Kínverskir hermenn Höfundur segir að niðursveifla í Kína geti haft neikvæð áhrif á hin ríki Asíu.
Kínverskir hermenn Höfundur segir að niðursveifla í Kína geti haft neikvæð áhrif á hin ríki Asíu. — AFP
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Eftir Lee Jong-Wha: "Þessar spár um „harða lendingu“ eru ýktar. En vegurinn framundan er grýttur og torfær."

Seoul | Hraður vöxtur efnahagsins í Kína felur óneitanlega í sér mikinn ágóða fyrir hin ríkin í Asíu. Í raun hefur mikil eftirspurn í Kína haldið uppi hagvexti viðskiptalanda sinna, sem byggist mest á útflutningi, lungann af síðustu þrjátíu árum. En nú, þegar hægist um hjá Kínverjum með verulegri hættu á niðursveiflu, verða hin Asíuríkin að hætta að treysta um of á útflutningsgreinar og reyna að tryggja stöðugan og sjálfbæran vöxt bæði innanlands og innan heimsálfunnar.

Veikleikar Kína og hætturnar þar – sem eiga upptök sín í fasteignabólum, skuggabankakerfi og skuldsetningu á sveitarstjórnarstigi – hafa valdið áhyggjum um að kreppa sé aðvífandi ekki bara þar heldur einnig í nágrannalöndunum. Sumir spá nú kínverskri banka- eða fjármálakreppu, aðrir spá langtímastöðnun sem jafnast á við týndu áratugina í Japan.

Þessar spár um „harða lendingu“ eru ýktar. En vegurinn framundan er grýttur og torfær. Það er ekki öruggt að tilraunir Li Keqiang, forsætisráðherra Kína, til þess að draga úr skuldsetningu og gera umbætur á regluverki landsins muni heppnast. Að auki gætu ytri áföll, mistök í stefnugerð og pólitísk óvissa skemmt fyrir jafnvel bestu áætlunum.

Hvað sem öðru líður er ekki hægt að viðhalda hinum miklahagvexti sem Kínverjar hafa náð. Jafnvel þó að „mjúk lending“ náist, mun vöxtur í framleiðslu á ársgrundvelli minnka niður í 5-6% á næstu áratugum. Hefðbundnar kenningar um hagvöxt spá „samleitni“ á þjóðarframleiðslu miðað við höfðatölu: Land sem vex hratt mun á endanum lenda í vandræðum með að halda uppi mikilli þátttöku á vinnumarkaði, auðmagnssöfnun og tækniframförum.

Vinnustundum hefur fækkað í Kína sökum minnkandi frjósemi og öldrunar. Minni ávöxtun leiðir af sér minni fjárfestingu. Kína mun hugsanlega geta treyst á umbætur í stefnumótun til þess að örva framleiðni; en, þar sem landið hefur tiltölulega litla getu til nýsköpunar, mun Kína eiga erfitt með að ná í fremstu röð tækninnar.

Hin óumflýjanlega kæling í Kína, ásamt ólíklegri áhættu, ógnar stöðugum hagvexti Asíuríkja sem hafa farið að treysta meir og meir hvert á annað. Viðskipti innan Asíu nema nú meira en helmingi af heildarveltu heimsálfunnar. Á sama tíma stuðla beinar fjárfestingar og flæði fjármagns enn frekar að efnahagslegri samþættingu.

Hin auknu viðskipti innan Asíu endurspegla hið veigamikla hlutverk sem Kína hefur í framleiðsluferlum álfunnar. Á árunum 2001 til 2011 tvöfaldaðist hlutur Kínverja í útflutningi Suður-Kóreu, frá 12% í 24%; hlutur Kínverja í útflutningi Japana óx enn hraðar og fór úr 8% í 20%. Kínverjar eru því langstærstu viðskiptavinir Suður-Kóreu og næststærstu viðskiptavinir Japana. Landið er einnig helsti viðskiptavinur allra ríkjanna tíu í Samtökum ríkja í Suðaustur-Asíu (ASEAN).

