Farsinn um aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur áfram enda ekki við öðru að búast þegar tjaldið er aðeins dregið að hluta til fyrir og gestunum ekki hleypt út úr leikhúsinu.

Farsinn um aðild Íslands að Evrópusambandinu heldur áfram enda ekki við öðru að búast þegar tjaldið er aðeins dregið að hluta til fyrir og gestunum ekki hleypt út úr leikhúsinu.

Nýjasta vendingin í verkinu er bréf frá ASÍ, SA og VÍ til forsætisráðherra þar sem tilkynnt er um áform þessara þrennra samtaka um að gera „úttekt á aðildarviðræðum við Evrópusambandið, þróun ESB og valkostum í efnahagsmálum.“

Þessi samtök hafa hver með sínum hætti beitt sér fyrir því að Ísland gerist aðili að Evrópusambandinu, þvert á vilja félaga sinna, og reyna nú að halda þeirri baráttu lifandi með því að taka þátt í úttektarhluta ESB-farsans.

Og það segir ýmislegt um erindi samtakanna þrennra og hið sérkennilega „hlé“ sem gert hefur verið á aðlögunarviðræðunum að samtökin vilja ekki aðeins að lagt verði mat á stöðu viðræðnanna við ESB heldur einnig „hvaða áhrif hlé[i]ð hafi á framvindu viðræðna“.

Einnig segir nokkuð um áform samtakanna þrennra með úttektinni að þau taka fram að þau viti til þess að ríkisstjórnin sé að ræða við Hagfræðistofnun um að gera slíka úttekt, en þau bjóða engu að síður upp á samstarf um úttektina og virðast, ef marka má texta bréfsins, telja það nauðsynlegt til að úttektin verði „hlutlæg og greinargóð“.

Er ekki rétt að ríkisstjórnin taki nú af skarið og hleypi gestunum út úr þessu leikhúsi fáránleikans?