Hjálmar Magnússon
Hjálmar Magnússon
Eftir Hjálmar Magnússon: "Nú ættum við Íslendingar að sýna svolitla reisn og verða fyrstir þjóða til þess að lýsa því yfir að við tökum ekki þátt í því að leita eftir eða framleiða kolefnaeldsneyti..."

Sífellt berast okkur nýjar og nákvæmari upplýsingar um mengun lofts og sjávar. Fréttir víðs vegar að úr veröldinni segja frá auknum öfgum í veðurfari og komumst við hér á okkar litla landi í snertingu við alls konar veðurfarsöfgar þótt ekki sé kannski á jafnsvakalegan hátt og sums staðar úti í hinum stóra heimi, vísindamenn benda á að líklegt sé að við menn séum sökudólgarnir með okkar miklu olíubrennslu.

Þó að við Íslendingar brennum kannski ekki miklu kolefnaeldsneyti miðað við heiminn í heild eigum við ekki síður en aðrar þjóðir mikilla hagsmuna að gæta að farið sé varlega í sakirnar í þeim efnum með öll okkar miklu fiskimið allt í kringum landið.

Við sjáum nú þegar alvarlegar breytingar hér í okkar næsta umhverfi. Eitthvað í umhverfinu gerir það að verkum að fuglastofnar við hafið hafa ekki það lífsviðurværi sem þeir þurfa og koma ekki upp ungviði sínu, svo sem lundinn og krían sem sl. ár hafa varla komið upp ungum að því er virðist vegna ætisskorts í sjónum segja fræðingarnir.

Þær fréttir berast frá fuglafræðingi í Eyjum, að varla komist nokkur einasti lundaungi á legg í ár vegna ætisskorts. Víðs vegar um landið hefur krían ekki komið upp ungum.

Þegar neðstu hlekkir fæðukeðjunnar fara að gefa sig, hver verða þá áhrifin þegar og ef þeirra gætir ofar í fæðukeðjunni?

Hlustum vel á náttúruna þegar hún talar til okkar. Hlýnun og súrnun hafsins eitrar og drepur fiskstofna okkar, bráðnun jökla gerir mörg láglendissvæði jarðarinnar óbyggileg og geta breytt veðurfari jarðarinnar á ófyrirséðan hátt. Göngum því hægt um gleðinnar dyr.

Í dag ættum við að hafa þann þroska og þekkingu að ganga ekki of nærri gæðum og kostum þess heimshluta sem okkur er trúað fyrir.

Öll getum við verið sammála um að við verðum að lifa á því sem landið og sjórinn gefa okkur, en stígum varlega til jarðar. Við verðum að gera okkur grein fyrir því að ef við ætlum okkur sem mannkyn að lifa áfram á þessari jörð okkar höfum við alls ekki leyfi til þess að spilla henni þannig að framtíðinni sé hætta búin vegna okkar aðgerða.

Áður en farið er í umdeildar aðgerðir skulum við gera okkur grein fyrir því að skoða þarf málin frá öllum hliðum og ræða þau vel og af sannleika á alla kanta og ekkert sé dregið undan.

Við búum við einhver stærstu og bestu fiskimið í veröldinni og ber framtíðarinnar vegna skylda til að varðveita þau eins vel og okkur er auðið.

Þó að vísindamenn víða um heiminn bendi sífellt á þá miklu hættu sem kolvetnisbrennsla mannkyns hefur í för með sér virðist varla nokkur þjóð vera tilbúin til þess að taka af skarið og hafa forystu um raunhæfar aðgerðir til varnar jörð okkar og þar með framtíð barnanna okkar. Og ætlum jafnvel við Íslendingar, sem höfum þó verið framarlega í notkun á grænni orku, að fara að taka þátt í framleiðslu á kolefnaeldsneyti og þar að auki með borun úti á fiskimiðum okkar.

Olíuborun í sjó

Tvær af stærstu iðnaðarþjóðum heimsins, Bandaríkjamenn og Bretar, áttu í mesta basli þegar borhola í Mexíkóflóa gaf sig og fór að leka. Þeir réðu ekkert við aðstæðurnar og misstu milljónir lítra af olíu í sjóinn, voru þeir þó með sitt vandamál í hlýsjónum við miðju jarðar. Þeir hafa síðan barist við gríðarlega mengun á ströndum og í lífverum í hafinu.

Við verðum að athuga það að Drekasvæðið, þar sem fyrirhugað er að bora, er miklum mun hættulegra og flóknara svæði til að vinna á en Mexíkóflói. Landhelgisgæslan hefur í gegnum tíðina oft varað við hættulegum ísjökum fyrir norðan landið og varað skip við þeim vegna þess að þeir sjást varla í radar. Hvað ætlum við að gera ef olíuleiðsla eða hola gefur sig? Við erum í ísköldum sjó þar sem hafís getur líka verið til trafala ef grípa þarf til aðgerða.

Það er eins gott að aðgerðir gangi hratt og vel þannig að við mengum ekki okkar auðugu fiskimið.

Við höfum í gegnum tíðina séð umheiminum fyrir matvælum, aðallega í formi fiskafurða þótt ekki skulum við gleyma okkar hreina og frábæra landbúnaði.

Matvælastofnun Sameinuðu þjóðanna, FAO, spáir því að fiskneysla í heiminum muni aukast um allt að 33% og það á einungis næstu tíu árum (Lifandi vísindi nr. 7 2013).

Nú ættum við Íslendingar að sýna svolitla reisn og verða fyrstir þjóða til þess að lýsa því yfir að við tökum ekki þátt í því að leita eftir eða framleiða kolefnaeldsneyti og allra síst á fiskimiðum okkar.

Skora ég hér með á stjórnvöld að stefna ótrauð að því að rafvæða sem mest alla okkar orkunotkun. Það færi vel á að háskólarnir okkar fengju betri styrki til að styðja við bakið á ungu fólki sem hefði hug á að rannsaka og skoða hvar og hvernig mætti sem best nýta aðra orkugjafa en kolefnaeldsneyti. Við eigum mikið af hugvitssömu og duglegu fólki sem hefur brennandi áhuga á framfaramálum í heiminum í dag og þótt við séum lítil og fámenn þjóð stendur unga fólkið okkar sig ekkert síður en hjá stærri þjóðum.

Vinnum að því af heilum hug að spilla jörð vorri ekki meir en orðið er.

Höfundur er fv. framkvæmdastjóri.