[ Smellið til að sjá stærri mynd ]
Mengun í hafinu við Austur-Grænland hefur aukist verulega á síðustu þremur áratugum með þeim afleiðingum að ófrjósemi herjar í auknum mæli á ísbirni.

Mengun í hafinu við Austur-Grænland hefur aukist verulega á síðustu þremur áratugum með þeim afleiðingum að ófrjósemi herjar í auknum mæli á ísbirni. Kyn sumra þeirra er jafnvel horfið, það er vísindamenn eiga ekki gott með að greina hvors kyns dýrin eru. Nú er loksins að rofa til vegna banns við losun spilliefna. Orri Páll Ormarsson orri@mbl.is

V ið veiðimennirnir erum ekki stóra ógnin við lífríkið eða ísbjörninn, heldur hlýnun og mengun jarðarinnar. Hún er ekki okkur að kenna. Þeir sem vilja kasta steinum í okkur fyrir að draga fram lífið með veiðum ættu ef til vill að líta í eigin barm.“

Þannig kemst Hjelmer Heimeken veiðimaður á Austur-Grænlandi að orði í niðurlagi samtals sem Ragnar Axelsson á við hann í þessu blaði.

Erlingur Hauksson, sjávarlíffræðingur hjá Selasetri Íslands, segir hlýnun jarðar og mengun í norðurhöfum tvennt ólíkt en áhyggjur manna af skaðlegum áhrifum mengunar hafi sannarlega aukist á umliðnum áratugum. „Þegar maður skoðar vísindagreinar frá því um 1980 kemur í ljós að menn höfðu ekki miklar áhyggjur af áhrifum mengunar á lífríki á norðurslóðum. Þetta hefur gjörbreyst síðan.“

Að sögn Erlings hefur mengun í hafi aukist verulega á þessum þremur áratugum og nú er svo komið að margvísleg spilliefni hafa verið bönnuð af þessum sökum. Sökudólgarnir eru öðrum fremur landbúnaður og iðnaður í Asíu og Norður-Evrópu en eiturefni berast til sjávar með ám og þannig norður á bóginn, þar sem þau eru farin að gera usla í lífríkinu. Efnin berast, að sögn Erlings, efst í sjónum og þar með um allt með yfirborðsstraumnum í Norður-Íshafinu. Yfirborðssjórinn er kaldur og þarf að hlýna talsvert eigi eiturefnin að sökkva með honum.

Ekki er við Grænlendinga sjálfa að sakast í þessum efnum, þeir valda ekki menguninni. Erlingur segir ábyrgð okkar Íslendinga líka hverfandi, ef nokkra. Við séum ekki að losa þessi efni í neinum marktækum mæli.

Frumskógur af efnum

„Þetta er frumskógur af efnum,“ segir Erlingur en samheiti efnanna sem um ræðir er Xenoendocrine eiturefni. Hann nefnir sem dæmi PCB sem mikið er notað í iðnaði, svo sem í stóra þétta, rafgeyma og þess háttar. Þá talar hann um DDT sem er í skordýraeitri og fleiru. Erlingur segir sum þessara efna geta borist með lofti líka en það sé ekki talið eins mikið vandamál á þessum slóðum.

Hann segir ástandið sérstaklega slæmt á Austur-Grænlandi en úr því efnin hafi verið bönnuð ætti það að skána nokkuð hratt. Þar miðar hann við Eystrasaltið en ástandið var svipað þar fyrir um hálfri öld. Með samstilltu átaki, sem fólst aðallega í því að banna ákveðin efni, tókst að bæta það ástand til mikilla muna.

Ísbjörninn er efstur í fæðukeðjunni á Grænlandi og fyrir vikið hefur mengunin mest áhrif á hann. Ísbjörninn fær nefnilega allt í sig sem er í dýrum, sem hann étur. Öll eru þessi eiturefni fitusækin og geymast vel þar og ísbjörninn er sérstaklega sólginn í orkuríkt selspik. Húnarnir drekka svo efnin í sig með móðurmjólkinni. Það getur haft þær afleiðingar að þeir verða óvenju smáir og/eða ná ekki fullum þroska.

