Örnólfur Grétar Þorleifsson fæddist á Ísafirði 19. október 1942. Hann lést á Sjúkrahúsi Akraness 20. september 2013.

Foreldrar hans voru Þorleifur Þorkelsson Örnólfsson, f. 1905, d. 1961, verkamaður og sjómaður, og Ástrún Þórðardóttir, f. 1901, d. 1989, húsmóðir. Systur hans voru Sólveig Ingibjörg, f. 1928 (látin), Þórdís, f. 1936, Áslaug, f. 1937 (látin), og Anna, f. 1939.

Örnólfur kvæntist 30. maí 1964 eftirlifandi eiginkonu sinni, Sigríði Brynju Einarsdóttur félagshjúkrunarfræðingi, f. 12. september 1942. Foreldrar hennar voru Einar Marías Kjartansson sjómaður, f. 1915, og Þórdís Jónína Baldvinsdóttir húsmóðir, f. 1919. Þau hófu búskap á Ísafirði 1964 en fluttu til Akraness 1966 og hafa búið þar síðan. Börn Örnólfs og Brynju: 1) Þorleifur Rúnar, f. 1965. Maki: Hildur Júlíusdóttir, f. 1966. Maki (skilin): Jónína Rakel Gísladóttir, f. 1965.

Synir Þorleifs og Rakelar: Örnólfur Stefán, f. 1988. Maki: Ingibjörg Huld Gísladóttir, f. 1991. Sonur þeirra Róbert Kári, f. 2010. Alexander Maron, f. 1993. Maki: Rut Hallgrímsdóttir, f. 1989. 2) Þórdís Árný, f. 1970. Maki: Guðmundur Rúnar Hjörleifsson, f. 1976. Börn þeirra eru: Brynjar Mar, f. 1998, og Guðrún Karitas, f. 2003. 3) Þórunn María, f. 1975. Maki (skilin): Guðmundur Jón Hafsteinsson, f. 1967. Sonur þeirra er: Kristinn Árni, f. 2005.

Örnólfur ólst upp á Ísafirði. Hann starfaði í Bókaverslun Matthíasar Bjarnasonar og Útvegsbanka Íslands á Ísafirði. Eftir að hann flutti til Akraness starfaði hann hjá Samvinnubanka Íslands sem skrifstofustjóri til ársins 1982 og síðar útibússtjóri í sama banka sem varð Búnaðarbanki Íslands, KB-banki og síðast Arionbanki. Hann hætti þar störfum árið 2004. Hann var einn af stofnendum Kiwanisklúbbsins Þyrils á Akranesi og var þar félagi í um 30 ár og gegndi m.a. embætti umdæmisstjóra yfir Íslandi og Færeyjum. Árið 2004 gekk hann í Frímúrarastúkuna Akur á Akranesi.

Útför Örnólfs fer fram frá Akraneskirkju í dag, 27. september 2013, kl. 14.

Elsku Addi afi minn.

Á litlum skóm ég læðist inn

og leita að þér, afi minn.

Ég vildi að þú værir hér

og vært þú kúrðir hjá mér.

Ég veit að þú hjá englum ert

og ekkert getur að því gert.

Í anda ert mér alltaf hjá

og ekki ferð mér frá.

Ég veit þú lýsir mína leið

svo leiðin verði björt og greið.

Á sorgarstund í sérhvert sinn

ég strauminn frá þér finn.

Ég Guð nú bið að gæta þín

og græða djúpu sárin mín.

Í bæn ég bið þig sofa rótt

og býð þér góða nótt.

(S.P.Þ.)

Mikið á ég eftir að sakna þín. Sofðu vel hjá englunum.

Þinn langafastrákur og vinur,

Róbert Kári.

„Það syrtir að er sumir kveðja“

(Davíð Stefánsson)

