Framleiðsla Starfsmaður Promens, Arnar Klemenzson, tekur utan af keri sem verið var að steypa.
Framleiðsla Starfsmaður Promens, Arnar Klemenzson, tekur utan af keri sem verið var að steypa.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Verksmiðja Promens á Dalvík framleiðir ker og fráveituefni úr plasti og er ein 42 verksmiðja sem Promens rekur um heim allan og önnur tveggja hér á landi.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Verksmiðja Promens á Dalvík framleiðir ker og fráveituefni úr plasti og er ein 42 verksmiðja sem Promens rekur um heim allan og önnur tveggja hér á landi. Framkvæmdastjórinn segir gott að búa og starfa á Dalvík, en sjálfur hefur hann starfað hjá Promens og fyrirrennara fyrirtækisins frá 16 ára aldri.

„Verksmiðjan hérna á Dalvík er einungis lítill hluti af heildarstarfseminni,“ segir Daði Valdimarsson, framkvæmdastjóri stórumbúðasviðs Promens og verksmiðjunnar á Dalvík. Verksmiðjur Promens eru 42 í 19 löndum í Evrópu, Norður-Ameríku, Asíu og Afríku. „Alls starfa um 3.800 hjá fyrirtækinu og veltan í fyrra var um 600 milljónir evra í heildina. Hérna hjá okkur eru um 50 starfsmenn sem flestir búa hér í bænum, en annars nær atvinnusvæðið frá Akureyri og út í Ólafsfjörð. Þetta er góð stærð fyrirtækis á stað eins og Dalvík.“

Meirihluti þeirra plastkera sem Promens framleiðir er fluttur úr landi, en fráveituefnið, sem er m.a. rotþrær og ýmiss konar skiljur fyrir fráveitur, fer á innanlandsmarkað.

Promens er meðal stærstu vinnustaða á Dalvík. Að sögn Daða er um helmingur starfsfólks ófaglærður, hinn helmingurinn er ýmist með iðn- eða háskólamenntun.

Áður var þarna rekin plastverksmiðjan Sæplast, frá 1984 til 2005. Promens var stofnað að hluta til á grunni Sæplasts og er í eigu Framtakssjóðs Íslands og Horns, sem er fjárfestingarsjóður Landsbankans.

Fjölgun starfsfólks

Verksmiðjan var stækkuð á síðasta ári, áður voru þar tvær vélasamstæður og var þeirri þriðju þá bætt við, sem einnig er nokkru stærri en þær sem fyrir voru. Við þessa breytingu jukust afköstin um 60% og fjölga þurfti starfsmönnum. Reiknað er með að bæta þurfi fleirum við innan tíðar.

Mannauðurinn bakkar staðsetninguna upp

„Staðsetningin hefur reynst okkur farsæl í gegnum tíðina og það hefur verið hagnaður af verksmiðjunni á Dalvík nánast öll árin sem hún hefur verið starfrækt,“ segir Daði.

Sjálfur er hann fæddur og uppalinn á Dalvík og hefur búið þar og starfað lungann úr ævinni. „Ég byrjaði að vinna hjá Sæplasti þegar ég var 16 ára gutti. Það má því segja að starfsaldurinn sé að nálgast 30 ár, með hléum að vísu. En margir hafa starfað lengi hjá fyrirtækinu. Það eru margir kostir við að vera hér á svæðinu, tiltekin þekking hefur byggst upp hér í kringum þessa starfsemi og nú bakkar mannauðurinn staðsetninguna upp. Hér er gott að búa og vinna.“

Yfirstjórnin er á Íslandi

Starfsemi Promens er skipt í sex svið. Umbúðir fyrir efnaiðnað, umbúðir fyrir hreinlætis- og snyrtivörur, matvælaumbúðir, íhluti fyrir bílaiðnað, umbúðir fyrir lyfjageirann og stórumbúðasvið. Verksmiðjan á Dalvík fellur undir það síðasttalda og einnig hin verksmiðjan sem starfrækt er hér á landi, en hún er í Hafnarfirði. Yfirstjórn fyrirtækisins er hér á landi.
Skannaðu kóðann til að skoða myndskeið á mbl.is