Dansari Brynja fer á hverju ári til útlanda að læra meira í dansi. Hér er hún í Brooklyn síðastliðið sumar.
Dansari Brynja fer á hverju ári til útlanda að læra meira í dansi. Hér er hún í Brooklyn síðastliðið sumar.
[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Líf hennar snýst um dans og hún fer á hverju ári til New York og Parísar til að læra meiri dans. Hún ætlar að halda danseinvígi þar sem frægur dansari dæmir.

Kristín Heiða Kristinsdóttir

khk@mbl.is

Ég féll fyrir hipphopp-menningunni og tónlistinni þegar ég var níu ára. Þá byrjaði ég að hlusta á tónlistarmanninn Tupac og ég varð alveg heltekin af hipphoppi og rappi. Mig langaði að læra að dansa þessa dansstíla en það var ekki í boði hér á landi þá. Það var ekki fyrr en ég var orðin fimmtán ára sem ég fór í fyrsta hipphopp-danstímann minn, hjá henni Natöshu,“ segir Brynja Pétursdóttir en hún stendur fyrir dansviðburði núna í október sem er einvígi kennt við streetdans. „Ég hélt svona keppni í fyrsta skipti í fyrra, án þess að vita við hverju ég mætti að búast. Ég ákvað bara að virkja dansarana og sjá hvort þetta gengi upp. Og það gekk vel. Dagurinn fór fram úr mínum björtustu vonum. Hér á Íslandi hefur alveg vantað vettvang fyrir streetdansara, því við pössum ekki inn í danskeppnir þar sem dómarar hafa ekki þekkingu á þessum dansstílum.“

Hrár og einlægur dans

Brynja segir streetdans vera regnhlífarhugtak yfir marga ólíka dansstíla, t.d. hipphopp, dancehall, waacking, break og popping.

„Allir þessir dansstílar eiga uppruna sinn á götunni og eru stundaðir þar eða á klúbbum, þar sem fólk kemur saman til að skemmta sér. Flestir þessir dansstílar koma frá New York, en þeir eru líka frá Los Angeles, Jamaíku og fleiri stöðum.“ Í streetdans-einvígi eins og Brynja ætlar að halda mætast tveir dansarar. „Sterkari dansarinn heldur áfram í næstu umferð og svo koll af kolli þar til einn stendur uppi sem sigurvegari. Einnig er keppt í hópaflokki þar sem danshópar sýna frumsamin atriði. Sjónarspilið er engu líkt og áhorfendur fá að sjá flotta dansara dansa á hráan og einlægan máta.“

Vann fyrir Michael Jackson

Dómarar keppninnar eru reyndustu streetdansarar landsins, en auk þess hefur Brynja fengið til landsins gestadómara, sjálfan Buddha Stretch. „Hann er frumkvöðull í hipphopp-dansi, maðurinn sem skírði hipphopp-stílinn. Hann er heimsfrægur og hefur unnið sem danshöfundur fyrir Michael Jackson, Mariah Carey, Will Smith og fleiri. Ég datt næstum á hnakkann þegar hann stakk sjálfur upp á því að hann kæmi hingað að dæma í keppninni minni og halda námskeið. Ég trúði því varla,“ segir Brynja sem hefur sjálf verið í læri hjá honum úti í New York undanfarin sex ár. „Ég lagðist í flakk árið 2006, fór fyrst til London en svo til New York, fyrst og fremst til að læra að dansa. Ég fer ennþá í tvo til þrjá mánuði á hverju ári til New York og Parísar til að læra meira í dansinum. Ég lærði líka magadans og var lengi í honum.“

Fyrir tveimur árum stofnaði Brynja dansskólann sinn, Dans Brynju Péturs, hér heima á Íslandi og fór af stað með námskeið í streetdönsum. „Streetdansinn er vaxandi hér og margir krakkar að læra. Það er mikilvægt að halda svona danskeppni og bjóða upp á námskeið með fólki eins og Buddha Stretch, til að halda uppi standard í þessum dansstílum. Það skiptir máli að dansarar séu með metnað og afli sér þekkingar, svo dansstíllinn þrífist hér og haldi áfram.“

Styrkið einvígið

Það kostar sitt að halda danskeppni og hægt er að styrkja dansviðburðinn á Karolina fund í gegnum vefsíðuna: karolinafund.com/project/view/163. Þar er líka hægt að kaupa miða á viðburðinn. Brynja leitar einnig að fyrirtækjum sem vilja heita myndarlegum upphæðum og fá í staðinn góða auglýsingu.
Allir eru velkomnir á keppnina sem verður 21.-26. október. Í vikunni fyrir keppnina ætlar Buddha Stretch að halda námskeið fyrir íslenska dansara og vera með fyrirlestur. Opið er fyrir skráningu á vefsíðunni www.brynjapeturs.is, fyrir alla sem vilja taka þátt í einvíginu og/eða skrá sig á námskeiðsvikuna.