Helgi Vífill Júlíusson helgivifill@mbl.is Íslenska úrvalsvísitalan sem mælir gengisþróun hlutabréfa í Kauphöll hefur ekki hækkað jafn mikið það sem af er ári og aðrar úrvalsvísitölur á Norðurlöndum, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd.

Helgi Vífill Júlíusson

helgivifill@mbl.is

Íslenska úrvalsvísitalan sem mælir gengisþróun hlutabréfa í Kauphöll hefur ekki hækkað jafn mikið það sem af er ári og aðrar úrvalsvísitölur á Norðurlöndum, líkt og sjá má á meðfylgjandi mynd. Vísitala sem Greining Íslandsbanka setti saman til að mæla gengisþróun á íslenska hlutabréfamarkaðnum hefur hins vegar hækkað um 21% sem er meiri hækkun en hjá grannþjóðum okkar.

Kristján Markús Bragason, umsjónarmaður hlutabréfagreiningar hjá Greiningu Íslandsbanka, rekur ástæðu þess að íslenska úrvalsvísitalan hafi hækkað minna en á Norðurlöndum til þess að Össur hafi vegið þungt í vísitölunni allt fram á mitt ár, þegar félagið var tekið úr vísitölunni, en á þeim tíma hafi lítil viðskipti verið með bréf félagsins og gengið lækkaði um 15,5%. Á sama tíma hafi önnur félög hækkað mikið.

Eigin vísitala

Hann segir að ákveðið hafi verið að smíða eigin vísitölu þar sem starfsmönnum bankans þótti úrvalsvísitalan ekki endurspegla þróun á hlutabréfamarkaði. Vísitalan er samsett einu sinni á mánuði af þeim félögum sem samtals mynda 90% af veltu á hlutabréfamarkaði undanfarna þrjá mánuði.

Sérfræðingum á markaði sem Morgunblaðið ræddi við þykir vert að nefna að þegar rætt er um bólumyndun á hlutabréfamarkaði vegna gjaldeyrishafta og mikillar fjárfestingarþarfar hjá lífeyrissjóðum þá hafi þau félög sem ekki hafi skilað góðum uppgjörum í ár, þ.e. Marel, Össur, Eimskip og Vodafone, lækkað það sem af er ári. Þeir segja að það sé merki um að markaðurinn sé skilvirkur þrátt fyrir erfið skilyrði. Önnur félög hafa aftur á móti hækkað mikið. Icelandair hefur hækkað um 85% það sem af er ári og Hagar um 47%.

Icelandair hefur
hækkað um 85%
» Icelandair hefur hækkað um 85% það sem af er ári og Hagar um 47%
» Félög sem skilað hafa uppgjörum sem ekki þykja góð hafa lækkað það sem af er ári.
» Á þetta við um félög eins og Marel, Össur, Eimskip og Vodafone.