Gaman Guðmundur Páll Arnarson, eigandi, skólastjóri og aðalkennari Bridgeskólans, í kennslustund vikunnar.
Gaman Guðmundur Páll Arnarson, eigandi, skólastjóri og aðalkennari Bridgeskólans, í kennslustund vikunnar. — Morgunblaðið/Golli
Guðmundur Páll Arnarson var í íslenska briddslandsliðinu sem hreppti heimsmeistaratitilinn í Japan haustið 1991.

Guðmundur Páll Arnarson var í íslenska briddslandsliðinu sem hreppti heimsmeistaratitilinn í Japan haustið 1991. Keppnin um Bermúdaskálina stendur einmitt nú yfir og er Hjördís Eyþórsdóttir komin í fjögurra liða úrslit með bandarískri sveit sinni í kvennaflokki en Guðmundur Páll segir að sveit Ítalíu sé sigurstranglegust í opnum flokki. Bandaríkjamenn og Pólverjar séu líka sterkir sem og lið Mónakó, sem samanstandi af tveimur Ítölum, tveimur Norðmönnum, Frakka og Svisslendingi.

„Við erum svolítið að gera út á gamla gengið,“ segir Guðmundur Páll um íslenska landsliðið. Hann segir að yngri mennirnir í liðinu séu reyndar mjög góðir og liðið sé mjög sterkt en nýliðun þurfi að vera regluleg og þar standi hnífurinn í kúnni. Hann segir þetta alþjóðlegt vandamál og bendir á að um 1930, þegar bridds hafi verið á hæsta stalli, hafi briddsbækur á ensku selst í milljónum eintaka. Nú hreyfist þær vart.

Spila bridds fram á grafarbakkann

• Félagsskapurinn mikilvægari en keppnisharkan Steinþór Guðbjartsson

steinthor@mbl.is

Kennsla í Bridgeskólanum hófst í vikunni og er þétt setið á námskeiðunum. „Það er mjög mikill almennur áhugi á bridds enda er þetta skemmtileg íþrótt,“ segir Guðmundur Páll Arnarson, eigandi, skólastjóri og aðalkennari Bridgeskólans, sem er í húsakynnum Bridgesambands Íslands við Síðumúla í Reykjavík. „Þetta er fyrst og fremst góður félagsskapur og gott tilefni til þess að hittast, en fólk gleymir stað og stund þegar það spilar bridds. Þetta er mikil afslöppun.“

Páll Bergsson stofnaði skólann fyrir um 35 árum og fimm árum síðar tók Guðmundur Páll við stjórninni eftir að hafa kennt við hann um tíma. Hann segir að frá byrjun hafi verið mikil eftirspurn eftir fræðslunni. Eldra fólk sé í meiri hluta, fólk sem hafi meiri frítíma en aðrir. Eins sé algengt að pör velji bridds sem sameiginlegt áhugamál.

Nördarnir í tölvurnar

„En við höfum tapað svolítið nördunum í tölvurnar. Þegar ég var ungur fóru þeir í bridds og skák en nú fara þeir í tölvuleiki eða tölvurnar sem slíkar. Bridds er því meiri félagsleikur en keppnisíþrótt.“

Guðmundur bendir á að sama þróun eigi sér stað víða um heim. Í Bandaríkjunum séu konur í miklum meirihluta spilara og á millistríðsárunum hafi flestar húsmæður spilað bridds á eftirmiðdögum að minnsta kosti einu sinni í viku. „Þá voru þær ekki farnar að þræla úti,“ segir hann. „Síðan kom tímabil mikillar keppnishörku, sem ég tilheyri, mjög sterkir árgangar,“ heldur hann áfram. „Svo kom vídeóið, síðan tölvan og þá hætti nýliðunin svolítið, bæði í bridds og skák. Menn sem bera hag þessara íþrótta fyrir brjósti hafa áhyggjur af þessu.“

Guðmundur Páll segir sjaldgæft að menn detti í briddsið, spili öll kvöld og allar helgar og geri nánast ekkert annað árum saman eins og hann og fleiri hafi gert. Bridds hafi verið spilað í öllum menntaskólum og mikið lagt upp úr keppni á milli skóla.

„Það læra börnin sem fyrir þeim er haft,“ segir hann og bendir á að hann hafi fylgst með föður sínum og félögum hans sem spiluðu bridds einu sinni í viku. Hann hafi smitast og spilað bridds í öllum sínum frítíma. „Í menntaskóla slepptu menn því oft að mæta í tíma og spiluðu bridds í staðinn.“ Í þessu sambandi nefnir hann að helstu keppendur í heimsmeistarakeppninni hafi spilað á toppnum í 30 ár og öldungaflokkurinn sé einn sterkasti flokkurinn. „Menn geta alveg spilað fram á grafarbakkann. Þetta snýst bara um úthaldið.“