Anna Sigrún Böðvarsdóttir fæddist á Akranesi 15. maí 1952. Hún lést á líknardeild Landspítalans í Kópavogi 14. september 2013.

Útför Önnu Sigrúnar fór fram frá Seljakirkju 20. september 2013.

Ég man ekki hversu langt er síðan Siggi bróðir kom með Önnu inn í fjölskylduna en ég hef varla verið eldri en fimm ára þannig að ég er búinn að þekkja Önnu og njóta nærveru hennar eins lengi og ég man eftir mér. Það er mér því erfitt að meðtaka þann napra veruleika að hún sé farin frá okkur. Og einhvern veginn trúði ég því ekki að krabbameinið myndi sigra hana þegar mamma sagði mér í sumar að hún hefði greinst með þennan óþverra sem krabbinn er.

Anna leit ekki út fyrir að vera deginum eldri en 45 ára og var í slíku toppformi að ég var handviss um að hún myndi sigrast á meininu. En því miður fór þetta á versta veg og maður er þrumulostinn yfir því að þessi ljúfa og góða kona sem vildi öllum vel skuli hrifsuð frá okkur á besta aldri.

Minningar mínar um Önnu og hennar góða geðslag eru óteljandi en mér er sérstaklega minnisstætt þegar ég fékk lánaðan sumarbústað fjölskyldunnar einhverja helgina. Það var kalt í veðri og ég átti í vandræðum með að finna eitthvað til að kveikja upp í með þangað til ég rakst á vænan bunka af danska tímaritinu Bo Bedre. Þetta reyndist hinn besti eldsmatur og kofinn var notalega hlýr á meðan blöðin brunnu. Siggi hringdi síðan í mig alveg brjálaður síðar þegar upp komst að ég hafði brennt blöðin sem Anna hafði safnað árum saman allt frá 1970.

Ég var auðvitað alveg í rusli þegar ég fór til þess að biðja Önnu að fyrirgefa mér skemmdarverkið. Hún brosti bara og sagði: „Ég var nú búin að lesa þau, Óli minn.“ Og spurði svo hvort þetta hefði ekki verið góð stúlka sem ég bauð með mér í bústaðinn.

Þessi litla saga lýsir henni Önnu okkar svo vel og missir okkar allra sem áttum hana að er mikill. Ekki síst Sigga bróður og strákanna sem hafa misst kjölfestuna í fjölskyldunni.

Ég kveð hana Önnu mína með sorg í hjarta og hugga mig við minningar og góða og trausta konu sem ég hitti vonandi hinum megin þegar þar að kemur.

Ólafur Vigfús Ólafsson.