Í réttarsal Sigurður Kárason kemur í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær.
Í réttarsal Sigurður Kárason kemur í Héraðsdóm Reykjavíkur í gær. — Morgunblaðið/Rósa Braga
Andri Karl andrikarl@mbl.is Karlmaður á sextugsaldri sem ákærður hefur verið fyrir umfangsmikil fjársvik kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í gærmorgun. Hann lýsti sig saklausan af ákærunni og hafnaði öllum bótakröfum í málinu.

Andri Karl

andrikarl@mbl.is

Karlmaður á sextugsaldri sem ákærður hefur verið fyrir umfangsmikil fjársvik kom fyrir Héraðsdóm Reykjavíkur í gærmorgun. Hann lýsti sig saklausan af ákærunni og hafnaði öllum bótakröfum í málinu. Hann er sakaður um að svíkja á annað hundrað milljónir króna af sextán manneskjum.

Maðurinn, Sigurður Kárason, hefur áður hlotið dóm fyrir fjársvik. Sigurður byrjaði með leiktækjasal í Einholti í Reykjavík snemma á níunda áratug síðustu aldar en færði sig þaðan yfir í tívolírekstur og svo einnig hótelrekstur. Hann hlaut dóm fyrir að svíkja fé af ekkju með elliglöp, um þrjátíu milljónir króna, en þau svik stóðu yfir í tvö ár.

Kröfu um að dómhaldið væri lokað hafnað

Þrátt fyrir að málið hafi verið þingfest fyrir nokkrum vikum hafði Sigurður ekki enn komið fyrir dómara og tekið afstöðu til sakarefnisins. Lögmaður hans krafðist í fyrstu að málinu yrði lokað fyrir almenningi og fjölmiðlum til að vernda dóttur hans. Dómurinn féllst ekki á það.

Sigurður kom, eins og áður segir, fyrir dóminn í gærmorgun. Hann neitaði sök að öllu leyti og segir að ágreiningur sé uppi um fjárhæðir, dagsetningar og efnislýsingu í öllum ákæruliðum. Verjandi Sigurðar boðaði að hann muni skila greinargerð í málinu og fór fram á ríflegan frest, eða átta vikur. Dómari málsins sagði það af og frá og að slíkur frestur væri alltof langur.

Vill fá gögn

Þá óskaði verjandi Sigurðar eftir að fá afhent gögn frá lögreglu til að undirbúa greinargerðaskrifin. Hann sagði að ýmis gögn væru í vörslu lögreglu eftir húsleit og þau væru nauðsynleg til að undirbúa málsvörnina. Saksóknari sagði að ekki stæði á sér að afhenda gögnin, einungis þurfi að senda formlegt bréf þar sem þess er óskað og tiltekið hvaða gögn átt sé við.

Málinu var svo frestað og verður tekið fyrir í lok mánaðarins. Verður þá ákveðið hversu langan frest verjandi Sigurðar fær til að skila greinargerð.