Greiðslumiðlun Nokkrir af starfsmönnum Dalpay. Frá vinstri: Hallgrímur Stefánsson, Aðalbjörg Snorradóttir, Helga Árnadóttir og Valur Þórðarson.
Greiðslumiðlun Nokkrir af starfsmönnum Dalpay. Frá vinstri: Hallgrímur Stefánsson, Aðalbjörg Snorradóttir, Helga Árnadóttir og Valur Þórðarson. — Morgunblaðið/Skapti Hallgrímsson
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Anna Lilja Þórisdóttir annalilja@mbl.is Í skrifstofum gamla Kaupfélagshússins á Dalvík er Snorrason Holdings til húsa, fyrirtæki í eigu dalvískra tvíburabræðra, þeirra Björns og Baldurs Snorrasona.

Anna Lilja Þórisdóttir

annalilja@mbl.is

Í skrifstofum gamla Kaupfélagshússins á Dalvík er Snorrason Holdings til húsa, fyrirtæki í eigu dalvískra tvíburabræðra, þeirra Björns og Baldurs Snorrasona. Helsta starfsemi fyrirtækisins er rekstur Dalpay, sem er greiðslumiðlun á netinu og er nýtt af þúsundum fyrirtækja um allan heim.

„Í stuttu máli sagt sjáum við um færsluna á greiðslukortum viðskiptavina netverslana sem eru tengdar okkur. Við sjáum um að taka út af greiðslukortunum og komum peningunum svo til verslananna,“ segir Valur Þórðarson hjá Dalpay.

Spurður að því hversu margar netverslanir Dalpay þjónusti segir hann erfitt að segja til um það, en ljóst sé að þær skipti þúsundum. „Þær eru í rúmlega 80 löndum í öllum heimsálfum og senda til um 187 landa um allan heim. Þannig að það má nánast segja að við séum um allan heim.“

Valur segist ekki geta gefið upp hverjir viðskiptavinir Dalpay séu, það sé trúnaðarmál. Um sé að ræða mörg stórfyrirtæki, bæði innlend og erlend og gríðarmiklar fjárhæðir fari í gegnum greiðslumiðlunina á degi hverjum.

Hugmyndin að Dalpay fæddist árið 2003 og tveimur árum síðar var einkahlutafélagið Snorrason stofnað. Það hefur alla tíð verið rekið frá Dalvík, í fyrstu var húsnæði þess lítið skrifstofuherbergi á 3. hæð Hafnartorgs, Kaupfélagshússins á Dalvík, en núna hefur fyrirtækið lagt undir sig alla 2. hæð hússins.

Aukin umsvif og hagkvæm staðsetning

Að sögn Vals starfa nú 13 manns hjá Snorrason, meirihluti þeirra hjá Dalpay og eru flestir þeirra staðsettir á Dalvík. Fyrr á árinu jók Snorrason umsvif sín töluvert við að festa kaup á bandarísku greiðslumiðluninni CCNow, sem var ein fyrsta greiðslumiðlunin á netinu.

Valur segir afar hagkvæmt að vera með starfsemi af þessu tagi á Dalvík. „Það skiptir í sjálfu sér litlu máli hvar við erum staðsett, þetta fer allt fram á netinu. Hér göngum við í vinnuna og ef við þurfum að sinna einhverjum erindum, þá göngum við þangað. Það munar sennilega miklu, bæði hvað varðar tíma og peninga, að vera hérna fremur en á höfuðborgarsvæðinu.“