi. Það var alltaf gaman að hitta Pétur. Maður gat verið viss um að kveðja hann brosandi eða hlæjandi. Kæri Pétur, síðasti bíltúrinn okkar saman verður mér alltaf í minni. Þar opnaðir þú þig algjörlega og við ræddum svo margt saman. Við vissum svo sem báðir þá í hvað stefndi en við tókum ákvörðun sem við virtum báðir. Það var samt erfitt að hugsa til þess að Pétur mundi ekki lengur koma við hjá mér. Elsku Pétur, við þökkum þér fyrir allar þær stundir sem við höfum átt saman og kveðjum þig, kæri vinur, með söknuði og sorg. Takk fyrir að vera vinur okkar. Ég veit að guð mun taka á móti þér með brosi.

Elsku Elín, börn og aðrir aðstandendur, við sendum ykkur okkar innilegustu samúðarkveðjur og megi guð vera með ykkur.

Rafn Arnar (Rabbi)

og fjölskylda.