Sár Merki um utanvegaakstur á Miðdalsfjalli. Í nýju náttúruverndarlögunum eru meðal annars ákvæði sem taka á akstri utan vega.
Sár Merki um utanvegaakstur á Miðdalsfjalli. Í nýju náttúruverndarlögunum eru meðal annars ákvæði sem taka á akstri utan vega. — Morgunblaðið/Árni Sæberg
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Fréttaskýring Kjartan Kjartansson kjartan@mbl.is Ný náttúruverndarlög voru á meðal þeirra stóru mála sem hart var deilt um á lokametrum síðasta vorþings.

Fréttaskýring

Kjartan Kjartansson

kjartan@mbl.is

Ný náttúruverndarlög voru á meðal þeirra stóru mála sem hart var deilt um á lokametrum síðasta vorþings. Þáverandi ríkisstjórnarflokkum var umhugað um að koma frumvarpinu í gegnum þingið áður en kjörtímabilinu lyki þrátt fyrir að háværar gagnrýnisraddir væru uppi um ákveðna þætti þess. Fjölmargar umsagnir bárust um frumvarpið og samtökin Ferðafrelsi söfnuðu meðal annars 16.000 undirskriftum til að mótmæla breytingunum sem fyrirhugaðar voru.

Upphaflega áttu lögin að taka gildi nú í sumar en í samningaviðræðum stjórnarinnar og stjórnarandstöðunnar um þinglok féllust stjórnarflokkarnir á að fresta því að náttúruverndarlögin tæku gildi til 1. apríl árið 2014. Frumvarpið var svo samþykkt sem lög í lok mars með 28 atkvæðum. Sautján þingmenn núverandi stjórnarflokka sátu hins vegar hjá við atkvæðagreiðsluna.

Umdeild afturköllun

Eftir að Sigurður Ingi Jóhannsson umhverfisráðherra tilkynnti í vikunni að hann hygðist afturkalla lögin og fela ráðuneyti sínu að hefja endurskoðun á þeim hafa deilur um ný náttúruverndarlög blossað upp á nýjan leik.

Náttúruverndarsamtök hafa brugðist ókvæða við tilkynningu ráðherrans og lýstu Náttúruverndarsamtök Íslands meðal annars yfir vantrausti á hann í yfirlýsingu vegna málsins. Þau segja tilkynningu hans til marks um fjandsamlega afstöðu hans til náttúruverndar.

Landvernd mótmælir einnig ákvörðun umhverfisráðherra harðlega og krefur hann um haldbæran rökstuðning fyrir ákvörðuninni. Samtökin benda á að ítarleg heildarendurskoðun á náttúruverndarlögum sem getið er í tilkynningu ráðherrans hafi þegar farið fram allt síðasta kjörtímabil. Landvernd fellst á að endurskoða megi vissa þætti laganna en það kalli þó ekki á að þau verði endurskoðuð í heild sinni.

Ekki eru þó allir ósáttir við fyrirætlanir umhverfisráðherrans. Ferðafrelsi, samtök áhugafólks um náttúruvernd og ferðafrelsi, sendu frá sér yfirlýsingu þar sem ákvörðun umhverfisráðherra er fagnað. Þau segja lögin hafa verið illa unnin og aðeins fáir útvaldir hafi haft raunverulega aðkomu að gerð þeirra. Þrátt fyrir að ýmsir þættir frumvarpsins hafi verið lagfærðir rétt fyrir samþykkt þeirra einkennist andi þeirra enn af boðum og bönnum. Samtökin hafa meðal annars gagnrýnt að útivistarhópum sé mismunað eftir hvaða ferðamáta þeir kjósi og vísa til takmarkana á umferð ökutækja. Lögin komi til með að hefta för fólks um landið.

Skógræktarfélag Íslands lýsir einnig yfir ánægju sinni með að endurskoða eigi náttúruverndarlögin aftur.

Í umsögn sinni um frumvarpið hafði félagið meðal annars furðað sig á því að þrengt yrði að skógrækt og uppgræðslu með ákvæðum um að hefta framandi tegundir hér á landi.

Samið um gildistökuna

Illugi Gunnarsson, menntamálaráðherra sem var þingflokksformaður Sjálfstæðisflokksins þegar lögin voru afgreidd, sagði að ákveðið hefði verið að fresta gildistöku laganna þannig að ný ríkisstjórn gæti tekið ákvörðun um afdrif laganna, en miklar efasemdir voru um lögin innan Framsóknar- og Sjálfstæðisflokks þegar þau voru samþykkt.

Nálgunin harkaleg

Sú nálgun Sigurðar Inga Jóhannssonar umhverfisráðherra að ætla að afturkalla ný náttúruverndarlög er ótrúlega harkaleg að dómi Svandísar Svavarsdóttur, forvera hans í embætti sem lagði fram frumvarpið að lögunum.

Hún segir að ráðherrann tali um að ná breiðari sátt um lögin og þá sé gjarnan bent á akstursfólk. Málefni sem varði það komi fyrir í einni grein laganna og ef það væri það eina sem út af stæði væri ráðherra í lófa lagið að endurskoða þá grein frekar en að afturkalla öll lögin.

„Ætlar hann líka að hafa samráð við náttúruverndarsamtök, Ferðafélag Íslands, sem reyndu að toga lögin til meiri verndar? Er hann bara að tala um samráð við þá sem vilja fjarlægjast verndina?“ spyr Svandís.