En hin aukna samþætting Asíuríkja á sviði viðskipta og fjármála hefur gert þau veikari fyrir áföllum frá Kína, þar sem útflytjendur vöru og fjármagnseigna eru sérstaklega í hættu. Rannsókn Asíuþróunarbankans sýnir að skellur í Kína hefði meiri og varanlegri áhrif á efnahag einstakra Asíuríkja en áföll á alheimsmarkaði, þar sem 1% aukning í landsframleiðslu Kínverja jók landsframleiðslu þróunarríkja Austur-Asíu um 0,6%.

Þegar horft er á fjárfestingu spáir Alþjóðagjaldeyrissjóðurinn því að skerðing á uppsveiflunni sem hefur verið í Kína gæti haft neikvæð áhrif á viðskiptaþjóðir landsins. Fall um eitt prósentustig í fjárfestingum Kínverja myndi minnka hagvöxt í Taívan um 0,9 prósentustig og í Kóreu um 0,6 prósentustig.

Ef Kínverjum tekst að jafna út efnahag sinn og leggja meiri áherslu á einkaneyslu gætu viðskiptaþjóðir þeirra hagnast mjög á stórum smásölumarkaði. En svo lengi sem innflutningsvörur eru lítill hluti af neyslu verður beinn hagnaður útflutningsaðila líklega lítill.

Á sama tíma og þau búa sig undir kælingu kínverska hagkerfisins og reyna að lágmarka hættuna á óstöðugleika í álfunni, verða hin Asíuríkin að styrkja innlenda eftirspurn og draga úr oftrausti á útflutningsvörum til Kína. Með öðrum orðum krefst sjálfbær hagvöxtur þess að öll Asíuríkin sem treysta á Kína stilli af eigin hagvöxt.

Ef Asíuríkin, Kína þar á meðal, ætla sér að auka innlenda eftirspurn verða þau að forgangsraða öðruvísi og umbreyta umgjörð efnahagslífsins. Með því að styrkja félagsleg öryggisnet, breikka og dýpka fjármálamarkaði og styðja við lítil og meðalstór fyrirtæki myndu þau einnig styrkja eftirspurnina. Á sama hátt verður aukið viðskiptafrelsi þjónustugeirans nauðsynlegt til þess að tryggja framleiðni og skapa atvinnu. Í stuttu máli má segja að umbætur á sköttum, fjármálum og umgjörð geti dregið úr smitflæði frá samdrættinum í Kína.

En það verður að opna á aðra víglínu umbóta sem miðar að samvinnu innan heimshlutans. Þar sem áföll í efnahagslífinu geta dreift sér núna hraðar en nokkru sinni, vegna aukinna milliríkjaviðskipta og fjármálaleiða, verða öll Asíuríkin að viðhalda réttu þjóðhagslegu umhverfi.

Hugsanlega er mikilvægast að dýpri tengsl ríkja í heimshlutanum kalla á nánari samvinnu í fjármálaeftirliti og þjóðarhagfræði, líkt og Chiang Mai-gjaldmiðlaskiptasamningurinn kallar á. Ríki Asíu verða að geta gert vel samstilltar og heiðarlegar skoðanir á stöðu hvert annars til þess að minnka líkurnar á áhættu og geta skynjað veikleika sem eru að myndast.

Hagvaxtarmöguleikar Kínverja til lengri tíma – sem og möguleikar annarra þróunarríkja í Asíu – eru ekki fyrirframgefnir. Eigi að hámarka þá þurfa einstakar þjóðir ekki bara að takast á við veikleika sína og endurskoða vaxtarmöguleika sína, heldur þurfa þær einnig að byggja á og styrkja þær stofnanir í heimsálfunni sem þarf til þess að stýra samþættingu efnahagsins.

Höfundur er prófessor í hagfræði og stjórnandi Asiatic Research Institute við Háskólann í Kóreu. Hann var yfirhagfræðingur og skrifstofustjóri hjá Asíuþróunarbankanum og var einnig ráðgjafi í efnahagsmálum fyrir Lee Myung-bak, fyrrverandi forseta Suður-Kóreu. ©Project Syndicate, 2013. www.project-syndicate.org