Landslag „Á ákveðnum tímapunkti öðlast málverkið sjálfstæði,“ sagði Georg Guðni. Myndin var tekin árið 2005.
Landslag „Á ákveðnum tímapunkti öðlast málverkið sjálfstæði,“ sagði Georg Guðni. Myndin var tekin árið 2005. — Morgunblaðið/Einar Falur
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Einar Falur Ingólfsson efi@mbl.

Einar Falur Ingólfsson

efi@mbl.is

Augað leitar að einhverju þekkjanlegu en ef það festist ekki við neitt fyllir hugurinn í eyðurnar,“ sagði Georg Guðni fyrir nokkrum árum, þar sem við skoðuðum ný málverk á vinnustofu hans, myndir þar sem jörð mætir himni og hugurinn leitar inn í dýpi sjóndeildarhringsins. Sýning á málverkum eftir Georg Guðna verður opnuð í Hverfisgalleríi, neðst á Hverfisgötu, klukkan 15 á morgun, laugardag. Á sýningunni gefur að líta níu málverk listamannsins í ýmsum stærðum, frá árunum 2003 til 2009, þar sem hann vinnur á sinn einstæða hátt með sjóndeildarhringinn. Ekkert þeirra hefur áður verið sýnt hér á landi.

Georg Guðni Hauksson var einn dáðasti listamaður þjóðarinnar. Hann lést langt fyrir aldur fram sumarið 2011, fimmtugur að aldri.

Georg Guðni gat sér fyrst orð fyrir málverk af nafngreindum fjöllum en smám saman varð náttúran í verkunum óræðari.

„Upphafning á landslagi ómerkir það á vissan hátt,“ sagði hann í samtali okkar fyrir fyrir tíu árum, skömmu áður en yfirlitssýning á verkum hans var opnuð í Listasafni Íslands. Við ræddum um stór óræð málverk sem voru þar á vinnustofunni og ég spurði hvort við værum að horfa út á haf eða yfir land.

„Það heillar mig hvað þetta er orðið óskilgreinanlegt, mér finnst þetta geta verið hvort tveggja,“ sagði Georg Guðni þá. „Þetta byrjaði sem eins konar hálendisöldur en getur nú verið hvort sem er; öldur á hafi eða jörð.

Ég set skynjunina ekki fram heldur býr fólk hana til eftir því hvað það hefur upplifað eða einfaldlega eftir því sem það ímyndar sér.“

Hann bætti við að í upplifuninni á þessum verkum væri áhorfandinn í sömu sporum og hann, nema áhorfandinn málaði ekki verkið. „Ég bý til sjónrænar aðstæður, þær mynda ákveðinn tíma sem fólk staldrar við. Þegar þú staldrar við þessi verk geturðu lent í svipuðum aðstæðum og þegar þú starir út um glugga. Ert að horfa en samt hættur að horfa á eitthvað ákveðið. Þá snýr sjónin við, fer inn á við. Það gerist ef þú ferð að horfa hérna.“ Georg Guðni gekk að einu verkinu og benti á miðflötinn, óvissan og loftkenndan sjóndeildarhringinn. Það eru slík verk sem nú gefur að líta í Hverfisgalleríi.