Guðrún Ágústsdóttir fæddist í Reykjavík 8. desember 1917. Hún andaðist á Hrafnistu í Hafnarfirði 12. september 2013.

Foreldrar Guðrúnar voru þau Friðrik Ágúst Pálmason frá Hvammi í Laxárdal, Húnavatnssýslu, og Sigríður Jónsdóttir frá Rútstaða-Suðurkoti, Árnessýslu. Systkini hennar sem upp komust voru: Ásgrímur, f. 1907, Pálmi Helgi, f. 1911, Kristín Ágústa, f. 1914, Guðlaug Jórunn Sigríður, f. 1915, Jón Páll, f. 1919, öll látin, og Sigurjón Magnús, f. 1927, einn eftirlifandi.

Guðrún ólst upp í foreldrahúsum, fyrst í Reykjavík og síðar á Skúfslæk í Villingaholtshreppi. Guðrún kom víða við á sinni starfsævi. Ung stúlka vann hún hjá gosdrykkjaverksmiðjunni Sanitas í Reykjavík. Eftir að faðir hennar lést aðstoðaði hún móður sína við húsvörslu í Flensborgarskóla og fluttist til Hafnarfjarðar. Um tíma var hún matráðskona í Krísuvík þegar verið var að bora fyrir heitu vatni og síðar hjá unglingavinnunni í Krísuvík á vegum Hafnarfjarðarbæjar. Hún vann á Íshúsi Hafnarfjarðar í nokkur ár og síðar við síldarsöltun og var matráðskona hjá síldarverkanda á Raufarhöfn og víðar. Um tíma gegndi hún starfi forstöðukonu leikskóla og vann mörg ár sem póstur í Hafnarfirði, allt til sjötugs. Síðustu árin bjó hún á Hrafnistu, fyrst í Reykjavík og síðar í Hafnarfirði.

Útför Guðrúnar fór fram í kyrrþey.

Hún var björt yfirlitum, kvik í hreyfingum, hafði skýran framburð og mikla og fallega söngrödd. Af áhuga og umhyggjusemi fylgdist hún með stórfjölskyldunni og mundi nöfn allra. Fáum hefur verið gefin meiri færni í samskiptum né sterkara innsæi í mannlegt eðli. Stundum gustaði þó nokkuð af henni, hún lét engan eiga neitt inni hjá sér.

Gunna fæddist í Reykjavík og fluttist með foreldrum sínum og systkinum milli hverfa, fyrst af Hverfisgötu yfir á Bergþórugötu og síðar inn í Sogamýri þar sem foreldrar hennar brutu land og byggðu nýbýlið Vonarland við Sogaveg. Þaðan fluttist fjölskyldan austur að Skúfslæk í Villingaholtshreppi og bjó þar nokkur ár. Systkinahópurinn var stór, sjö komust til manns en tvö létust barnung. Móðurafi þeirra, Jón Guðnason, var til heimilis hjá þeim frá því þau fluttu að Vonarlandi þar til hann lést á Óseyri við Hafnarfjörð.

Formleg skólaganga hennar varð ekki löng en barnakennsla fór fram á Sjónarhóli við Suðurlandsbraut. Hún sætti færi að komast í söng og handavinnutíma niðri í Miðbæjarskóla tvisvar í viku en söngur og handavinna fylgdu henni síðan alla tíð. Hljóðfæri var á heimilinu og fengu systkinin einhverja tilsögn í orgelleik.

Gunna giftist aldrei en hélt lengst af heimili með móður sinni, Sigríði, og systur, Guðlaugu Jórunni Sigríði (Sirrý) í Hafnarfirði, fyrst á Holtsgötunni og síðar að Hringbraut 69. Á Hringbrautinni var sannkallað fjölskylduhús sem þau byggðu í félagi mæðgurnar og bræðurnir Pálmi og Magnús. Það var ekki leiðinlegt fyrir litlar frænkur úr Reykjavík að heimsækja ömmu í Hafnarfirði og hitta Gunnu og allt frændfólkið í stóra húsinu.

Í byrjun sjöunda áratugar síðustu aldar byggði Gunna sína eigin íbúð á efstu hæð að Hringbraut 69. Eftir miklar fortölur og tvær arkitektateikningar fékk hún loks byggingarleyfið. Það er erfitt fyrir ungt fólk í dag að skilja hversu mikið afrek það hefur verið fyrir einstæða verkakonu á þessum árum að standa í þessum framkvæmdum. Hún vann myrkranna á milli til að afla sem mestra tekna, m.a. sem matráðskona á síldarsöltunarstöð norður á Raufarhöfn og á vertíð í Grindavík.

Í gegnum árin höfum við systur haft mikla ánægju af að bjóða Gunnu með á tónleika hjá hinum ýmsu kórum í okkar lífi. En Hrafnistukórinn var hennar líf og yndi. Fyrr í sumar minntist hún söngferðalags kórsins síns til Sauðárkróks fyrir nokkrum árum: „Ég söng fyrir afa minn og ömmu í Skagafirði,“ rifjaði hún upp. Maður gat ekki efast um að í andanum hafði hún tengst öðrum heimi. Síðustu ár minntist hún oft systra sinna sem voru farnar á undan og myndu kalla hana til sín þegar stundin rynni upp.

Far í friði, kæra frænka, og þökk fyrir allt.

Sigríður Ágústa

Ásgrímsdóttir.

Síðasta áratuginn hef ég oft átt leið á Hrafnistu í Hafnarfirði, einkum síðan haustið 2008 þegar aldraðir foreldrar mínir fluttu þangað. Eftir að faðir minn dó fyrir tveimur árum og Guðrún móðir mín var orðin ein var það henni mikill stuðningur að dveljast á sömu deild og Guðrún frænka okkar frá Hafnarfirði en þær voru systkinadætur og svo til jafngamlar. Löngum sátu þær saman, Gunna frænka ævinlega kát og hress, sannkallaður gleðigjafi, stálminnug og fræddi mig um ýmislegt sem ég vissi ekki áður. Söngur og kórstarf var hennar líf og yndi. Trúlega hefur þeim nöfnum orðið tíðrætt um gamla tíma en mér er efst í huga blítt bros og elskulegheit Gunnu frænku. Það brást aldrei. Móðir mín saknar hennar og það gerum við vissulega líka og kveðjum hana með virðingu og þökk. Aðstandendum öllum vottum við samúð.

Ólafur R. Dýrmundsson

og fjölskylda.