[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Jón Axel fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í Bústaðahverfinu og að hluta til hjá afa sínum og ömmu, Elísu og Jóni. Hann var í Fossogsskóla, Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla en hætti þá í námi og fór að vinna.

Jón Axel fæddist í Reykjavík og ólst þar upp í Bústaðahverfinu og að hluta til hjá afa sínum og ömmu, Elísu og Jóni. Hann var í Fossogsskóla, Breiðagerðisskóla og Réttarholtsskóla en hætti þá í námi og fór að vinna.

Jón Axel sótti síðar ýmis námskeið í bókhaldi, fjármálaumsýslu, markaðssetningu fjölmiðla, fjármögnun fjölmiðla, leiðtogahæfni og hagfræði nútímaviðskipta. Hann lauk BSc-prófi í viðskiptafræði við HR 2004 og MBA-prófi frá sama skóla 2006.

Jón starfaði hjá O. Johnson & Kaaber 1984-86. Hann hóf störf sín á fjölmiðlum með Pétri Steini Guðmundssyni á Rás eitt, sumarið 1983, varð síðan dagskrárgerðarmaður á Rás 2, við opnun hennar í desember 1983-86 og síðan á Bylgjunni við stofnun hennar. Hann stofnaði útvarpsstöðina Stjörnuna með Gunnlaugi Helgasyni, Þorgeiri Ástvaldssyni og Ólafi Laufdal sumarið 1987 en hún varð brátt vinsælasta útvarpsstöð landins og naut mikilla vinsælda næstu þrjú árin. Þá stofnaði hann útvarpsstöðina Matthildi og starfrækti hana 1997-99.

Jón Axel var stofnandi, eigandi og stjórnarformaður Markaðsfélagsins 1989-99 og sá þá um margvíslega ráðgjöf fyrir fjölda fyrirtækja, s.s. Ingvar Helgason, Vífilfell, Samskip, Baðhúsið, Úrval-Útsýn, Icelandair og Vodafone er fyrirtækið var að hefja göngu sína.

Allt í öllu í fjölmiðlum

Jón Axel var annar þáttastjórnenda útvarpsþáttanna Tveir með öllu á Bylgjunni sem slógu öll hlustendamet á sínum tíma. Hann sá um endurskoðun á dagskrá, markaðssetningu, úsendingartíðni, auglýsingamarkaði og endurfjármögnun Bylgjunnar á árunum 1992-93, stjórnaði söfnununum Samhugur í verki sem staðið var að vegna snjóflóðanna í Súðavík og á Flateyri 1995 en u.þ.b. 1.500 sjálfboðaliðar komu að þeim söfnunum, sinnti sérverkefnum og ráðgjöf fyrir stjórn Íslenska útvarpsfélagsins, skipulagði og sá um framkvæmd á myndlyklakerfi Stöðvar 2, vann að uppsetningu á fjölvarpi Stöðvar 2 og skipulagði og sá um framkvæmd á nýju dreifikerfi Stöðvar 2.

Jón Axel var eigandi, stjórnarformaður og framkvæmdastjóri Íslenska fjölmiðlafélagsins hf. 1997-99. Hann var ráðgjafi Dale Carnegie á Íslandi 2000-2001, var yfirmaður við 365 miðla á árunum 1999-2003 þar sem hann m.a. hafði yfirumsjón með auglýsingasölu útvarps- og sjónvarpsstöðva félagsins, rekstri útvarpsstöðva þess, sinnti stjórnarstörfum í félaginu og sérverkefnum og ráðgjöf fyrir stjórn þess, sinnti ráðgjöf fyrir Aserta ehf. - Financial 2003-2006 og fyrir Nova 2006-2007, var ráðgjafi fyrir Árvakur, útgáfufélag Morgunblaðsins frá vori 2007, og var markaðs- og þróunarstjóri félagsins 2008-2009.

Útgáfufyrirtækið Edda

Fjárbakki ehf., fyrirtæki Jóns Axels og bróður hans, Jóhanns Garðars Ólafssonar, festi kaup á Eddu útgáfu hf. í febrúar 2009 og er Jón Axel stjórnarformaður Eddu.

Edda var þá önnur stærsta útgáfa landsins með bókaklúbba og almenna útgáfu sem kjarnastarfsemi. Edda er auk þess útgefandi Disney-bóka og blaða á Íslandi og hefur yfirburðamarkaðsstöðu á því sviði. Nú hefur Edda gert saminga um sölu og dreifingu á Disney-efni í Bandaríkjunum og Kanada, fyrst útgáfufyrirtækja utan þessara landa.

Jón Axel hefur verið félagi í Frímúrarareglunni frá 1985.

Fjölskylda

Börn Jóns Axels eru Kristín Ruth Jónsdóttir, f. 3.1. 1986, háskólanemi og viðskiptastjóri, en maður hennar er Karim Djermoun framkvæmdastjóri; Ólafur Ásgeir Jónsson, f. 22.12. 1993, nemi, en kona hans er Ragnheiður Emilía Auðunsdóttir nemi.

Systkini Jóns Axels eru Ólafur Ragnar Ólafsson, 14.8. 1970, skáld, búsettur í Reykjavík; Jóhann Garðar Ólafsson, f. 21.4. 1977, ljósmyndari, hönnuður og listamaður, búsettur í Reykjavík.

Foreldrar Jóns Axels: Ruth Halla Sigurgeirsdóttir, f. 29.1. 1946, d. 1.8. 2007, skrifstofumaður hjá Sameinaða lífeyrissjóðnum, og Ólafur Axelsson, f. 6.7. 1944, húsasmíðameistari hjá Árbæjarsafni.