Gálgahraun Hraunavinir komu fánum fyrir í hrauninu til mótmæla.
Gálgahraun Hraunavinir komu fánum fyrir í hrauninu til mótmæla.
„Kerfið okkar byggist á stöðugri vakt, líkt og um ungbarn væri að ræða,“ segir Ómar Ragnarsson sem hefur ásamt Hraunavinum staðið vaktir við Gálgahraun til þess að mótmæla fyrirhuguðum Álftanesvegi.

„Kerfið okkar byggist á stöðugri vakt, líkt og um ungbarn væri að ræða,“ segir Ómar Ragnarsson sem hefur ásamt Hraunavinum staðið vaktir við Gálgahraun til þess að mótmæla fyrirhuguðum Álftanesvegi. „Þarna eru tjöld og skemmtilegt fólk og mikil stemning. Sagðar eru skemmtilegar sögur og farið yfir málin. Í morgun fór ég yfir nýjar tölur Ólafs Guðmundssonar, sem mér finnst algjörlega snúa málinu við,“ segir Ómar, en tölurnar eru fengnar af vef Vegagerðarinnar og sýna að núverandi Álftanesvegur er hættuminni en 14 vegakaflar í Reykjavík og 21 á höfuðborgarsvæðinu. Ómar segir það vera rannsóknarefni hvers vegna umræddur vegur fær forgang fram yfir hættumeiri vegarkafla.

G. Pétur Matthíasson, upplýsingafulltrúi Vegagerðarinnar, segir að Álftanesvegurinn núverandi hafi mun hærri slysatíðni en að landsmeðaltali. „Þessi framkvæmd er búin að vera á leiðinni í áratugi og hefur frestast hvað eftir annað. Alþingi hefur margsinnis í samgönguáætlunum ákveðið að ráðast í þessa vegaframkvæmd. Gamli vegurinn ber ekki umferðina í dag og alls ekki þá umferð sem verður í framtíðinni.“

Hraunavinir, Náttúruverndarsamtök Íslands og Landnefnd munu funda með Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra í dag vegna fyrirhugaðs vegar við Álftanes. agf@mbl.is