Norðfjörður Búið er að leggja vegslóð að væntanlegum jarðgangamunna í Norðfirði. Vegurinn verður gerður úr efni sem fæst við gangagerðina.
Norðfjörður Búið er að leggja vegslóð að væntanlegum jarðgangamunna í Norðfirði. Vegurinn verður gerður úr efni sem fæst við gangagerðina. — © Mats Wibe Lund www.mats.is
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Guðni Einarsson gudni@mbl.is Byrjað verður að grafa ofan af stæði gangamunna Norðfjarðarganga í Eskifirði í næstu viku.

Guðni Einarsson

gudni@mbl.is

Byrjað verður að grafa ofan af stæði gangamunna Norðfjarðarganga í Eskifirði í næstu viku. Stefnt er að því að sprengingar fyrir göngunum Eskifjarðarmegin hefjist snemma í nóvember og Norðfjarðarmegin í janúar 2014, að sögn Eysteins J. Dofrasonar hjá Suðurverki.

Nú er unnið að því að tengja vinnubúðir í Eskifirði við vatn, rafmagn og hitaveitu. Þær munu rúma 40 manns og eiga að verða tilbúnar eftir um mánuð. Þar verða einnig skrifstofur. Aðrar vinnubúðir og skrifstofur verða reistar Norðfjarðarmegin. Búðirnar í Norðfirði verða nokkra kílómetra frá gangamunnanum í Norðfirði. Þá verða reistar samtals sex upphitaðar skemmur, þrjár hvorum megin, sem notaðar verða sem geymslur fyrir sprengiefni, grautunarefni, íblöndunarefni í steypu o.fl. Einnig verða þar viðgerðarverkstæði.

Vegagerðin hefur lagt vegslóð í Norðfirði að væntanlegum gangamunna. Slóðin er gerð í fyrirhugaðri veglínu að göngunum. Efni úr göngunum verður svo notað til að byggja upp framtíðarveg í Norðfirði.

„Okkar hluti af vinnuvélum og tækjum er að mestu leyti hér á landi og eitthvað kemur nýtt. Metrostav er byrjað að senda bora og græjur til landsins. Við byrjum í næstu viku að grafa ofan af gangamunnanum Eskifjarðarmegin,“ sagði Eysteinn. En hvað vinna margir við verkefnið?

„Það eru margir að vinna í þessu þótt þeir séu ekki á staðnum. Við erum líka með undirverktaka og að byggja upp okkar mannskap á staðnum. Metrostav kemur með sinn mannskap þegar búðirnar eru klárar,“ sagði Eysteinn.

Hann reiknaði með að 50-60 manns ynnu við verkið þegar umsvifin yrðu hvað mest. Til að byrja með er reiknað með 15-20 starfsmönnum hvorum megin við sprengivinnuna.

Vestfirðir og Narvik

Suðurverk vinnur nú að vegagerð á sunnanverðum Vestfjörðum. Vegarkaflinn er frá Vattarfirði í gegnum Mjóafjörð, inneftir Kerlingarfirði og inn í Kjálkafjörð. Einnig er Suðurverk undirverktaki hjá Ístaki við vegagerð í Narvik í Noregi. Um 35-40 manns vinna við það verk og er helmingurinn heima og helmingurinn úti hverju sinni. Því verki á að ljúka eftir tæp þrjú ár.

Félögin Suðurverk og hið tékkneska Metrostav áttu lægsta tilboðið í gerð Norðfjarðarganga. Tilboðið hljóðaði upp á 9,3 milljarða króna. Samkvæmt upplýsingum á verkefnavef Vegagerðarinnar er reiknað með því að 2/3 ganganna verði grafnir frá Eskifirði en 1/3 frá Norðfirði. Meiri hluta ganganna mun halla upp til Norðfjarðar. Gegnumbrot gæti orðið snemma ársins 2016 gangi allt eftir áætlun.

Unnið er að brúargerð yfir Norðfjarðará vegna gangagerðarinnar og vegagerð að göngunum er hafin. Eskifjarðará verður brúuð 2015. Stefnt er að því að göngin verði opnuð fyrir umferð í september 2017.

Ekið verður upp í móti

Heildarlengd Norðfjarðarganga með vegskálum er áætluð vera 7.908 metrar. Þar af er lengd ganga í bergi áætluð vera 7.542 metrar og vegskálarnir verða samtals 366 metrar. Til samanburðar má nefna að Hvalfjarðargöng með vegskálum eru 5.770 metra löng.

Gangamunninn Eskifjarðarmegin verður í 15 metra hæð yfir sjó (m.y.s.). Ekið verður upp í móti og fara göngin hæst í 175 m.y.s. í miðjum göngunum. Þaðan hallar aftur niður og verður gangamunninn Norðfjarðarmegin í 125 m.y.s.

Nýir vegir verða gerðir beggja vegna gangamunna, um 2 km vegur í Eskifirði og 5,3 km vegur í Norðfirði.