Vinnusmiðjan Startup Weekend fer fram í Háskólanum í Reykjavík 18.- 20. október nk. Um er að ræða alþjóðlegan viðburð sem hefur verið vinsæll víða um heim. Markmið viðburðarins er að byggja upp viðskiptahugmyndir á 54 klukkustundum.

Vinnusmiðjan Startup Weekend fer fram í Háskólanum í Reykjavík 18.- 20. október nk. Um er að ræða alþjóðlegan viðburð sem hefur verið vinsæll víða um heim. Markmið viðburðarins er að byggja upp viðskiptahugmyndir á 54 klukkustundum. Helgin er samstarfsverkefni Klak Innovit og Landsbankans en að henni koma fjölmargir aðilar s.s. mentorar, dómnefnd, stuðningsaðilar og sjálfboðaliðar.

„Fólk getur mætt á staðinn, með eða án hugmyndar og kynnt þær á staðnum,“ segir Ragnar Örn Kormáksson fjármálastjóri Klak Innovit. Þeir sem koma fá innblástur og leiðsögn við að byggja upp viðskiptahugmynd sem í framtíðinni gæti orðið að fullvaxta fyrirtæki.

„Fólk vinnur í hugmyndum sínum alla helgina og sameinast um bestu verkefnin. Í fyrra kom einstaklingur án hugmyndar en eftir að hafa heyrt í öðrum fékk hann hugmynd um próteinríka broddmjólk og kynnti hana, á einni helgi voru þeir með tilbúna vöru, búnir að hanna hana, markaðssetja og komnir með tíu viðskiptavini,“ segir Ragnar Örn, en viðburðurinn er opinn fyrir alla. Hann segir þangað koma saman einstaklinga með ólíka menntun og bakgrunn, einna helst eru það tæknimenntaðir, viðskiptafræðingar, grafískir hönnuðir og aðrir áhugasamir um nýsköpun og frumkvöðlastarf.

„Við erum að reyna að styðja við fólk á fyrsta stigi hugmyndavinnunnar og að það fari frá okkur með fullmótað fyrirtæki.“ aslaug@mbl.is