Meðan séra Matthías sat Móa orti hann gamanvísur í nafni fóstursonar síns, Matthíasar Eggertssonar, til Þórðar, sonar Þórðar Guðjohnsens, þá kaupmanns í Reykjavík en síðar á Húsavík. Þórður þessi varð síðar læknir á Borgundarhólmi.

Meðan séra Matthías sat Móa orti hann gamanvísur í nafni fóstursonar síns, Matthíasar Eggertssonar, til Þórðar, sonar Þórðar Guðjohnsens, þá kaupmanns í Reykjavík en síðar á Húsavík. Þórður þessi varð síðar læknir á Borgundarhólmi. Drengirnir voru þá fjögurra eða fimm ára gamlir. Erindin eru fimm og er þetta annað erindið:

Ég þekki hana Grýlu,

hún er grá eins og örn.

Hún situr uppi á Esju

og gleypir óþæg börn.

Frá Einari á Sjónarhólum

hún hremmdi fjögur lömb.

Þau jörðmuðu og sögðu „me me!“

í hennar slæmu vömb.

Þetta nefni ég af því að góður bréfavinur okkar feðga, Gylfi Pálsson, rifjaði upp fimm vísur í framhaldi af kveðskap um Esjuna. Fyrst nefnir hann Bjarna Ásgeirsson til sögunnar:

Þó að Esjan móður mjúk

mildum skýli grundum

byljaköst af blásnum hnjúk

berast þangað stundum.

Þórbergur Þórðarson orti:

Esjan er yndisfögur

utan úr Reykjavík.

Hún ljómar sem litfríð stúlka

í ljósgrænni sumarflík.

Að kvöldlagi orti Stephan G. Stephansson:

Falla hlés í faðminn út

firðir nesjagrænir.

Náttklædd Esjan ofanlút

er að lesa bænir.

Nú er komin röðin að Einari Benediktssyni:

Sviptigna Esja með ennið hátt,

við elskum þig, börn þín, fjallið blátt.

Þú dregur oss heim – engin dásemd er til

sem dýrð þín á norðurveggnum.

Og Ísleifur Gíslason á Sauðárkróki er síðastur þeirra sem Gylfi nefnir:

Sagður er Hengillinn óður og ær,

af afbrýði Keilirinn sjúkur.

Þau opinberuðu einmitt í gær

Esjan og Mælifellshnjúkur.

Kolbeinn Högnason í Kollafirði hefur síðasta orðið. „Hríð í vændum“:

Norðri blés í hríðarhorn,

hrein um nes og grundir.

Lagði Esju vegginn vorn

Veðra-Blesa undir.

„Sama og fyrr“ segir Kolbeinn:

Þótt ég gerist þreytugjarn

þoli ei raunir harðar,

alltaf ber ég eins og barn

ást til Kollafjarðar.

Halldór Blöndal

hallorblondal@simnet.is