Kári Stefánsson
Kári Stefánsson
Eftir Kára Stefánsson: "Báturinn er að sökkva, marar í hálfu kafi, og Gylfi er ekki að ausa út úr honum heldur inn í hann."

Í pistli sem Gylfi Arnbjörnsson, forseti ASÍ, skrifaði á Fésbók gaf hann það í skyn að ég, Kári Stefánsson, hafi verið að ganga erinda erlends lyfjafyrirtækis, Amgen, þegar ég tjáði mig í útvarpi um vesöld íslensks heilbrigðiskerfis. Nánar tiltekið benti hann á að sá möguleiki væri fyrir hendi að ég hafi kvartað undan því að íslensk þjóð væri svelt að nýjum lyfjum og yrði að mestu að láta sér nægja gömul vegna þess að ég væri starfsmaður fyrirtækis sem hefði fjárhagslegra hagsmuna að gæta í því að Íslendingar ætu dýr lyf. Síðan sagði hann að hann yrði ekki hissa ef Íslensk erfðagreining væri að búa til nýtt líftæknilyf sem við ætluðum að koma á markað og auðvitað að selja til þess að græða peninga á fjárvana íslenskri þjóð.

Ég held því fram að þetta sé ekki bara smekklaust bull og heimskulegt heldur gæti það vegið að hagsmunum sem Gylfi er í fullu starfi við að verja og þiggur fyrir laun sem ákvarðast ekki af lágmarkstaxta Dagsbrúnar. Um þetta hef ég eftirfarandi að segja:

Ég vinn ekki fyrir Amgen heldur Íslenska erfðagreiningu sem er að vísu í eigu Amgen. Ég hef unnið fyrir Íslenska erfðagreiningu frá því að fyrirtækið var stofnað og á þeim tíma hefur það verið í eigu ýmissa aðila og hefur eignarhaldið í engu haft áhrif á það hvernig fyrirtækið hefur unnið eða hagað samskiptum sínum við íslenska þjóð. Verkefni okkar hefur alltaf verið að nota mannerfðafræði til þess að leita skýringa á eðli algengra sjúkdóma og höfum við notið til þess fulltingis íslenskrar þjóðar. Án þess hefðum við engu áorkað en með því höfum við orðið öflugasta stofnun í heimi í mannerfðafræði. Okkur er þetta samband við íslenska þjóð bæði mikilvægara og heilagra en samband okkar við eigendur sem koma og fara. Við myndum aldrei setja það samband í hættu með því að ganga vafasamra erinda eigenda okkar. Það er einfaldlega þannig.

Íslensk erfðagreining vinnur ekki að lyfjaþróun heldur eingöngu að mannerfðafræði. Ísland er svo lítill markaður fyrir frumlyf að það er fráleitt að halda því fram að lyfjarisinn sem keypti Íslenska erfðagreiningu fyrir meira en 50 milljarða íslenskra króna tæki þá áhættu að hvetja starfsmenn fyrirtækisins til þess að fikta í pólitík innfæddra í þeirri von að það yki sölu á lyfjum þeirra. Slík aukning gæti í besta falli numið brotabroti af einu prósenti af kaupverði Íslenskrar erfðagreiningar. Hin hliðin á því máli er svo sú að ef þeir væru svo vitlausir að fara fram á slíkt (sem þeir eru ekki) uppskæru þeir lítið annað en aðhlátur starfsmanna til að byrja með og síðan uppsagnir þeirra.

Ég hef á síðustu 15 dögum skrifað tvær greinar í Morgunblaðið um vesöldina í íslensku heilbrigðiskerfi og tekið þátt í tveimur útvarpsþáttum þar sem hún var rædd. Ég minntist ekki á lyfjamálin í greinunum tveimur og aðeins í öðrum útvarpsþáttanna vegna þess að ég lít ekki á þau sem stóran þátt í vanda heilbrigðiskerfisins þótt þau séu í ólestri og kalli á lagfæringu.

Aðdróttanir Gylfa eru hins vegar til þess fallnar að draga úr trúverðugleika alls þess sem ég hef sagt um vanda íslensks heilbrigðiskerfis sem er í rusli að mati allra stétta sem þar vinna og þeirra sem til þess leita.

Því miður er ekki víst að áhrif þessara aðdróttana endi þar heldur gætu þau grafið undan trú manna á orðum allra þeirra sem eru að hvetja til þess að heilbrigðiskerfið verði bætt: Samkvæmt útvíkkaðri kenningu Gylfa gæti allt tal um vanda heilbrigðiskerfisins átt rætur sínar í fjárhagslegum hagsmunum manna sem vilja selja heilbrigðiskerfinu eitt eða annað. Þetta er eina framlag Gylfa til umræðunnar um þann vanda heilbrigðiskerfisins sem er farinn að vega að vellíðan, heilsu og lífi meðlima þeirra stéttarfélaga sem mynda ASÍ. Báturinn er að sökkva, marar í hálfu kafi, og Gylfi er ekki að ausa út úr honum heldur inn í hann.

Þá er það spurningin um það hvers vegna Gylfi hafi séð ástæðu til þess að láta að sér kveða á þennan hátt. Mér finnst líklegt að það megi rekja það til þess að honum hafi mislíkað þegar ég sagði í sama útvarpsþætti og ég minntist á lyfjamálin að verkalýðshreyfingin á Íslandi væri næsta gagnslaus. Það er sjálfsagt erfitt að sitja undir slíku fyrir mann sem hefur helgað líf sitt þessari hreyfingu og hefur risið þar til valda og virðingar. En ég vil árétta hér að orð mín voru ekki gagnrýni á Gylfa og í raun réttri ekki gagnrýni á verkalýðshreyfinguna sem slíka heldur á þetta samfélag okkar sem er stöðugt að bregðast þeim sem eiga undir högg að sækja, þeim sjúku og meiddu, með því að hola að innan heilbrigðiskerfið, með því að leyfa bilinu milli þeirra sem eiga og öreiganna að breikka í sífellu, og með því að láta fjárhagslega hagsmuni lífeyrissjóða gelda verkalýðshreyfinguna.

Samfélagið okkar hefur verið svo djúpt sokkið í efnishyggju að undanförnu að það hefur ekki átt pláss fyrir verkalýðshreyfingu. En án tillits til þess hvers sök það er þá er staðreyndin sú að verkalýðhreyfingin er áhrifalítil í Íslensku samfélagi í dag og á sífellt erfiðara um vik með að vernda hagsmuni hinna vinnandi stétta. Hún verður að endurskilgreina sig og sjá til þess að þeir hagsmunir sem liggja í lífeyrissjóðunum verði ekki til þess að hún geti ekki að sinnt hagsmunum umbjóðenda sinna á hverjum tíma fyrir sig. Ég er í litlum vafa um að Gylfi gæti leitt þannig byltingu innan verkalýðshreyfingarinnar vegna þess að hann ber til hennar sterkar tilfinningar þótt þær geri það að verkum að hann skjóti stundum föstum skotum í vitlausa átt. Það er nefnilega þannig að tilfinningar, ærlegar og kraftmiklar, eru lykillinn að öllu góðu í lífinu, líka að verkalýðshreyfingu sem þjónar sínu samfélagi vel.

Höfundur er forstjóri Íslenskrar erfðagreiningar.