Peysutog Jóhann Reynir Gunnlaugsson úr HK reynir að stöðva Framarann Svein Þorgeirsson í viðureign liðanna í Safamýrinni í gærkvöld.
Peysutog Jóhann Reynir Gunnlaugsson úr HK reynir að stöðva Framarann Svein Þorgeirsson í viðureign liðanna í Safamýrinni í gærkvöld. — Morgunblaðið/Ómar
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Í Safamýri Ívar Benediktsson iben@mbl.is Framliðið rak af sér slyðruorðið frá því í fyrsta leik Íslandsmótsins fyrir viku þegar það lagði HK afar örugglega, 29:23, á heimavelli sínum í annarri umferð Olís-deildar karla í handknattleik.

Í Safamýri

Ívar Benediktsson

iben@mbl.is

Framliðið rak af sér slyðruorðið frá því í fyrsta leik Íslandsmótsins fyrir viku þegar það lagði HK afar örugglega, 29:23, á heimavelli sínum í annarri umferð Olís-deildar karla í handknattleik. Eftir slæmt tap fyrir Akureyri í fyrstu umferðinni voru leikmenn Fram ákveðnir frá fyrstu mínútu að gera betur í fyrsta heimaleiknum og krækja í stig.

Fram var með fimm marka forskot í hálfleik, 16:11.

Eftir kröftuga byrjun Framliðsins í leiknum náði HK að jafna þegar á hálfleikinn leið. Lokamínúturnar voru Framliðsins sem hafði fimm marka forskot í hálfleik.

Fljótlega í síðari hálfleik var munurinn orðinn sjö mörk og þá leystist leikur HK-liðsins endanlega upp. Aldrei lék vafi á hvorum megin sigurinn myndi falla. HK-liðið var komið langt undir og hafði enga burði til þess að vinna upp forskot baráttuglaðra leikmanna Fram.

Framliðið hefur tekið miklum breytingum frá síðasta ári. Fáir eldri og reyndir leikmenn eru eftir.

Nægur efniviður í Safamýri

Efniviðurinn virðist hinsvegar nægur í Safamýrinni um þessar mundir. Það verður fróðlegt að sjá hvernig Guðlaugur Arnarsson, nýr þjálfari liðsins, spilar úr þeim efnivið sem hann hefur með höndum.

Í gær var varnarleikur liðsins finn og markvarslan ágæt hjá Dananum Stephen Nielsen. Sóknarleikurinn var á köflum villtur og hætt við er að svo verði enda borinn uppi af ungum og lítt reyndum leikmönnum. Varnarleikurinn er hinsvegar lofandi og ljóst að ef Guðlaugur getur ekki kennt piltunum að leika almennilegan varnarleik gæti öðrum reynst það erfitt.

HK-liðið hefur einnig gengið í gengum talsverðar breytingar og þjálfaraskipti frá síðustu leiktíð. Því miður náðu flestir sér lítt á strik í leiknum í gær.

Leó Snær Pétursson var einna bestur leikmanna HK. Hann hefur bætt sig talsvert frá síðustu árum.

Sóknarleikurinn moraði í byrjendamistökum frá upphafi til enda og ekki bætti úr skák þegar einn reynslumesti leikmaðurinn, Daníel Berg Grétarsson, meiddist á 41. mínútu og kom ekkert meira við sögu.

Ef HK-liðið leikur ekki betur í næstu leikjum en það gerði lengst af í gærkvöldi er hætt á að veturinn verði liðinu langur og strangur. Varnarleikurinn var slakur lengi vel. Fyrir vikið náði hinn ágæti markvörður, Björn Ingi Friðþjófsson, sér ekki á strik. HK gerði alltof mörg mistök í sókninni. Framliðið gerði sig einnig sekt um fjölda mistaka en það kom ekki að sök.

Fram – HK 29:23

Framhús, úrvalsdeild karla, Olís-deildin, fimmtudaginn 26. sept. 2013.

Gangur leiksins : 0:1, 3:1, 5:2, 6:5, 7:7, 10:7, 10:10, 12:11, 16:11 , 17:11, 19.14,

20:16, 23:17, 28:19, 29:20, 29:23 .

Mörk Fram : Garðar Sigurjónsson 5/3, Sigurður Örn Þorsteinsson 5, Stefán Baldvin Stefánsson 4, Ólafur Jóhann Magnússon 4, Sveinn Þorgeirsson 4, Sigfús Páll Sigfússon 3, Stefán Darri Þórsson 3/1, Arnar Freyr Ársælsson 1.

Varin skot : Stephen Nielsen 15/1 (þar af 5/1 aftur til mótherja). Svavar Már Ólafsson 1/1.

Utan vallar : 6 mínútur.

Mörk HK : Léo Snær Pétursson 6, Atli Karl Bachmann 3, Daníel Berg Grétarsson 3/1, Sigurður Már Guðmundsson 3, Davíð Ágústsson 2, Ólafur Víðir Ólafsson 2/2, Garðar Svansson 1, Jóhann Reynir Gunnlaugsson 1, Óðinn Þór Ríkharðsson 1, Tryggvi Þór Tryggvason 1.

Varin skot : Björn Ingi Friðþjófsson 8/1 (þar af 1 til mótherja). Helgi Hlynsson 2 (þar af 1 til mótherja).

Utan vallar : 10 mínútur.

Dómarar : Bjarni Viggósson og Sigurður Þrastarson.

Áhorfendur : 269.