Bríet Bjarnhéðinsdóttir kvenréttindafrömuður fæddist á Haukagili í Vatnsdal 27.9. 1856. Hún var dóttir Bjarnhéðins Sæmundssonar, Böðvarshólum á Vatnsnesi, og k.h.

Bríet Bjarnhéðinsdóttir kvenréttindafrömuður fæddist á Haukagili í Vatnsdal 27.9. 1856. Hún var dóttir Bjarnhéðins Sæmundssonar, Böðvarshólum á Vatnsnesi, og k.h., Kolfinnu Snæbjarnardóttur, systur Bjarna, langafa Ástu, móður Hannesar Hólmsteins Gissurarsonar.

Eiginmaður Bríetar var Valdimar Ásmundsson, ritstjóri Fjallkonunnar, sem lést 1902.

Börn þeirra voru Laufey, stúdent, fyrst íslenskra kvenna, 1910, cand. phil., og formaður Kvenréttindafélags Íslands, og Héðinn, forstjóri Olíuverslunar Íslands, alþm., formaður Dagsbrúnar og varaformaður Alþýðuflokksins. Héðinn var faðir Bríetar, leikkonu og leikstjóra, móður Laufeyjar fiðluleikara, Guðrúnar Theódóru sellóleikara og Steinunnar Ólínu leikkonu.

Bríet lærði í kvennaskóla á Laugalandi einn vetur en var að mestu sjálfmenntuð. Hún var án efa í hópi merkustu Íslendinga á sinni tíð; víðlesin, stórhuga og kjarkmikil. Hún var aðeins sextán ára er hún samdi grein um stöðu kvenna, en sýndi þó engum greinina fyrr en 13 árum síðar. Þá birtist hún endurbætt, í tveimur hlutum, í Fjallkonunni undir heitinu „Nokkur orð um menntun og rjettindi kvenna“ undir dulnefninu Æsa.

Kvenréttindabarátta hófst á Íslandi með fyrirlestri Bríetar um hagi og réttindi kvenna, sem hún hélt í Reykjavik hinn 30.12. 1887, en það var jafnframt fyrsti fyrirlestur íslenskrar konu.

Bríet stofnaði Hið íslenzka kvenfélag og Kvenréttindafélag Íslands 1907 og var formaður þess í tuttugu ár. Hún var kjörin í bæjarstjórn 1908-12 og 1914-20 og barðist fyrir kosningarétti, kjörgengi og jafnrétti kvenna til skólanáms.

Minnisvarði um Bríeti var afhjúpaður á horni Þingholtsstrætis og Amtmannsstígs á 100 ára afmæli Kvenréttindafélags Íslands, en félagið var stofnað á heimili Bríetar, í Þingholtsstræti 18.

Bríet lést 16.3. 1940.