Kær frændi minn, jafnaldri og vinur, Addi Leifa, eins hann var ávallt kallaður af okkur skyldfólki hans, varð að lúta í lægra haldi fyrir krabbameininu. Þar áður hafði hann gengist undir hjartaaðgerð og var á góðum batavegi. Á milli okkar frændsystkinanna, sem fæddumst á Ísafirði með fimm daga millibili, mynduðust sterk vináttu- og tryggðabönd á unglingsárum. Við skrifuðumst á, urðum góðir trúnaðarvinir, bárum saman velgengni í námi og starfi, húmorinn og áhugamálin svipuð. Sífellt bættist við í minningabókina á lífsleiðinni. Addi var gæddur sérlega góðum eiginleikum frá barnsaldri: vel gefinn, námfús, félagslyndur, trúr sínum, heiðarlegur, vinsæll í hópi vina og ættingja og hafði góða nærveru. Glaðlyndur, spaugsamur, skemmtilegur sagnaþulur, góður og gegn maður til orðs og æðis. Ungur að árum kynntist hann elskulegri eiginkonu sinni, henni Brynju. Þau hafa verið einstaklega samhent hjón í lífi og starfi gegnum súrt og sætt í um fimmtíu ár. Barnalán mikið, fjölskyldan fór ört stækkandi og þau hjónin stolt af afkomendum sínum. Addi og Brynja tóku upp þann skemmtilega sið fyrir mörgum árum að senda sérstakt fréttabréf af fjölskyldu sinni til vina og ættingja um hver jól. Þar kom vel fram kærleikurinn, glettnin og áhuginn á öllu sem þau aðhöfðust. Áhugamál þeirra hjóna voru fjölbreytt og nutu þau sín hvort á sinn hátt, saman eða með öðrum. Ógleymanlega samverustund áttum við Þórður með þeim á Kanaríeyjum í febrúar 2011 þegar Þórður varð sjötugur. Fyrir tveimur árum greindist Addi með krabbamein og Brynja stuttu síðar einnig með þann vágest. Mikið var lagt á þau og tókust þau á við sjúkdóminn með miklum hetjuskap. Addi hafði samt miklu meiri áhyggjur af Brynju sinni en af eigin heilsu. Vegna sameiginlegrar lífsreynslu jukust samskipti okkar frændsystkinanna á síðastliðnum árum, þ.ám. með bréfaskriftum á netinu. Oftar en ekki lauk hann bréfum sínum með orðunum, „fram til orustu og sigurs“. Orustu hans lauk með ósigri en hann var hetja til hinstu stundar. Fáeinir dagar eru frá síðasta samtali okkar og mun ég ætíð minnast hans eins og besta bróður. Við Þórður og börnin okkar vottum elsku Brynju, börnum þeirra, afkomendum og systrum Adda einlæga samúð.

Far þú í friði,

friður Guðs þig blessi,

hafðu þökk fyrir allt og allt.

(Vald. Briem)

Helga Magnúsdóttir.

Hress og kátur og hvers manns hugljúfi er það fyrsta sem kemur í hugann þegar við minnumst Örnólfs vinar okkar. Hann var öðlingur og hafði góða og ljúfa nærveru.

Við urðum þeirrar gæfu aðnjótandi að kynnast Örnólfi og Brynju, konu hans, í Kiwanishreyfingunni fyrir 18 árum og öðlast vináttu þeirra. Vinahópurinn, sem umdæmisstjórn 1995-1996 myndaði, hefur komið saman árlega síðan, víðsvegar um landið, og átt ánægjulegar helgar saman. Rifjast nú upp skemmtileg helgi á Snæfellsnesi sem þau hjón skipulögðu. Fræddu þau okkur m.a. um Bárð Snæfellsás og fóru með okkur á Snæfellsjökul. Við hjónin erum líka þakklát fyrir einstaklega skemmtilegar samverustundir í ferðum á Kiwanisþing, bæði hérlendis og erlendis.

Það hefur verið ómetanlegt fyrir okkur að eiga svona góða vini eins og Örnólf og Brynju og hafa börn okkar einnig notið þess. Dóttir okkar minnist, með þakklæti, hugulsemi þeirra þegar hún lá á sjúkrahúsinu á Akranesi síðustu viku meðgöngu yngsta barns síns. Þau heimsóttu hana, buðu henni í mat og Örnólfur ók þegar þau buðu henni í ökuferðir þar sem hann þræddi hraðahindranir og holur og fullvissaði hana um að svona ökuferðir kæmu sko hríðunum af stað.

Örnólfur hafði mikla kímnigáfu, sagði einstaklega skemmtilega frá og sá oft skoplegar hliðar á málunum. Í síðasta samtali hans við Stefán, stuttu fyrir andlátið, spurði hann, eins og venjulega: „Hvað ertu búinn að klippa mörg eyru af í dag?“ Stefán saknar nú vikulegra símtala þeirra vinanna.

Mikill er missir fjölskyldunnar og sérstaklega Brynju, sem var ástin í lífi Örnólfs, hún var sú sem hann treysti á og elskaði svo mikið. Það var yndislegt að sjá fallegt samband þeirra.

Við kveðjum vin okkar Örnólf Þorleifsson með söknuði og sendum Brynju og allri fjölskyldunni samúðarkveðjur fyrir hönd vinahópsins og þökkum gefandi og góða samfylgd. Minningarnar munu ylja okkur um hjartarætur um ókomna tíð.

Anna og Stefán R. Jónsson.

Örnólfur Þorleifsson, fyrrverandi útibússtjóri Búnaðarbankans og síðan Kaupþings á Akranesi, er látinn eftir þungbær veikindi. Ég mun ekki rekja ævisögu Örnólfs, það gera aðrir sem betur þekkja til. En í minningu um góðan og eftirminnilegan félaga langar mig til að rifja upp okkar samskipti og mál er tengdust knattspyrnunni á Akranesi.

