Hryllingur Höfundar Krákustelpunnar ímynda sér það versta og úr verður hryllingssaga, segir m.a. um bók þeirra Erikssons og Sundquists.
Hryllingur Höfundar Krákustelpunnar ímynda sér það versta og úr verður hryllingssaga, segir m.a. um bók þeirra Erikssons og Sundquists.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Erik Axl Sund (Jerker Eriksson og Håkan Axlander Sundquist). Fyrsti hluti Victoriu Bergmann-þríleiksins. Kilja. 431 bls. Sigurður Þór Salvarsson þýddi. Undirheimar 2013.

Ofbeldi er óhjákvæmilegt í glæpasögum en þegar börn eru í aðalhlutverki sem gerendur og þolendur er hugmyndaflugið komið út yfir allt velsæmi. Því miður er börnum víða att út á foraðið og ofbeldi gagnvart börnum er víðtækara en flestir gera sér grein fyrir. Því kemur ekki á óvart að raunveruleikinn sé speglaður í bókum en það er ekki skemmtileg lesning. Á heldur ekki að vera það.

Krákustelpan er fyrsti hluti Victoriu Bergmann-þríleiksins. Þetta er sálfræðikrimmi, sem gerist einkum í Stokkhólmi og fjallar um glæpi og ofbeldi, þar sem börn eru í sviðsljósinu. Höfundar leika sér með andhverfur og fylgja hugsunum sínum eftir með því að koma fram undir sérstöku höfundarnafni.

Í raunveruleikanum á aldrei að réttlæta ofbeldi. Það er ekki þar með sagt að þessi gullna regla sé í heiðri höfð og oft verða börn fyrir barðinu með ófyrirséðum afleiðingum. Höfundar Krákustelpunnar ímynda sér það versta og úr verður hryllingssaga.

Víða er pottur brotinn og enginn er fullkominn. Sálfræðingurinn Sofia Zetterlund og lögreglukonan Jeanette Kihlberg gefa sig út fyrir að vinna við lausn mála en þær hafa líka sinn djöful að draga. Þetta hefur áhrif á störf þeirra og gerðir. Um það snýst sagan og þótt margar spurningar vakni er fáum svarað í lokin.

Lopinn er svolítið teygður í þessum fyrsta hluta þríleiksins, en engu að síður kemst mynd á sviðið og forvitnilegt verður að sjá framhaldið. Þetta er saga um viðbjóð og ofbeldi, hinar ýmsu hliðar mannsins, þar sem dregin er upp sterk mynd af skepnum í mannslíki. Saga sem er ekki fyrir viðkvæma.

Steinþór Guðbjartsson

Höf.: Steinþór Guðbjartsson