Árni Gunnlaugsson
Árni Gunnlaugsson
Eftir Árna Gunnlaugsson: "Áfengisdýrkun neytenda, tvískinnungur og sofandaháttur stjórnvalda í áfengismálum eru án efa helstu orsakir fyrir aukinni áfengisneyslu."

Í Fréttablaðinu 30. júlí sl. er grein um áfengismál eftir Teit Guðmundsson lækni. Þar segir læknirinn að það sé „menningarlegt og meira að segja hollt að fá sér rauðvínsglas“ og vísar til ónefndra fræðinga máli sínu til stuðnings. Skylt er að mótmæla þessum fullyrðingum læknisins, enda eru þær í engu samræmi við niðurstöðu virtra vísindamanna, lækna og stofnana á sviði heilbrigðismála eins og eftirfarandi dæmi sanna.

Paola Arnoldi, heimsfrægur læknir og vísindamaður, segir: „Í orðsins fyllsta skilningi er engin hin minnsta inntaka vínsins skaðlaus og skaðlaust glas af víni er ekki til. Hinn minnsti skammtur víns dregur úr andstöðuöflun líkamans og eykur alla sjúkdóma.“ Annar vísindamaður, dr. Georg E. Burch við læknaskóla í Bandaríkjunum, hefur sýnt fram á í rannsóknum sínum, að „áfengið skemmir vöðvafrumur hjartans“ og rauðvín þar ekki undanskilið. – Þá hefur hjartanefnd Bandaríkjanna (AMA) lagt að bandarískum læknum að ráðleggja sjúklingum sínum ekki að drekka rauðvín heldur einbeita sér að meðferð sem vitað er að dragi úr hættu á hjartaslagi.

Þá hafa íslenskir læknar fyrr og síðar varað við áfengi sem heilsuspilli. Þannig sagði Kári Stefánsson læknir, í nýlegum sjónvarpsþætti, að áfengi ylli oft alvarlegum heilaskaða. Níels Dungal, fv prófessor, sagði: Heilafruma, sem einu sinni er farin, hefur kvatt okkur fyrir fullt og allt og engin kemur framar í hennar stað. Auk heilabilunar tekur prófessorinn fram í bæklingi um áhrif áfengis, að ýmsir sjúkdómar tengist áfengisneyslu, enda skaðar áfengi öll líffæri líkamans. Að tala um rauðvín og annað áfengi sem hollustudrykk er því hin mesta fjarstæða og gerir ekkert nema illt.

Breytt afstaða kvenna til áfengisdrykkju

Í forystugrein Fréttablaðsins 29. júlí sl. kemur fram, að aðeins tuttugasta hver kona lítur á sig sem bindindismanneskju. Þetta er dapurleg staða, þegar litið er til baráttu kvennasamtaka og verkalýðsleiðtoga fyrr á árum gegn útbreiðslu áfengis til verndar heilbrigðu fjölskyldulífi. Að sögn Valgerðar Rúnarsdóttur, læknis hjá SÁÁ, voru ríflega tvöfalt fleiri konur lagðar inn á Vog í fyrra en árið 2009 og segir Valgerður í viðtali í blaðinu Fréttatímanum, að „áfengisvandinn sé stærsti fíknivandinn og veldur mestum skaða“.

Minnisstæð er einörð barátta Jóhönnu G. Egilsdóttur gegn áfengisbölinu en hún var þjóðkunn forystukona í verkalýðsmálum um langt skeið. Í bók um ævi Jóhönnu sagði hún þessi orð, þá 99 ára: „Áfengið er eitur og öllum til bölvunar.“ Þessi sannleiksorð hinnar merku konu ættu að vera sem flestum umhugsunarefni í afstöðu til áfengismála.

Hefjum baráttu gegn áfengisdýrkun

Áfengisdýrkun neytenda, tvískinnungur og sofandaháttur stjórnvalda í áfengismálum eru án efa helstu orsakir fyrir aukinni áfengisneyslu. Aukin bindindissemi er því rík þjóðarnauðsyn og alþingismenn hvattir til að marka stefnu um minnkun áfengisneyslu eins og Norðurlandaráð samþykkti á fundi sínum á sl. ári.

Umfram allt er það góða fordæmi að hafna áfengi eitt mikilvægasta ráðið gegn útbreiðslu þess og því margvíslega tjóni og ógæfu sem áfengi getur valdið.

Höfundur er lögmaður.