Árið 1990 var Akranesliðið nýfallið úr úrvalsdeild knattspyrnunnar og fólki á Akranesi og reyndar víðar á landinu var ekki skemmt. Um svipað leyti yfirtók Búnaðarbanki Íslands útibú Samvinnubankans á Akranesi. Við opnun hins nýja útibús flutti þáverandi formaður bankaráðs Búnaðarbankans, Guðni Ágústsson, fræga ræðu og mælti eitthvað á þá leið að við stöðu knattspyrnunnar á Akranesi yrði að bregðast og Akranesliðið yrði að verða á ný í fremstu röð líkt og Búnaðarbankinn með sínu góða starfsfólki. Samstarf milli þessara tveggja aðila var þá í burðarliðnum. Á þessum tímamótum hófust kynni okkar Örnólfs Þorleifssonar; ég sem einn af forystumönnum ÍA og hann sem útibússtjóri Búnaðarbankans á Akranesi, en útibússtjórar á Akranesi voru yfirleitt nefndir bankastjórar og fór það stöðuheiti Örnólfi vel.

Þetta samstarf gaf af sér mikil og góð samskipti og árangur sem er einstakur í íslenskri knattspyrnusögu og enn eitt gulltímabil okkar var hafið. Skemmst er frá því að segja að liðið fór beina leið upp og varð síðan Íslandsmeistari í fimm skipti í röð auk þess sem kvennaknattspyrnan var líka upp á sitt besta. Örnólfur fylgdist vel með störfum okkar í stjórn KFÍA og ekki síður leikmannahópunum. Hann var aufúsugestur í okkar hópi og fór m.a. með okkur í keppnisferð til Írlands ásamt syni sínum og hafði gaman af því. Örnólfur stóð ekki einn í bankanum við bakið á okkur í þessu, því Þröstur Stefánsson, aðstoðarútibússtjóri og fyrrverandi leikmaður ÍA, og þeir bankastjórar Jón Adolf Guðjónsson og Sólon Sigurðsson voru líka áhugasamir í meira lagi og fylgdust vel með framgangi knattspyrnunnar á Akranesi. Örnólfur tók m.a. upp þá nýbreytni í okkar hópi að degi fyrir fyrsta leik sumarsins bauð hann leikmönnum og stjórn í orkuríkt matarboð og hvatti okkur til dáða og mæltist það mjög vel fyrir í hópnum.

Örnólfur var öflugur þátttakandi í félagsmálum á Akranesi og lagði jafnan gott til þar sem hann lagði hönd á plóginn. Hann var traustur liðsmaður sem dró hvergi af sér og einstaklega skemmtilegur maður.

Nú er Örnólfur kvaddur hinstu kveðju og honum fylgja skemmtilegar minningar um frábæran félaga og þakkir okkar til hans fyrir öflugan stuðning við knattspyrnustarfið á Akranesi. Innilegar samúðarkveðjur til Brynju eiginkonu hans, barna og barnabarna og annarra aðstandenda.

Gunnar Sigurðsson,

fyrrverandi formaður KFÍA.

Í dag kveðjum við kæran vin, félaga og fyrrverandi yfirmann okkar til margra ára í útibúinu á Akranesi, Örnólf Þorleifsson. Örnólfur var ákaflega félagslyndur og skemmtilegur maður og hafði góða nærveru. Með þessum fátæklegu kveðjuorðum viljum við þakka honum fyrir ánægjulegar samverustundir í gegnum árin.

Sárt er vinar að sakna.

Sorgin er djúp og hljóð.

Minningar mætar vakna.

Margar úr gleymsku rakna.

Svo var þín samfylgd góð.

Góða minning að geyma

gefur syrgjendum fró.

Til þín munu þakkir streyma.

Þér munum við ei gleyma.

Sofðu í sælli ró.

(Höf. ók.)

Innilegar samúðarkveðjur sendum við til Brynju og fjölskyldu hennar.

Guð blessi ykkur öll.

f.h. Hákotsfélaga,

Helga Dóra, Ólöf og Daníel.

HINSTA KVEÐJA
Elsku besti Addi afi.
Takk fyrir allar frábæru stundirnar sem þú áttir með okkur, þú munt alla tíð eiga sérstakan stað í hjörtum okkar. Þú varst alltaf svo hjartahlýr, ljúfur og alltaf til í glens. Við gátum ávallt leitað til þín þegar eitthvað bjátaði á. Þú varst góður afi og góður vinur í senn. Þín verður sárt saknað.
Hjartans kveðjur frá þínum barnabörnum,
Örnólfi Stefáni, Alexander Maroni, Brynjari Mar, Guðrúnu Karitas og Kristni Árna.