Deiluefni Lyfsali telur nýja reglugerð brjóta gegn lyfjalögum.
Deiluefni Lyfsali telur nýja reglugerð brjóta gegn lyfjalögum. — Morgunblaðið/Sverrir
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Baldur Arnarson baldura@mbl.is „Mér hefur borist enn ein hótunin frá Sjúkratryggingum Íslands. Nú hóta þær að stöðva greiðslur til Garðsapóteks frá og með 4. október nk.

Baldur Arnarson

baldura@mbl.is

„Mér hefur borist enn ein hótunin frá Sjúkratryggingum Íslands. Nú hóta þær að stöðva greiðslur til Garðsapóteks frá og með 4. október nk. vegna lyfja sem greiðsluþátttaka þeirra nær til,“ segir Haukur Ingason, lyfsali í Garðsapóteki, um deiluna.

„Ég hef frest til 3. október til að ákveða hvað ég geri. Ég vona að Kristján Þór Júlíusson heilbrigðisráðherra felli reglugerðarákvæðið niður. Það er enda tóm þvæla, samþykkt af síðustu ríkisstjórn. Ef ráðherra gerði það væri komin samkeppni í lyfjabúðir á ný í samræmi við kröfur Neytendasamtakanna.“

Haukur deilir nú við Sjúkratryggingar Íslands og velferðarráðuneytið vegna afsláttar, eða mótframlags, sem hann veitir af lyfjum og hafa sjúkratryggingarnar tilkynnt honum að greiðslur til Garðsapóteks vegna lyfja sem greiðsluþátttaka sjúklinga nær til muni stöðvast frá og með fimmtudeginum 3. október nk. Umrædd reglugerð er hluti af nýju greiðsluþátttökukerfi sem tók gildi 4. maí sl. í samræmi við breytingar á lögum sem Alþingi samþykkti 1. júní 2012.

Miðað sé við lyfjaverðskrá

Haukur hefur kært málið til umboðsmanns Alþingis og varðar kæran ákvæði í nýrri reglugerð um hvort Sjúkratryggingar Íslands hafi heimild til að lækka greiðsluþátttökuverð sitt ef veittur er afsláttur af lyfi.

Telur Haukur þetta ákvæði brjóta gegn 43. grein í lyfjalögum 93/1994 þar sem standi að lyfjagreiðslunefnd ákveði hámarksverð á lyfseðilsskyldum lyfjum og greiðsluþátttökuverð, þ.e. það verð sem sjúkratryggingar skulu miða greiðsluþátttöku sína við. Álítur Haukur með öðrum orðum að nýja reglugerðin feli í sér lögbrot með því að miða ekki ávallt við uppgefið hámarksverð umræddrar nefndar. Hefur Haukur m.a. rökstutt mál sitt með vísan til að hann veiti sjúklingum ekki afslátt af lyfjum, heldur endurgreiði þeim úr eigin vasa mótframlag þegar greitt er fyrir lyf í apóteki hans, sem sé Sjúkratryggingum Íslands óviðkomandi.

Að hans sögn felur nýja kerfið í sér að ríkið myndi hirða 85% af afslætti af lyfjum sem veittur er til aldraðra og öryrkja en 75% af afslætti til annarra ef mótframlög eða afslættir lækki greiðsluþátttökuverð SÍ. Reglugerðin hindri samkeppni og sé gegn samkeppnislögum.

Sé hótun um fangelsisvist

Spurður hvers vegna hann telji nýju reglugerðina lögbrot bendir Haukur á að ef velferðarráðuneytið eða SÍ gætu breytt verði lyfjagreiðslunefndar væri allt eins hægt að leggja nefndina niður. Það eigi ekki að skipta máli hvort sjúklingur, ættingi, aðstandandi, lyfsalar eða einhverjir aðrir greiði hlut sjúklings í lyfi með greiðsluþátttöku. Haukur bendir á að ef Lyfja og Lyf & heilsa veiti engan afslátt geri SÍ ekki athugasemd. Vilji smærri apótek veita afslátt af sömu lyfjum vilji SÍ hins vegar fá megnið af honum í sinn vasa.