Herbert Jóhannes Guðbrandsson fæddist í Stóra-Laugardal í Tálknafirði 15. nóvember 1920. Hann lést á Landspítalanum 6. september 2013.

Útför Herberts fór fram frá Áskirkju 24. september 2013.

Mig langar til að minnast Herberts J. Guðbrandssonar frá Tálknafirði með örfáum orðum en reyndar líka konunnar hans, Málfríðar R.O. Einarsdóttur frá Tálknafirði en nú eru rúm fjögur ár frá því að hún dó.

Hún var systir móðurömmu minnar, Pálínu Guðrúnar Einarsdóttur. Ég var lítil stelpa þegar ég kynntist Hebba og Fríðu og það var alltaf gaman að koma til þeirra á Lækjarbakka.

Ég fór oft til þeirra með mömmu og ömmu sem átti heima á Bjarmalandi þar rétt hjá og þar vorum við oft á sumrin. Fríða kom líka til ömmu og einnig Jóndís Sigurrós systir þeirra sem bjó á Skrúðhömrum. Sátu þær systur, amma, Fríða og Dísa saman í eldhúsinu hennar ömmu og drukku kaffi.

Hebbi og Fríða tóku alltaf vel á móti mér og okkur öllum með faðmlagi og brosi. Ég man vel eftir því þegar við krakkarnir vorum uppi á lofti á Lækjarbakka og hlustuðum á plötur, þar á meðal plötu sem á var leikrit um „Sannleiksfestina“. Þá sungum við alltaf hástöfum með. Í dag á ég „Sannleiksfestina“ á spólu, hlusta oft á og hugsa til góðu stundanna á Lækjarbakka með þakklæti.

Mig langar því að þakka Hebba og Fríðu fyrir allt gott og bið Guð að blessa minningu þeirra.

Til barna þeirra og fjölskyldna votta ég ykkur mína dýpstu samúð.

Guð veri með ykkur öllum.

Guðrún Lára Pálsdóttir.