17 ára Maríanna Óskarsdóttir var búin að safna sér fyrir bíl og keypti sér bíl á mánudaginn var sem hún staðgreiddi.
17 ára Maríanna Óskarsdóttir var búin að safna sér fyrir bíl og keypti sér bíl á mánudaginn var sem hún staðgreiddi.
Ég hef hlakkað til frekar lengi að verða sautján,“ sagði Maríanna Óskarsdóttir, sem á 17 ára afmæli í dag. En hvers vegna þessi tilhlökkun? „Það er bæði bílprófið og meira sjálfstæði sem fylgir því,“ sagði Maríanna.

Ég hef hlakkað til frekar lengi að verða sautján,“ sagði Maríanna Óskarsdóttir, sem á 17 ára afmæli í dag. En hvers vegna þessi tilhlökkun?

„Það er bæði bílprófið og meira sjálfstæði sem fylgir því,“ sagði Maríanna. „Ég á heima í Grindavík og er í Menntaskólanum í Kópavogi. Stundum gisti ég hjá vinkonu minni og reyni að gista í bænum þegar ég get.“

Maríanna sagði að það hefði verið mjög fínt að alast upp í rólegu umhverfi Grindavíkur. Hún hefur unnið í Grindavík á sumrin og vann í sumar á Northern Light Inn í Grindavík. Maríanna vinnur þar aðra hverja helgi í vetur með skólanum. Er hún ef til vill að safna sér fyrir bíl?

„Ég er búin að kaupa mér bíl,“ sagði Maríanna. „Ég keypti mér rauðan Suzuki Swift á mánudaginn var. Ég byrjaði að safna mér fyrir bíl mjög ung og hef aldrei eytt peningum. Ég staðgreiddi bara bílinn!“ Hún hóf ökunámið fljótlega eftir að hún varð sextán ára og fór í ökuskóla. Maríanna fer í verklega bílprófið á þriðjudaginn kemur. Gangi það vel þá fær hún ökuskírteinið. En ætlar hún að gera eitthvað sérstakt í tilefni afmælisins?

„Já, ég ætla að fara út að borða með vinkonum mínum og halda upp á þetta,“ sagði Maríanna. gudni@mbl.is