Bæta þarf skattskil.
Bæta þarf skattskil.
Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Ljóst er að átak embættis ríkisskattstjóra (RSK) gegn svartri vinnu sem staðið hefur í sumar hefur skilað tugum milljóna króna hið minnsta í betri heimtum á skattfé.

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Ljóst er að átak embættis ríkisskattstjóra (RSK) gegn svartri vinnu sem staðið hefur í sumar hefur skilað tugum milljóna króna hið minnsta í betri heimtum á skattfé. Starfsfólk skattsins hefur farið í yfir 900 fyrirtæki í sumar en sérstök áhersla var lögð á ferðaþjónustuna. Nýtt lokunarúrræði sem skattayfirvöld fengu á þessu ári hefur skilað árangri.

Átakinu „Leggur þú þitt af mörkum“ sem Samtök atvinnulífsins, ASÍ og RSK stóðu fyrir lauk í lok ágúst en að sögn Sigurðar Jenssonar, sviðsstjóra eftirlitssviðs RSK, ætlar stofnunin að halda áfram sambærilegum skoðunum á staðgreiðsluskilum fyrirtækja.

„Það má segja að átakið hafi skilað miklum árangri. Sem betur fer eru flest fyrirtæki með þetta í lagi eða taka leiðbeiningum og lagfæra það sem út af stendur,“ segir hann.

Níu í lokunarferli

Hins vegar sé minnihluti fyrirtækja sem þarfnist róttækari aðgerða. RSK fékk í vor heimild til að loka fyrirtækjum sem standa ekki skil á sínu og segir Sigurður að formlega hafi níu fyrirtæki verið sett í lokunarferli, aðallega ferðaþjónustufyrirtæki. Einu var lokað en opnað aftur eftir úrbætur. Hin bættu úr sínum málum áður en til lokunar kom. Nú séu eitt til tvö fyrirtæki sett í lokunarferil í hverri viku. Lokun er hins vegar neyðarúrræði.

„Komi menn sér undan að koma hlutunum í lag er lokunarheimildinni að sjálfsögðu beitt með viðeigandi hætti. Reynslan undanfarna mánuði sýnir að yfirvofandi lokun er úrræði sem virkar gagnvart rekstraraðilum því þá taka menn við sér, koma hlutunum í lag og skila því sem þeim ber í ríkissjóð,“ segir hann.

Þeir fjármunir sem vitað er að hafa skilað sér til ríkissjóðs með lokunarúrræði nema tugum milljóna að sögn Sigurðar. Þá sé ótalið það fé sem skilaði sé við lagfæringar fyrirtækja eftir heimsókn skattsins.