Þetta á alls ekki við um alla ísbirni en að sögn Erlings benda rannsóknir til þess að um þriðjungur bjarna á Austur-Grænlandi hafi orðið fyrir einhverjum áhrifum mengunar.

Getur leitt til ófrjósemi

Stærsta vandamálið er ófrjósemi. Vísindamenn hafa mælt stærð kynfæra ísbjarna og ekki er um að villast, hún fer minnkandi. Bæði hefur dregið úr vigt og reðurbein (baculum) og eistu ísbjarna minnkað í hlutfalli við mengunarefni í dýrunum. Annar fylgikvilli mengunarinnar er beinþynning og þannig eykst hættan á því að reðurbeinið hreinlega brotni við mökun. Eftir það er karldýrið ekki til stórræðanna.

Vanþroski í eistum er einnig vaxandi vandamál sem gerir vísindamönnum jafnvel erfitt um vik þegar greina á kyn dýra. Segja má að þau verði kynlaus. „Þetta þýðir að birnirnir hafa ekki lengur líkamlega burði til að æxla sig og þar af leiðandi fjölga sér. Þeir geta einnig verið með latt sæði, eins og sagt er á fagmáli. Það eru eðli málsins samkvæmt vond tíðindi fyrir stofninn,“ segir Erlingur. „Þetta getur verið vandamál í selum líka en ekki hefur borið á því á Austur-Grænlandi.“

Séu birnir með skerta kynhormónaframleiðslu og verði kynþroska eldri en eðlilegt er, sýna rannsóknir að það geti lengt vaxtarskeið þeirra. Þetta kemur heim og saman við það sem veiðimenn á Austur-Grænlandi hafa verið að segja Ragnari Axelssyni. Þeir fullyrða að birnirnir fari stækkandi. „Karldýrin þurfa oftar en ekki að fara yfir langan veg til að finna förunaut,“ segir Erlingur og hafi þau ekki lengur áhuga á því er hætt við því að þau fitni bara eins og púkinn á fjósbitanum.

Mengandi efni í kvendýrunum er enn meira áhyggjuefni. Rannsóknir sýna nefnilega að eggjastokkar birnanna eru að skreppa saman og gæði eggjanna að versna. Verði birnurnar ófrjóar er lítið sem birnirnir geta gert til að viðhalda stofninum, jafnvel þó þeir hafi getu og vilja til þess.

Vísindamenn hafa sýnt fram á að eiturefnin hafa líka áhrif á ónæmiskerfi bjarnanna og gera þá þannig viðkvæmari fyrir allskyns sjúkdómum.

Efast um að kjötið sé hollt

Veiðimenn á Grænlandi hafa kvóta til að veiða ísbirni og leggja sér kjötið til munns. Hafi dýrið orðið fyrir mengun segir Erlingur það geta verið varasamt. „Ég leyfi mér alltént að efast um að það sé hollt,“ segir hann.

Erlingur þekkir ekki til slíkra rannsókna en telur líklegra en hitt að téð spilliefni geti haft samskonar áhrif á menn og dýr. Nefnir hann ófrjósemi í því sambandi og jafnvel krabbamein. Ragnar Axelsson segir heimamenn á Austur-Grænlandi hafa tilfinningu fyrir því að tíðni krabbameins hafi aukist þar um slóðir á síðustu árum.

Um er að ræða efni sem skila sér mjög hægt út úr líkamanum, geri þau það yfirhöfuð. „Þau festast í spikinu og fara yfirleitt í „gröfina“ með dýrinu og þaðan út í jarðveginn eða hafið með rotnun þess,“ segir Erlingur. „Það er með þetta eins og margt annað, það er of seint að byrgja brunninn þegar barnið er dottið ofan í hann. Þess vegna duga fyrirbyggjandi aðgerðir best í þessu sambandi. Það er ef til vill of seint að bjarga þeim dýrum sem þegar hafa orðið fyrir mengun en með hliðsjón af þeim góða árangri sem náðist í Eystrasaltinu er ástæða til bjartsýni fyrir hönd komandi kynslóða ísbjarna og annarra dýra í lífríkinu á Austur-Grænlandi.“